miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Þrjár spurningar og ein fullyrðing

Af hverju fæ ég aldrei ruslpóst í kommentakerfið mitt? Finn fyrir höfnun. Sé að meðbloggarar mínir hafa í frammi alls kyns hundakúnstir til að stemma stigu við þessu vandamáli, flókin reikningsdæmi, sjónpróf, sérviskulegan áróður o.fl.

Af hverju er útvarpsstjóri alltaf með svona breitt bindi, a.k.a. feitt hálstau?

Af hverju ætti mér ekki að vera sama?

Mér þykir vænt um fjöllin. Og himininn.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Um rafurmagn, eldri borgara og gildi góðra pípulagna

Ertu heimilistæki? Langar þig að lifa? Ef svarið er já, haltu þig fjarri baun.

Myndavélin, sem ég fékk í jólagjöf, er ónýt. Þvottavélin hætti að dæla á föstudaginn og ég eyddi 86 klukkutímum helgarinnar bograndi við pínulítið svart gúmmítyppi til að leiða vatn í tvær litlar skálar svo vélin losnaði við vökva. Hreinsaði sigtið og prófaði aftur. Jós úr Þingvallavatni með teskeið. Vill til að baun er bjartsýn og þrautseig.

Hringdi í þvottavélarmann. Hann kom, sá og sagði að vélin væri í stakasta lagi. Það kostaði 7,115 krónur. Hringdi þá í pípara. Hann kom, sá og losaði stíflu. Það gerði 9,960 krónur.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem ég fæ stíflukall hingað og borga morðfjár.

Ég keypti íbúðina af indælum hjónum hátt á níræðisaldri. Kemur málinu trúlega ekkert við.

mánudagur, ágúst 27, 2007

Kona góð

Þetta fer í taugarnar á mér, ARG!

  1. Þegar fólk segir "vinan" við mig.
  2. Eigin viðkvæmni.
  3. Vanmáttur minn í pípulögnum, rafvirkjun, smíðavinnu, fjármálavafstri, málningarvinnu og meðferð trélíms, tonnataks og snúra (snúrna?).

Og mikið djöfull er ég orðin leið á því að vera góð stelpa.

laugardagur, ágúst 25, 2007

Lukkan á hjólinu

Á strimlinum stóð 6,666 kr. Í Bónus stóð ég og rétti pólsku stúlkunni með klessta hárið kortið mitt. Á leiðinni heim þveraði svartur köttur götuna, frá hægri til vinstri.

Myndavélin mín datt í gólfið og linsan brotnaði. Þvottavélin var að bila. Það er vond lykt í eldhúsinu. Hvar er hamsturinn?

Reiðhjólahlauphnakkaafturendapælingar

Í dag uppgötvaði ég, prívatpörtum mínum til mikillar kæti, ný lífsgæði.
Gelhnakkar.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Harry du bist Klein

Þegar ég var gift og settleg horfði ég töluvert á sjónvarpið. Lifði mig inn í alls kyns þætti um alls konar fólk. Núorðið nenni ég varla að kveikja á imbanum. Held að skýringin gæti verið sú að tilvera mín sveiflast á milli þess að vera raunveruleikaþáttur og Wagner ópera. Og stundum er mér kastað skamma stund inn í farsakenndan framhaldsþátt með dósahlátri.

Eitt er ég innilega þakklát fyrir. Hef ekki enn villst inn í Aus der Reihe Derrick. Ach ja.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Í dag...

var mér líkt við strætó. Það gladdi mig.

Bílstjórinn í þessum strætó veit ekkert hvert hann er að fara, gott ef hann er ekki fullur nýbúi. Kannski er enginn áfangastaður. Kannski er hringferð bara málið.

Auðvitað hefði ég, í stað þess að fara að hlæja, átt að spyrja: Ertu að segja að ég sé feit?

sunnudagur, ágúst 19, 2007

Gulir bogar

Fór á stað-sem-ekki-má-nefna um daginn, dekadenaðist m.a.s. í bílalúguröðina. Hvað haldiði að afgreiðslumaðurinn hafi sagt, eintóna röddu, úr pantana-blikkhausnum?

Hjartanlega velkomin á Makkdónalds, get ég aðstoðað?

Ég kyngdi ælunni og pantaði "stækkaða máltíð" fyrir son minn. Sjálf forðast ég munnlega nánd við þetta bragðlausa gúmmífæði. Og að vera boðin hjartanlega velkomin (af sauðþreyttum unglingi) á svona stað er móðgun við tungumálið, ef ekki lýðveldið. Ætla að skrifa bréf út af þessu. Hvaða þingmanni á ég að senda það? Kannski ég stíli bréfið á Bush.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég ljóð um staðinn-sem-ekki-má-nefna. Það er svona.

M
undir gulum bogum
lágrar menningar
sit ég og velti vöngum
yfir tvöfeldni borgaranna


Þessir fordómar eru í boði baunar.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Fífa á steini hittir hrekkjóttan biðukoll

Var áðan á bílastæði bakvið tiltekinn sparisjóð. Sé ég þar grannvaxna eldri konu sitja á steini og fá sér smók. Hún er með þennan fjarlæga svip sem allir reykingamenn setja upp þegar þeir sjúga rettuna. Útundan mér sé ég hvar læðist aftan að konunni eldri maður, biðukollur (búið að blása doldið um hausinn). Þetta er kvikur kall í rauðri úlpu, á að giska áttræður. Nær hann að komast alveg að kerlu án þess hún taki eftir nokkru. Leiftursnöggt grípur hann um herðar hennar og við það hrekkur fífan svo heiftarlega í kút að hún næstum gleypir rettuna og pompar af steininum. Eftir háværa skræki hlæja þau dátt saman og kallinn skondrast síðan léttfættur á brott. Hann sló næstum saman hælunum a la Chaplin, getsosvariða.

Gamalt fólk er bara.........krumpaðar gelgjur.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Um sorglega fáfræði hámenntaðs fólks um flær í skemmtibransanum

Sat að snæðingi í dag með nokkrum vinnufélögum, ræddum sumarfrístengd mál, eins og húsvagna, pallhýsi, tjaldvagna og hvað þetta heitir allt saman. Einhver minntist á hvað það væri fyndið að sjá varla bílinn sem dregur fellihýsið, stærðarmunurinn væri oft svo ógurlegur.
"Já, þetta er bara eins og flóasirkus", sagði ég.
Dauðaþögn við borðið. Skilningsvana hálfbros tylltu sér á varir vinnufélaganna.

"Ég meina, þið vitið, svona flóasirkus þar sem lifandi flær draga litla vagna og hjóla á línu og svoleiðis, en reyndar sumir segja að þetta hafi bara verið plat og stjórnað með seglum og.....", babblaði baun.

Samstarfsfólkið kinkaði kolli, þolinmótt, og hélt síðan áfram að tala um pallbýlahúsvagnana sína. Það hafði ekki hugmynd um hvað flóasirkus væri. Hvað er að þjóðfélagi sem elur af sér þegna sem ekki þekkja flóasirkus? Hvernig getur manneskja, eldri en tvævetur, ætlast til að aðrir taki hana alvarlega verandi með þessa brotalöm í menningarlegum gagnabanka sínum? Ég er að tala hér um fólk í ábyrgðarstöðum, lækna jafnvel. Mynduð þið treysta sálfræðingi sem ekki er viðræðuhæfur um flóasirkus? Ég bara spyr. Og hvað gerði ég til að bæta ástandið? Gróf mig oní núðlurnar og hugsaði, hei, þetta er í fyrsta skipti sem ég tala um flóasirkus við fólk...af hverju ætli ég hafi ekki gert það fyrr?
Sem barn var ég hugfangin af flóasirkus, las allt sem ég fann um þetta fyrirbæri og ígrundaði rækilega hvort það væri raunverulega hægt að þjálfa flær. Hvernig væri það gert? Með oggulitlum svipum? Ponkulitlum blóðdropum? Reyndar skilst mér að flær lifi ósköp stutt þannig að þjálfun þeirra hlýtur að vera nokkuð endurtekningarsöm vinna.
Elsku bloggvinir nær og fjær. Hér gefst einstakt tækifæri til þroska. Farið ekki menningarlega í mínus út á meðal fólks. Gjörið svo vel að smella á tenglana og sjúgið að ykkur fróðleik.

Hvað er flóasirkus?

mánudagur, ágúst 13, 2007

Ástandsskoðun einhleypra

Ekki halda að öll mín vandræði tengist karlmönnum. Það er nú öðru nær. Sum tengjast bílnum mínum. Önnur biluðum heimilistækjum. Mörg vandræðin stafa af fljótfærni og æðibunugangi. Vinur minn einn sagði um daginn að ég hefði of mikla "drift". Svona almennt.

Og nú ætla ég sumsé að drífa í að setja á laggirnar fyrirtæki. Ástandsskoðun einhleypra. Eða, ef ég fæ ekki feita kjölfestufjárfesta, væri möguleiki að ganga til samstarfs við annað fyrirtæki, t.d. Frumherja. Á ökutækjasviði Frumherja hf. er almennum skoðunum sinnt, svo sem aðalskoðun, breytingaskoðun, ástandsskoðun og tjónaskoðun. Á einhleyprasviði Frumherja mætti bjóða upp á líkamsskoðun, álagsskoðun, skuldbindingaskoðun, útlitsskoðun, fjárhagsskoðun, kynhneigðarskoðun, útblástursskoðun, hvílubragðaskoðun, lygaskoðun og mæla hvort sjálfselska fari yfir viðurkennda Evrópustaðla. Einnig mætti fnykprófa hinn einhleypa.

Eftir skoðun fær hinn einhleypi miða, gulan, rauðan, hvítan eða grænan. Fái menn rauðan, þá ber að taka þá úr umferð. Fái menn gulan eða grænan fá þeir tækifæri til að bæta sig en þurfa að koma í endurskoðun. Eða þurfa að skipta um skoðun. Fái menn hvítan, þá eru þeim allir vegir færir, geta jafnvel gengið í Útivist eða hróðugir veifað hvíta miðanum á Thorvaldsens bar.

Já, og myndin? Hún var tekin (á símamyndavél) af baun í hinni smitandi gleði sem ríkti í bænum á laugardaginn.

laugardagur, ágúst 11, 2007

Hýr og rjóð, alltaf góð

Eftir ákveðinn botnatburð gærdagsins fór ég í gegnum hin fjögur stig sorgarferlis, afneitun, reiði, depurð og að sætta mig við staðreyndir. Það tók á að giska fimm mínútur. En í morgun lá yfir mér, eins og þokuslæðingur, einhver heimsangist.

Fór því í bæinn og var að koma úr gay pride göngunni. Magnað að sjá þetta kraðak af fólki - allir svo hýrir í bragði í sólinni. Fannst flott slagorðið: all different. all equal. Til hamingju með daginn, hommar og lesbíur:)

Tók eftir óvenju mörgum pörum (karl plús kona) sem leiddust. Var sagt að aldrei sæist fleira gagnkynhneigt fólk ríghalda í hvort annað en akkúrat á gay pride. Gott með það.

Þokunni er að létta. Guði sé lof fyrir góða vini. Lífið er....ekki sem verst.

Skítavika

Ég ætla ekki að tala um vikuna sem er að líða því hún er nokkurn veginn sú ömurlegasta sem ég hef lifað. Hún var vond og versnaði, náði botni í gær (vona ég). Alltaf reyni ég að bera mig vel. Alltaf reyni ég að harka af mér. En í gær gat ég það ekki. Hrundi bara. Til allrar hamingju á ég bestu vini sem hægt er að hugsa sér. Og yndislega fjölskyldu. Án þeirra væri lífið ekki túskildingsvirði.

Svo er það nú meiri andskotinn hvað orð geta hoppað asnalega á mann. Þegar ég skrifaði: alltaf reyni ég að bera mig vel, þá hugsaði ég, þetta gæti vandvirk fatafella sagt.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Karlar eru reiðir fyrir allan peninginn

Fletti Blaðinu í dag og rakst á tvær smáfréttir sem vöktu athygli mína.

  1. Voru haldnir nethræðslu. Segir frá flugóhappi þar sem menn reyndu að fela einkennisstafi flugvélar. Mennirnir sem voru á flugvél sem hlekktist á í flugtaki í Nýjadal....máluðu með rauðum lit yfir merkingar flugvélarinnar vegna þess að þeir voru haldnir "nethræðslu", að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Nethræðslan fólst í því að mennirnir voru smeykir um að kjaftasögur myndu spyrjast út um þá ef myndir af vélinni birtust á veraldarvefnum og því gripu þeir til þessa ráðs svo vélin væri ekki auðkennileg úr fjarska.
  2. Reiðir karlar njóta aðdáunar. Segir frá rannsókn þar sem þátttakendur skoðuðu myndbönd með atvinnuviðtölum, en umsækjendur áttu að greina frá því hvort þeir yrðu reiðir eða leiðir ef þeir misstu viðskiptavin vegna þess að samstarfsmaður kæmi of seint á fund. Niðurstöður: Karlinn sem kvaðst vera reiður fékk flest prik. Næst flest prik fékk konan sem sagðist vera leið, karlinn sem sagðist vera leiður lenti í þriðja sæti og fæst prik fékk konan sem sagðist vera reið. Reiða konan átti jafnframt að fá lægstu launin... Sem sagt, ...reiðir karlmenn njóta aðdáunar, en kona sem lætur í ljós reiði fær fljótt þann stimpil að hún sé ekki í jafnvægi.

Þetta er ekki moggablogg.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Síðasta...

morgunmáltíðin í fríinu *aaaaandvaaaarp*

Langar að varpa fram fyrirspurn: veit einhver hvaða leyniefni eru í lífrænu bíóbú jógúrti?
Mig grunar heróín. Er orðin algerlega háð mangó jógúrtinu. Þetta er ekki eðlilegt.
Áfram potast ég í Potter. Alltaf gaman að fara með Harry í rúmið, ekki síst eftir að ég sá Daniel Radcliffe hlaupa afar sprækan (og allsnakinn) um á sviði í London í leikritinu Equus. Er fegin að hinn aðalleikarinn í Equus, gaurinn sem leikur Vernon Dursley í myndunum, hljóp ekki líka allsber um í þessu leikriti, og þó.....það hefði verið......athyglisvert. Maðurinn er örugglega 280 kíló og algjört kraftaverk að hann skuli geta blikkað, hvað þá hreyft fæturna.
Matti minn er í Singapore að tefla með Ólympíuliðinu. Um gengi liðsins má lesa hér. Ég sakna stráksins og hlakka mikið til að fá hann aftur heim.
Legg ekki meira á ykkur í bili.

sunnudagur, ágúst 05, 2007

Mér er spurn í nefi


  1. Hvernig næ ég gamalmennalykt úr fötum?
  2. Hvað á ég að gera við bunka af vasaklútum sem mér áskotnuðust?
  3. Finnst ykkur útilykt af fötum góð?
  4. Þefið þið af fötum elskhugans/makans (þegar þið saknið hans)?
  5. Hendið þið götóttum nærbuxum.....hreinum?

föstudagur, ágúst 03, 2007

Öræfabaun

Komin heim úr ævintýragöngu um Eyjabakka og Lónsöræfi. Get heilshugar mælt með Hálendisferðum, ef þið hyggið á skemmtilega bakpokaferð. Á myndinni má sjá baun með Snæfell í baksýn. Takið eftir smekklegum sólgleraugunum sem keypt voru á bensínstöð á Egilsstöðum fyrir aðeins krónur 990.

Get ekki lýst með orðum hversu gott var að þramma á öræfum, fjarri öllu áreiti, sambandslaus við umheiminn. Innra með mér tifar endurómur fíngerðra bláklukkna, líparíthellur braka við fót, í höfðinu fljóta myndir af lygilega grænum dýjamosa og tröllslegu landslagi. Í tánum er minning um jökulköld vötn. Mig langar aftur á fjöll.

Vek athygli á nafni rellunnar sem flutti baun frá Höfn og heim.