Loksins kom rafvirkinn. Blessaður maðurinn, mig langaði að faðma hann og kyssa. Búin að bíða eftir honum síðan í desember og svo ætlar hann bara að byrja á mánudaginn. Hugsa sér! Hér er allt í snúrum og flækjum. Ekki á flækjurnar bætandi. Hjá mér eru líka postulínsöryggi á spýtutöflu, vantar jarðtengingu og lekastraumsrofa (hvað sem það nú er). Margt líkt með þessu gamla rafmagni og mér. Flækt, ójarðtengd og vantar örugglega einn eða tvo rofa. Rofa til...
Hvernig skilgreinið þið það að vera góður við einhvern? Er það að vera ekki vondur sama og að vera góður? Á maður að vera þakklátur fyrir það? Nei, held ekki. Fullt af fólki sem er ekki vont við mig. Hef aldrei tárast af þakklæti yfir því heldur. Ef fólki þykir vænt um einhvern á að sýna það með orðum og gjörðum. Allir með jafnmikla dyslexíu þegar kemur að því að lesa hugsanir. Svo einfalt er það. Ekki gleyma að segja og sýna elskunni ykkar hversu mikils virði hún er. Það þarf ekki mikið til, smá hrós, hlýleg orð, blíðlega stroku um vanga... Aldrei að taka ást sem sjálfgefnum hlut. Það eru forréttindi að vera elskaður. Ástarhorni baunar lýkur í kvöld á orðunum: Ást er ást er ást. Látið hana sjást.
P.s. Er að verða bústin af öllu bústinu. Plís, hættið að senda inn uppskriftir...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli