Rassvasasálfræðin segir að til þess að spá fyrir um hvernig fólk muni haga sér, skuli skoða hvernig það hefur hagað sér hingað til. Þetta hef ég iðulega sagt við vini mína - og trúi m.a.s. sjálfri mér þegar ég segi það. Hef kynnst nokkrum manneskjum á ævinni sem segjast vilja breyta einhverju í lífi sínu, eiga sér draum um betri tilveru. Tala jafnvel fjálglega um hversu mjög þeir þrái þetta og hitt, þrái að breyta einhverju í fari sínu sem stendur í vegi fyrir takmarkinu. Merkilegt þegar fólk segist vilja breyta lífi sínu en fylgir því ekki eftir með fótunum. Ég velti fyrir mér af hverju og hef spurt beint. Fæ þá kannski "skýringu" eins og: "Ég er api. Þess vegna hegða ég mér eins og api." Samkvæmt mínum kokkabókum er sá breytingafatlaði þarna að skíra hegðun sína, en ekki skýra hana. Réttlætir gjörðir sínar með einföldum merkimiðum. Mér finnst þetta álíka vitrænt og þegar fólk leitast við að skýra hegðun út frá stjörnumerkjum, "æ, ég er bara típískt ljón".
Get nefnt nokkur dæmi þar sem ég er sek um svipaða hluti. T.d. segist ég vilja skilja heimilistæki og bora í vegg. Sannleikurinn er sá að vilji minn ristir þarna grunnt. Ef mig langaði í raun og veru til að verða betri viðgerðarkona, þá mundi ég leggja eitthvað á mig, æfa mig, lesa bæklinga, læra þetta. Gæti það vel ef löngun mín til að breyta þessu hjá sjálfri mér væri nógu sterk. Kannski kemur að því - og þá geri ég það.
Hef velt því fyrir mér hvort fíklar geri svona mikið af því að réttlæta gjörðir sínar af því að þeir eru fíklar, eða hvort þeir séu fíklar af því að þeir hneigjast til að réttlæta gjörðir sínar og firra sig ábyrgð um leið. Hvort kemur á undan? Veit það ekki. En, (óháð trúhneigð) trúi ég kjarnanum í æðruleysisbæninni.
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli