sunnudagur, ágúst 20, 2006

Menning

Byrjaði menningardaginn (sem heitir menningarnótt) á því að álpast í salsa tíma í Laugum. Hélt þetta væri svona mjúkur dans með mjaðmasveiflum, hefði alveg treyst mér í það. Kom í ljós að þetta var brjálaður þolfimitími, með andsetinni mússíkk og kennara sem æpti skipanir, á þýsku held ég. Hvar var salsað? Bara í krukkum í Nóatúni. Ég flæktist eitthvað þarna fyrir sjálfri mér og hoppaði kjánalega til og frá. Heilinn í mér var dauðþreyttur eftir tímann og þarna staðfestust allir mínir fordómar um líkamsræktarstöðvar í eitt skipti fyrir öll.

Annars var gærdagurinn flottur. Gerði margt, sá fleira, upplifði eitt og annað:

1. Lífrænt ræktaðar gulrætur hjá Yggdrasli (segir maður Ygg-drasli?).
2. Sat á Austurvelli með vinkonum mínum, borðaði hamborgara og drakk bjór. Stíll yfir því.
3. Færeyskur dansur. Ótrúlega skemmtilegt fyrirbæri.
4. Listflug. Úff, fékk í magann.
5. Tónleikar á Klambratúni - flottir.
6. Klósettvörður á Núllinu breyttist í leiðsögumann, heyrði þessa glefsu úr leiðbeiningum hans til útlendingsræfils: Vok streit át ðe strít tú ðí end.
7. Flugeldasýningin vermdi og lýsti - algjörlega við hæfi að OR sjái um hana. Mér fannst sniðugt að hafa sýninguna á nýjum stað, grjótgarðurinn var fyrirtaks áhorfendapallur. Notalegt að sitja þarna með Ástu minni og horfa út á sjó. Eini gallinn var sá að það var ekki orðið alveg nógu dimmt þegar sýningin hófst. Magnað annars hvað ég lifi mig inní svona fírverkerí, fer alveg í trans.
8. Þrír menn með fuglshausa í kjólfötum með tóm kokkteilglös. Hvað var það?

Engin ummæli: