föstudagur, maí 02, 2008

Liljur varla minns

Sat á latastrák mínum, eitthvað að rísla mér þegar smám saman helltust yfir mig höfuð-, herða-, hné- og táþyngsli. Enn fremur stirðnaði skap mitt og tónninn hvesstist við börnin. Dularfullt, já, þar til ég uppgötvaði að loftið var þrungið liljuilmi svo þungum að hann lá sem mörusmokkur yfir vitum mér. Fjarlægði liljuvöndinn og þá skánaði líðanin og skap mitt róaðist.

Ég ráðlagði dóttur minni áðan að sleppa liljum í jarðarförinni ef ég drepst einhvern tímann. En svo dró ég það til baka. Jarðarförin mín er einmitt kjörið tilefni, því ég þoli ekki liljur og varla fer blómaangan að plaga mig oní kistu. Líka óþarfi að láta spyrjast að maður sé vandlátt og kresið lík.

Engin ummæli: