mánudagur, nóvember 13, 2006

Tæknibjánabaunin

Var í afmæli í gær og álpaðist til að spyrja húsbóndann á heimilinu ráða um hvernig stafræna myndavél ég ætti að kaupa, en það er á túdú-listanum mínum langa. Þessi vinur minn er gangandi wikipedia, veit allt um tæki og tól, enda verkfræðingur góður. Ekki hafði ég fyrr varpað meinleysislegri spurningunni út í loftið en karlkyns helmingur veislugesta tókst á loft og hóf að útlista kosti og galla hinna ýmsu tegunda myndavéla. Óteljandi tækniorð fylltu stofuna og ollu mér vægum andþrengslum. Svo fékk ég vandlætingarfullan fyrirlestur um að i-pod (sem ég aulaði útúr mér að mig langaði líka í), væri mesta markaðsbrella aldarinnar, já, ef ekki svindl, samsæri og grímulaust rán um hábjartan dag. I-púðar væru akkúrat ekkert betri en venjulegir mp3 spilarar en hefðu útlitið með sér. Það er auðvitað ekki nóg að vera sætur, en virðist þó duga i-púðunum prýðilega.

Stundum finn ég átakanlega fyrir tæknihömlun minni og þá líður mér eins og bjána.

Engin ummæli: