laugardagur, nóvember 04, 2006

Flissararnir

Ég hef alla tíð verið gefin fyrir ævintýri, í bókum, myndum, lífinu sjálfu. Hef lesið tugi vísindaskáldsagna og er að sjálfsögðu forfallinn Trekkari og aðdáandi Star Wars í ofanálag. Nú er ég lögst í ævintýrabækur fyrir yngri og yngri börn. Búin með allar Artemis Fowl bækurnar og fleiri eftir Eoin Colfer. Löngu búin með Chronicles of Narnia, Eragon, Potter og Hringadróttinssögu hef ég lesið allnokkrum sinnum. Færist nú æ neðar í aldri, sem segir mér að ég þroskist öfugt. Baklæg andþróun? Skemmti mér konunglega um daginn við að lesa Flissarana og Ævintýri á meðan eftir Roddy Doyle. Samtölin í þessum bókum eru óborganleg. Hér er smá sýnishorn.

Þau voru að slátra kú í bakgarðinum. Það var baul og blóð úti um allan garð.
Í alvöru?
Nei. Þau voru í eldhúsinu. Billie Jean var að afhýða belgbaunir.
"Ekki svona!" hrópaði ein belgbaunin. "Það er rennilás á bakinu!"
(Doyle, R., Ævintýri á meðan, bls.54)

Svo heitir ein af mínum eftirlætisbókum "Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni".

Mér er ekki viðbjargandi.

Engin ummæli: