Sumir vilja frekar lenda í árekstri en að gefa eftir "réttinn" í umferðinni.
Dekurbarnið Ísland er þannig ökumaður. Við höfum rétt á að veiða hvali, enginn skal segja okkur annað. Skítt með það þótt aðrar þjóðir krumpist í viðbjóði og skelfingu yfir þessu athæfi og stórum hagsmunum verði fórnað á altari þjóðrembunnar. Við eigum "réttinn". Hef heyrt fólk afgreiða þá sem vilja ígrunda málið - ekki æða út í veiðar í atvinnuskyni án markaðar fyrir kjötið, án þarfar, án tilgangs - sem bjána sem beita fyrir sig "tilfinningarökum". Þetta er sagt með megnri fyrirlitningu. Tilfinningarök. Hef oft heyrt þetta líka þegar fólk lýsir andstöðu sinni við álverum og virkjunum - það eru "tilfinningarök". Tala nú ekki um ef útlendingar tjá sig um náttúruvernd á Íslandi. Þeir hafa ekkert vit á þessu, við vitum betur. Nú vil ég taka skýrt fram að ég hef ekkert á móti hvalveiðum í prinsippinu og get vel horft á hval drepinn án þess að fara að gráta. Hins vegar hef ég mikið á móti því að valta yfir fólk, án tillits til skoðana þess og tilfinninga.
Og hvaðan kemur þessi fyrirlitning á tilfinningum? Er þetta það sem við viljum kenna börnunum okkar, ekki hafa áhyggjur af tilfinningum annarra, þær eru ómerkar? Tilfinningar skipta ekki máli?
Er nema von að aðrar þjóðir skammi okkur og hunsi, Finnar séu súrir og Danir beinlínis í herferð gegn okkur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli