laugardagur, febrúar 24, 2007

Innlit, útlit og amma mín




Gamlir hlutir höfða sterkar til mín en nýir. Hef t.d. alltaf búið í gömlum húsum eftir að ég fór að ráða mér sjálf. Foreldrar mínir byggðu tvisvar á meðan ég var að alast upp sem þýddi tilveru í hálfkláruðu húsnæði um lengri eða skemmri hríð. Fæ enn hroll þegar ég finn lyktina af nýrri steypu. Sjarmi nýbygginga með svörtum, gráum og glerprýddum innréttingum fer fram hjá mér jafn örugglega og sjarmi golfíþróttarinnar.

Þegar fólk talar fjálglega um framkvæmdir við "nýja húsið", ræðir "lausnir" og "möguleika" þá byrjar mitt innra sjálf að geispa og ég dett út eins og framhaldsskólanemi í fyrsta tíma á mánudegi. Get bara ekki að þessu gert.

Myndirnar eru úr uppáhalds skotinu mínu. Appelsínugulu skálina keypti ég í dásamlegri búð sem heitir amma Ruth. Myndin á hillunni er af ömmu minni Elísabetu. Þetta er þykk pappamynd af henni u.þ.b. tólf ára gamalli í þverröndóttri peysu, með stórar slaufur í hárinu. Amma mín var einstök kona og þegar ég hugsa um hana þá hverf ég örskotsstund inn í hlýtt og mjúkt hálsakot og svei mér ef ég finn ekki appelsínu laumað í lófann á mér.

Engin ummæli: