Tvisvar hef ég lent í eflingarandartaki í búð. Nýlega og með stuttu millibili.
1. Kaffibúð. Ég er að rabba við eiganda búðarinnar, hann er sérfræðingur í öllu er lýtur að kaffi, spjallið er á vinsamlegum nótum, þótt erindi mitt hafi verið að leita lækninga fyrir kaffivélina mína sem hefur verið með innantökur og þarmastíflur. Kaffisérfræðingurinn er maður næstum gufulegur í framkomu, lágmæltur, varkár í orðavali og vel máli farinn. Það kemur mér því í opna skjöldu er hann varpar fram þessu: "Tja, fyrir svona hard core kaffikonu eins og þig....." Við þessi orð kaffimannsins bólgna ég upp af undarlegu stolti. Ég eflist. Ég er hard core...kaffikona.
2. Glóey Ármúla. Vippa mér snöfurmannlega inn í búðina, með gömlu rafmagnstöfluna mína undir handleggnum. Þetta er rykfallið trébretti með fallegum postulínsöryggjum, tafla frá sjötta áratugnum. Það er nýbúið að endurnýja rafmagnið í íbúðinni minni og ég tími ekki að henda þessum fortíðarbita. Fékk þá hugdettu í svefnrofunum að búa til lampa úr töflunni. Vind mér að hávöxnum afgreiðslumannni og ber upp erindið - mig vantar perustæði, snúru, kló og góð ráð. Afgreiðslumaðurinn sýnir framtaki mínu einlægan áhuga , segir m.a. að þetta sé svakalega skemmtileg hugmynd, alveg "innlit/útlit" og allt. Svo spyr hann: "Ertu í Listaháskólanum?"
Ég og börnin erum nú að vinna að því að breyta töflunni góðu í lampa. Verði ljós. Lofa mynd þegar við höfum leyst ýmis praktísk vandamál, t.d. þarf ég að sverfa af postulíninu - án þess að brjóta það. Á einhver flísabor?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli