fimmtudagur, ágúst 31, 2006

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Enn af hjálpartækjum og of lítil ofdrykkja

Sáuð þið Ísland í dag í kvöld? Kíkið endilega á fyrsta viðtalið hjá þeim. Sorrí NFS, þetta eru gamlar fréttir, þið lásuð það fyrst hér (sjá 11. og 17. júlí).

Mér fannst sjúklega gaman að sjá Al sjálfan (alias Jón Kr. öryrki með góðan skammt af sjálfsbjargarviðleitni).

Svo er annað. Hef komist að því að ég er skemmtanaskert. Þekki engar knæpur, kann ekkert á næturlíf, er illa að mér um drykkjusiði borgarbúa. Hef ekki ælt af ofdrykkju síðan ég var unglingur. Þetta gengur ekki lengur. Á föstudaginn ætla ég því í vísindalegan barleiðangur. Þið, ágætu lesendur, megið gjarnan koma með og imponera mig með umfangsmikilli þekkingu ykkar á knæpum og drykkjarholum. Hittumst á B5 um kl. 21:30.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Fór ekkert út að skemmta mér

en skemmti mér samt býsna vel um helgina...

Fór í keilu með strákhvolpunum og vann:) Munaði reyndar bara einu stigi á mér og Hjalta, en aðalatriðið er auðvitað að vinna...börnin sín.

Tíndi rifsber og sólber í garði systur minnar í Hafnarfirði, er hálfnuð með hlaupgerð. Fullt af krukkum, ótrúlega búsældarlegt. Ber allt árið...

Sunnudagurinn fór að mestu í áttræðisafmæli fyrrverandi tengdaforeldra minna. Þar tróðum við Ásta upp á sviðinu í Hvolnum (á Hvolsvelli), Ásta brilleraði á klarinettið og ég hamraði hljóma undir á flygilinn dauðskelfd og ruglaðist soldið enda langt síðan ég hef spilað fyrir aðra en sjálfa mig. Oh, well.

Um kvöldið fékk ég svo óvænt matarboð. Gaman:)

föstudagur, ágúst 25, 2006

Lög gamla fólksins

Hvaða skemmtistaður hentar fólki sem man eftir:

1. Ritvélum
2. Herðapúðum
3. Möppuhringjum
4. Útvarpsleikritum á fimmtudögum
5. Bjórlíki
6. Að fara á skauta á Tjörninni
7. Bay City Rollers, Change, Pelican og Slade
8. Svart-hvítu sjónvarpi
9. Því að maður þurfti að sækja sérstaklega um gjaldeyri og sýna farseðil
10. Kákasusgerlinum
11. Óskalögum sjómanna, óskalögum sjúklinga og lögum unga fólksins

Ætla nefnilega á stúfana um helgina (og plís, enga aulabrandara um dverga hérna).

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Maður óskast, má hafa með sér barn.

Umsækjandi verður að geta sagt þetta við mig af innlifun:

If you want a lover, I´ll do anything you ask me to. And if you want another kind of love, I´ll wear a mask for you. If you want a partner, take my hand. Or if you want to strike me down in anger, here I stand. I´m your man.

If you want a boxer, I will step into the ring for you. And if you want a doctor, I´ll examine every inch of you. If you want a driver, climb inside. Or if you want to take me for a ride, you know you can. I´m your man.
Leonard Cohen

Dýrka þetta lag.

Hei dúd, þú ert gamall jökull

og farinn að missa snjóhvítar hærurnar. Varla svalur lengur. Ok. Ok? Ókei?

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Að langa, að vilja, að breyta.

Rassvasasálfræðin segir að til þess að spá fyrir um hvernig fólk muni haga sér, skuli skoða hvernig það hefur hagað sér hingað til. Þetta hef ég iðulega sagt við vini mína - og trúi m.a.s. sjálfri mér þegar ég segi það. Hef kynnst nokkrum manneskjum á ævinni sem segjast vilja breyta einhverju í lífi sínu, eiga sér draum um betri tilveru. Tala jafnvel fjálglega um hversu mjög þeir þrái þetta og hitt, þrái að breyta einhverju í fari sínu sem stendur í vegi fyrir takmarkinu. Merkilegt þegar fólk segist vilja breyta lífi sínu en fylgir því ekki eftir með fótunum. Ég velti fyrir mér af hverju og hef spurt beint. Fæ þá kannski "skýringu" eins og: "Ég er api. Þess vegna hegða ég mér eins og api." Samkvæmt mínum kokkabókum er sá breytingafatlaði þarna að skíra hegðun sína, en ekki skýra hana. Réttlætir gjörðir sínar með einföldum merkimiðum. Mér finnst þetta álíka vitrænt og þegar fólk leitast við að skýra hegðun út frá stjörnumerkjum, "æ, ég er bara típískt ljón".

Get nefnt nokkur dæmi þar sem ég er sek um svipaða hluti. T.d. segist ég vilja skilja heimilistæki og bora í vegg. Sannleikurinn er sá að vilji minn ristir þarna grunnt. Ef mig langaði í raun og veru til að verða betri viðgerðarkona, þá mundi ég leggja eitthvað á mig, æfa mig, lesa bæklinga, læra þetta. Gæti það vel ef löngun mín til að breyta þessu hjá sjálfri mér væri nógu sterk. Kannski kemur að því - og þá geri ég það.

Hef velt því fyrir mér hvort fíklar geri svona mikið af því að réttlæta gjörðir sínar af því að þeir eru fíklar, eða hvort þeir séu fíklar af því að þeir hneigjast til að réttlæta gjörðir sínar og firra sig ábyrgð um leið. Hvort kemur á undan? Veit það ekki. En, (óháð trúhneigð) trúi ég kjarnanum í æðruleysisbæninni.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Menning

Byrjaði menningardaginn (sem heitir menningarnótt) á því að álpast í salsa tíma í Laugum. Hélt þetta væri svona mjúkur dans með mjaðmasveiflum, hefði alveg treyst mér í það. Kom í ljós að þetta var brjálaður þolfimitími, með andsetinni mússíkk og kennara sem æpti skipanir, á þýsku held ég. Hvar var salsað? Bara í krukkum í Nóatúni. Ég flæktist eitthvað þarna fyrir sjálfri mér og hoppaði kjánalega til og frá. Heilinn í mér var dauðþreyttur eftir tímann og þarna staðfestust allir mínir fordómar um líkamsræktarstöðvar í eitt skipti fyrir öll.

Annars var gærdagurinn flottur. Gerði margt, sá fleira, upplifði eitt og annað:

1. Lífrænt ræktaðar gulrætur hjá Yggdrasli (segir maður Ygg-drasli?).
2. Sat á Austurvelli með vinkonum mínum, borðaði hamborgara og drakk bjór. Stíll yfir því.
3. Færeyskur dansur. Ótrúlega skemmtilegt fyrirbæri.
4. Listflug. Úff, fékk í magann.
5. Tónleikar á Klambratúni - flottir.
6. Klósettvörður á Núllinu breyttist í leiðsögumann, heyrði þessa glefsu úr leiðbeiningum hans til útlendingsræfils: Vok streit át ðe strít tú ðí end.
7. Flugeldasýningin vermdi og lýsti - algjörlega við hæfi að OR sjái um hana. Mér fannst sniðugt að hafa sýninguna á nýjum stað, grjótgarðurinn var fyrirtaks áhorfendapallur. Notalegt að sitja þarna með Ástu minni og horfa út á sjó. Eini gallinn var sá að það var ekki orðið alveg nógu dimmt þegar sýningin hófst. Magnað annars hvað ég lifi mig inní svona fírverkerí, fer alveg í trans.
8. Þrír menn með fuglshausa í kjólfötum með tóm kokkteilglös. Hvað var það?

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Lúalegt samband við heimilistæki í Austurbænum

Loksins búin að fá rafvirkja og málara og þá þarf leiðindajaxlinn að brotna. Þessi sem er búinn að vera mér til ama drjúgan tíma. Af því að ég er búin að bíta svo fast á hann. Jaxlinn. Betra að vera án sumra harðjaxla, stefni að því að losna alveg við þennan. Hann á sér litla framtíð í mínum haus, nema hægt sé að laga hann. Glætan.

Ætli ég verði ekki að fá mér aukadjobb til að eiga fyrir iðnaðarmönnunum og tönnunum. Ferlega langar mig annars að kunna að gera fleiri hluti sjálf, eins og að tengja ljós, bora í vegg, skilja raftæki og kunna á verkfæri. Er skíthrædd við rafmagn og hef aldrei lagt mig eftir því að komast inn í hugarheim heimilistækja. Nota þau bara, reyni ekkert að skilja af hverju þau eru eins og þau eru. Hef aldrei strokið Kitchen-aid hrærivélinni minni og hvíslað að henni að ég upplifi söknuð hennar eftir gamla heimilinu, þar sem hún bjó í rúm 20 ár. Hef aldrei sökkt mér ofaní bæklinga um dvd-tækið og reynt að skilja af hverju á því blikka stundum marglit ljós. Hef aldrei lagað klukkuna á örbylgjuofninum mínum svo hann veit ekkert hvað tímanum liður. Held hann haldi að það sé alltaf nótt, bregst ekki að hann kveiki ljósið, jafnvel um hábjartan dag.

Þetta er auðvitað lúaleg framkoma af minni hálfu.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Höfuðnudd. Mæli með því.

Höfuðnudd. Dásamlegt. Var að koma úr klippingu og þegar passlega harðhenta hárkonan nuddaði á mér hársvörðinn þá ýrðist yfir mig unaðs- og frelsistilfinning. Hvað er betra en að vera lífsglaður, frjáls og engum háður? Harla fátt. Fyrsta skipti eftir skilnaðinn sem akkúrat þetta rennur upp fyrir mér. Held ég geti allt. Eða næstum allt. Særð en kemst yfir það. Ekki spurning. Magnað.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Hamingja, lífrænt ræktuð

Var að koma ofan af Akrafjalli. Magnað útsýnisfjall og frábær ganga upp á Geirmundartind (þar sem allir komust í fagurt samband við sína innri sveiflu). Er dauðlúin og var ekki kát yfir umferðartöfunum við húsið mitt (bý í Laugardalnum) - það voru skrilljón bílar að troðast hér í köku og umferðin silaðist með hraða snigils á valíum. Já, ok, einhver leikur var að klárast, fjárans fótbolti held ég.

Fékk boð um að fljúga með Ómari sjálfum að Kringilsárrana í fyrramálið. Þangað hefur mig lengi langað að komast. Varð að segja nei, takk - hef ekki efni á svona ævintýri. Því miður.

En mér er sama. Hamingjan er lífrænt ræktuð og eflist við fjallgöngur.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Besta bústið...

fékk ég hérna. Takk Ásta mín:o)

Maður hefur akkúrat enga ástæðu til að kvarta þegar börnin manns eru vandaðar manneskjur (eins og hún amma mín lýsti fáum útvöldum).

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Eftir ömurlegasta gærdag ever...

getur lífið ekki annað en batnað. Ég bíð átekta.

Úrslit úr bústkeppni eru ljós. Það var heilmikið verk að smakka en mjög skemmtilegt. Besta bústuppskriftin kom frá Simma. Hún er svona:

klaki eftir smekk - því meiri því kaldari
bjúgaldin
frosin ber t.d. jarðarber, brómber, berjablanda - svona það sem finnst í frystihólfinu
perur
epli
kiwi
ferskt engifer
skyr
ávaxtasafi að eigin vali ca. 100-150 ml

Uppskriftirnar frá Krúttlu og Lindublindu voru líka alveg frábærar:) En, allir þessir ávextir og engiferið bara gerði útslagið. Simmi, til hamingju, þín bíða nú verðlaunin, tvær skífur með hrútleiðinlegri tónlist David´s Gray (geta farið í leiðinlegalagasafnið).

Annars vantar mig annað núna. Það er búið að sparka svo fast í mig að mig vantar Egóbúst. Einhver?

Meltingartruflanir og myglað brauð

Dagurinn í gær var samloka dauðans. Morgunbrauðið var viðbjóður sem fékk mig til að kúgast. Bókstaflega. Áleggið var eini ljósi punktur samlokunnar/dagsins, reyndar fyrsta flokks - ferð um miðjan dag í Marardal með bráðskemmtilegum göngufélaga. Kvöldbrauðið var ömurlegt.

Engin matarlyst. Mikið salt- og vökvatap. Svefnlaus nótt. Er á botninum. Bara ein leið eftir. Upp. Hvað ætli maður sé lengi að kanna þennan botn? Hversu margir ferskítametrar er hann?

föstudagur, ágúst 11, 2006

Fæddir til að þóknast konum

Þessi sprenghlægilega fyrirsögn í Fréttablaðinu vakti athygli mína. Menn sem eru "fæddir til að þóknast konum" (I wish). Massaðir Tippendeils. Ætlið þið stelpur? Er svona sýning ekki bara lágmenning, einn stór vonbrigðapakki? Hallast að því.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Skoðun

Á horninu
stendur hann hó
í gráu krumplakki
hárið úfið
svipurinn óræður

armurinn sem er þráðbeinn út frá líkamanum

sýnir
rétt
horn

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Flækjur, rafmagn, rofar og ást

Loksins kom rafvirkinn. Blessaður maðurinn, mig langaði að faðma hann og kyssa. Búin að bíða eftir honum síðan í desember og svo ætlar hann bara að byrja á mánudaginn. Hugsa sér! Hér er allt í snúrum og flækjum. Ekki á flækjurnar bætandi. Hjá mér eru líka postulínsöryggi á spýtutöflu, vantar jarðtengingu og lekastraumsrofa (hvað sem það nú er). Margt líkt með þessu gamla rafmagni og mér. Flækt, ójarðtengd og vantar örugglega einn eða tvo rofa. Rofa til...

Hvernig skilgreinið þið það að vera góður við einhvern? Er það að vera ekki vondur sama og að vera góður? Á maður að vera þakklátur fyrir það? Nei, held ekki. Fullt af fólki sem er ekki vont við mig. Hef aldrei tárast af þakklæti yfir því heldur. Ef fólki þykir vænt um einhvern á að sýna það með orðum og gjörðum. Allir með jafnmikla dyslexíu þegar kemur að því að lesa hugsanir. Svo einfalt er það. Ekki gleyma að segja og sýna elskunni ykkar hversu mikils virði hún er. Það þarf ekki mikið til, smá hrós, hlýleg orð, blíðlega stroku um vanga... Aldrei að taka ást sem sjálfgefnum hlut. Það eru forréttindi að vera elskaður. Ástarhorni baunar lýkur í kvöld á orðunum: Ást er ást er ást. Látið hana sjást.

P.s. Er að verða bústin af öllu bústinu. Plís, hættið að senda inn uppskriftir...

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Hor, mergur og þúst búst

Maðurinn í bílnum við hliðina á mér á rauðu ljósi boraði svo djúpt í nefið á sér að ég sá nögl bregða fyrir út um vinstra eyrað á honum. Gaurinn dró síðan puttann út og skoðaði af athygli (trúlega áhugaverð blanda úr nefi og eyra). Svo kom grænt ljós og ég missti af Herra Aðalbor. Schade. Við sem vorum að tengjast þarna á Kringlumýrarbrautinni.

Í beinu framhaldi af ofangreindu langar mig að greina frá því að ég keypti mér blandara af Electrolux gerð. Nú bý ég til búst af fáheyrðum eldmóð. Einhverjar hugmyndir um bestu búst blönduna? Vegleg verðlaun í boði fyrir áhugaverðustu uppskriftina (2 geislaplötur með David Grey).

föstudagur, ágúst 04, 2006

Andlegt fóður að utan

Stundum fletti ég upp tilvitnunum mér til dægrastyttingar. Þetta gerist undarlega oft þegar ég á að vera að vinna. Þarf ekki bara að refsa bauninni fyrir letina?

Worry is a misuse of imagination.
Dan Zadra

Even the fear of death is nothing compared to the fear of not having lived authentically and fully.
Frances Moore Lappe

Speech is conveniently located midway between thought and action, where it often substitutes for both.
John Andrew Holmes

Sanity calms, but madness is more interesting.
John Russel

Laziness is nothing more than the habit of resting before you get tired.
Jules Renard

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þjóðarbíllinn er...Alfa Rómeó

Ég skil að fólk vilji bæði sleppa og halda. Skil heimtufrekju. Skil að fólk nenni ekki að bíða í röð. Skil að að einhver vilji sitt, núna. Skil óþolinmæði. Skil græðgi. En...í samskiptum við annað fólk reynum við flest að hafa hemil á óþekka krakkanum. Á kaffistofunni vorum við að ræða framkomu Íslendinga við nýbúa, hversu naumt innflytjendum er skammtað úr þjóðaraskinum, t.d. þurfa þeir að borga offjár fyrir íslenskunámskeið. Svo býsnumst við yfir því hversu illa talandi þetta fólk sé, bjóðum því skítakaup og reynum í alla staði að fá sem mest fyrir sem minnst. Þreytumst síðan ekki á að draga upp úr meintum "Íslandsvinum" einhverja lofrullu um land og þjóð.

Annað merkilegt eru viðhorf okkar Íslendinga til náttúrunnar. Við mærum hana, auglýsum og útbreiðum þreyttar klisjur um hreina vatnið, hreina loftið, hreina sjóinn og ósnortið hálendið blablabla. Síðan dengjum við Kárahnjúkavirkjun mitt í alla dýrðina. Eins og saurpoka á líkama landsins. Og til hvers? Skynsamleg rök. Einhver?

Veit að þjóðarblómið er holtasóley. Veit að þjóðarfjallið er Herðubreið. Getur verið að þjóðarkarakterinn sé...pati?

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Tannsi er fantur. Lífið er best.

Líf mitt er viðburðaríkt um þessar mundir.

- Lenti í viðbjóðslegri píníngu hjá tannlækninum, hann gat ekki deyft mig almennilega við rótarfyllingu og boraði, potaði og krakaði í taugarnar sem sendu eldingar uppí heila. Ég reyndi að mótmæla en þar sem hann var búinn að dúkleggja og setja 200 kíló af græjum uppí mig hafði hann betur. Náði þó að koma því til skila að mig langaði að drepa hann með ostaskera (byrja á iljunum).

- Í gærkvöld gekk ég á Skjaldbreið. Sól og logn - aftur! Uppi á toppi Skjaldbreiðar sá ég betri helming heimsins og trúi á guð. Aftur.

- Byrjaði að vinna eftir sumarfrí.

- Fékk skemmtilegt og óvænt boð.

- Fann svolítið merkilegt. Sjálfa mig. Fyrsta sinn eftir skilnaðinn sem ég rekst á þessa konu sem ég þekkti áður svo vel. Hún er svolítið breytt eftir slarkið, en ekki endilega verri. Bara öðruvísi.

- Lífið er gott. Lífið er fallegt. Lífið er núna.