fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þjóðarbíllinn er...Alfa Rómeó

Ég skil að fólk vilji bæði sleppa og halda. Skil heimtufrekju. Skil að fólk nenni ekki að bíða í röð. Skil að að einhver vilji sitt, núna. Skil óþolinmæði. Skil græðgi. En...í samskiptum við annað fólk reynum við flest að hafa hemil á óþekka krakkanum. Á kaffistofunni vorum við að ræða framkomu Íslendinga við nýbúa, hversu naumt innflytjendum er skammtað úr þjóðaraskinum, t.d. þurfa þeir að borga offjár fyrir íslenskunámskeið. Svo býsnumst við yfir því hversu illa talandi þetta fólk sé, bjóðum því skítakaup og reynum í alla staði að fá sem mest fyrir sem minnst. Þreytumst síðan ekki á að draga upp úr meintum "Íslandsvinum" einhverja lofrullu um land og þjóð.

Annað merkilegt eru viðhorf okkar Íslendinga til náttúrunnar. Við mærum hana, auglýsum og útbreiðum þreyttar klisjur um hreina vatnið, hreina loftið, hreina sjóinn og ósnortið hálendið blablabla. Síðan dengjum við Kárahnjúkavirkjun mitt í alla dýrðina. Eins og saurpoka á líkama landsins. Og til hvers? Skynsamleg rök. Einhver?

Veit að þjóðarblómið er holtasóley. Veit að þjóðarfjallið er Herðubreið. Getur verið að þjóðarkarakterinn sé...pati?

Engin ummæli: