miðvikudagur, mars 07, 2007

Hver man lyktina af plástrinum og gulbrúna jukkinu sem notað var í berklaprófum?

Sótti nokkra kassa á gamla heimilið. Rótaði í gulnuðum sendibréfum og alls kyns dóti úr grárri forneskju. Tökum örfá dæmi um fortíðarbita baunarinnar...

- Tugir bréfa frá pennavinkonu í Singapore, en við byrjuðum að skrifast á 11 ára gamlar. Í dag sendum við bara jólakort. Á nokkur manneskja pennavini lengur?

- Heilsufarsbókin mín. Þar stendur að ég hafi vegið 3500 g og verið 50 sm löng við fæðingu. Síminn hjá hjúkrunarkonunni sem mamma mátti hafa samband við var 19127.

-Efnisskrá tónleika að Reykjalundi, frá árinu 1973, þar sem ég og nokkrir aðrir nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs tróðum upp. Ég spilaði Menúett eftir Pleyel. Hef ekki hugmynd um hvernig sá menúett hljómar, hvað þá að ég kunni að spila hann.

- Fermingarslæðan mín ásamt fermingarmynd. Ljósmyndarinn sendi mig heim eftir að hafa smellt af mér mynd þrisvar sinnum. Sagði að hárið á mér væri "ómögulegt". Ég á því bara þrjár ómögulegar fermingarmyndir af mér. Ósköp sem ég var mjó. Og enn þann dag í dag er ég með "ómögulegt" hár, en þó ekki sama hárið. Fermingarhárið er löngu vaxið upp og út og suður og nýtt komið í staðinn. Hár sprettur (og af sumum dettur).

- Vorpróf frá árinu 1970. Fékk 8,0 í lestri, 5,6 í skrift (blessuð séu ritvinnslukerfi tölvualdar) og 9,9 í kvæðum. Fjarvistardagar 16.

Engin ummæli: