mánudagur, ágúst 13, 2007

Ástandsskoðun einhleypra

Ekki halda að öll mín vandræði tengist karlmönnum. Það er nú öðru nær. Sum tengjast bílnum mínum. Önnur biluðum heimilistækjum. Mörg vandræðin stafa af fljótfærni og æðibunugangi. Vinur minn einn sagði um daginn að ég hefði of mikla "drift". Svona almennt.

Og nú ætla ég sumsé að drífa í að setja á laggirnar fyrirtæki. Ástandsskoðun einhleypra. Eða, ef ég fæ ekki feita kjölfestufjárfesta, væri möguleiki að ganga til samstarfs við annað fyrirtæki, t.d. Frumherja. Á ökutækjasviði Frumherja hf. er almennum skoðunum sinnt, svo sem aðalskoðun, breytingaskoðun, ástandsskoðun og tjónaskoðun. Á einhleyprasviði Frumherja mætti bjóða upp á líkamsskoðun, álagsskoðun, skuldbindingaskoðun, útlitsskoðun, fjárhagsskoðun, kynhneigðarskoðun, útblástursskoðun, hvílubragðaskoðun, lygaskoðun og mæla hvort sjálfselska fari yfir viðurkennda Evrópustaðla. Einnig mætti fnykprófa hinn einhleypa.

Eftir skoðun fær hinn einhleypi miða, gulan, rauðan, hvítan eða grænan. Fái menn rauðan, þá ber að taka þá úr umferð. Fái menn gulan eða grænan fá þeir tækifæri til að bæta sig en þurfa að koma í endurskoðun. Eða þurfa að skipta um skoðun. Fái menn hvítan, þá eru þeim allir vegir færir, geta jafnvel gengið í Útivist eða hróðugir veifað hvíta miðanum á Thorvaldsens bar.

Já, og myndin? Hún var tekin (á símamyndavél) af baun í hinni smitandi gleði sem ríkti í bænum á laugardaginn.

Engin ummæli: