mánudagur, febrúar 05, 2007

Fótatak fortíðar

Hef alltaf haft yndi af því að grúska í gömlu dóti, bókum, fötum, postulíni, skóm og alls kyns drasli. Kaupi mér stundum notuð föt og gerði það alloft áður en það komst í tísku. Festi kaup á þessum skóm fyrir nokkru í búð Rauða krossins á Laugavegi. Afskaplega þægilegir og fallegir að mínu mati. Skór með fortíð.

Vill svo einkennilega til að fyrri eigandi fylgir mér hvert sem ég fer. Þegar ég geng á þessum skóm, þá er ég aldrei ein. Klænk klænk klænk heyrist, þungir hælasmellir sem aldrei áður hafa tilheyrt sinfóníu fóta minna. Konan sem átti skóna var lágvaxnari en ég, doldið þybbin og ljóshærð. Tel hún hafi verið vel tennt og afar ákveðin í fasi. Klænk klænk klænk. Hún vann í mjólkurbúð, þar áður í fiski og fékk útborgað í seðlum sem henni voru réttir í brúnu umslagi. Hún átti til að ljúga, en af því að hún hafði svo stór brjóst var henni fyrirgefið.

Hún var aldrei fullkomlega sátt við sitt hlutskipti og þess vegna gengur hún aftur. Aftur og aftur. Í gegnum mig.

Engin ummæli: