mánudagur, júlí 07, 2008

Unglingurinn með hrífuna og maðurinn með ljáinn

Í Kirkjugörðum Reykjavíkur starfa stálpaðir unglingar, á aldrinum 16-18 ára, skilst mér. Kunningjakona mín á dóttur í vinnuhópi þarna sem vinnur aðallega garðvinnu og er það víst ágætt starf. Man að vinkona mín vann þarna í fornöld, þegar við vorum unglingar og öfundaði ég hana mikið af því. Sjálf vann ég á kassa í KRON og þurfti að glíma daglega við þrasgjarnt fólk, síríuslengjur og lakkrísrúllur, gamlar krónur, skuldara, ávísanir og rónana í Kópavogi. En það er nú önnur saga.

Um daginn var vinnuhópnum í Kirkjugörðunum boðin kynning á starfseminni. Þau þáðu það, spennt að gera eitthvað annað en reyta arfa smástund. Þeim var smalað inn í húsakynni Kirkjugarða Reykjavíkur og leidd inn í líkgeymslu, þar sem glitti í fót undan laki og fór hrollur um þau viðkvæmustu við þá sjón. Síðan voru þau teymd inn í sal þar sem líksnyrting fer fram og sem betur fer var ekkert lík á "snyrtiborðinu", en þarna var opin kista og lá klútur yfir andliti. "Er...er...er...þetta lík?", stamaði ein stúlkan skelfdum rómi. Starfsmaðurinn svaraði með því að kippa klútnum af andliti hins látna, og brá krökkunum við, enda varla nokkurt þeirra séð dána manneskju fyrr. Þessu næst lá leiðin inn í líkbrennslu og þar var útskýrt vandlega hvernig brennslan fer fram og til hvers "hakkavélin" er notuð.

Nú veit ég fyrir víst að einni stúlku í hópnum var mjög brugðið við þessa "kynningu", enda er hún aðeins 16 ára gömul og krökkunum var ekkert sagt fyrirfram að þau myndu sjá lík, þau voru ekki undir það búin og þeim ekki gefinn möguleiki á að afþakka slíkt boð. Það að sjá lík í fyrsta skipti er lífsreynsla sem enginn gleymir.

Ég veit að dauðinn er hluti lífsins, öll deyjum við og lík ættu ekki að vekja okkur ugg. En þau gera það. Vafalaust er þetta firring, rétt eins og fólk hugsar ekki um sætu lömbin þegar það kaupir sér frosið læri í Bónus. En, ef ég ætti ungling í garðvinnu hjá Kirkjugörðunum, hefði ég kvartað yfir því hvernig að þessari "kynningu" var staðið, ég hefði viljað gefa honum val, ekki bara skella barni í svona aðstæður formálalaust.

Held að þeir sem vinna með lík verði ónæmir fyrir því að einhverju leyti, þeim finnst þetta ábyggilega eins og hvert annað starf og líkin vekja varla hjá þeim verulegt tilfinningarót (alla vega vona ég það þeirra vegna). Mér dettur ekki í hug annað en hér hafi hugsunarleysi ráðið för.
En það er annar vinkill á þessu máli. Það að sýna lík eins og hvern annan kjötskrokk opinberar virðingarleysi gagnvart hinum látna. Og það finnst mér ekki í lagi.

Engin ummæli: