Hafið þið einhvern tímann lent í því að klökkna á óheppilegu augnabliki? Áðan var ég að tala við útibússtjórann í bankanum og við ræddum fjármál, greiðsludreifingu, himinháar lánagreiðslur, skuldir, verðbólgu, útvexti, skuldir, afborganir, skuldir og fleira hrífandi stöff. Sem ég ræddi við útibússtjórann, vingjarnlega konu, þá fylltust augu mín af tárum og ég kom ekki upp orði. Ég HATA grátgirnina sem hefur þó skánað heilmikið á þessu (erfiða) ári. Sl. vetur grét ég a.m.k. tveimur lítrum á dag. Nú er þetta orðið vart mælanlegt magn, kannski tvær fingurbjargir á viku. En það er svo aumingjalegt að grenja, þoli það ekki!
Nú fer ég í þjálfunarbúðir, svona bút-kamp fyrir meyrar konur. Það þarf að koma mér til manns. Ekkert múður með Lalla lúður.
Eða ég fer í aðgerð og læt binda fyrir tárakirtlana. Geri mig ógrátandi. Þá verð ég ógrenja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli