föstudagur, ágúst 17, 2007

Fífa á steini hittir hrekkjóttan biðukoll

Var áðan á bílastæði bakvið tiltekinn sparisjóð. Sé ég þar grannvaxna eldri konu sitja á steini og fá sér smók. Hún er með þennan fjarlæga svip sem allir reykingamenn setja upp þegar þeir sjúga rettuna. Útundan mér sé ég hvar læðist aftan að konunni eldri maður, biðukollur (búið að blása doldið um hausinn). Þetta er kvikur kall í rauðri úlpu, á að giska áttræður. Nær hann að komast alveg að kerlu án þess hún taki eftir nokkru. Leiftursnöggt grípur hann um herðar hennar og við það hrekkur fífan svo heiftarlega í kút að hún næstum gleypir rettuna og pompar af steininum. Eftir háværa skræki hlæja þau dátt saman og kallinn skondrast síðan léttfættur á brott. Hann sló næstum saman hælunum a la Chaplin, getsosvariða.

Gamalt fólk er bara.........krumpaðar gelgjur.

Engin ummæli: