miðvikudagur, maí 14, 2008

Dingl, dól og skyrhræringur

Jæja, komin heim eftir sérlega góða daga í Kaupmannahöfn. Fékk dálitla útrás fyrir spennufíknina með heimsókn í Tívolí. Fór í öll þau tæki sem fá blóðið til að bærast í kroppnum.

Himmelskibet
Dæmonen
Det gyldne tårn
Dragen

Fallturninn var doldið svakalegur, rússíbaninn mjög skemmtilegur (fór tvisvar í hann) en hræddust varð ég í rólunni í Himmelskibet, því maður dinglar í lausu lofti 80 m fyrir ofan grjótharða gangstéttina. Og ég er lofthrædd.

Dró kærastann með mér í Dragen, Dæmonen og fallturninn og sagðist hann aldrei hafa farið í þessi tæki áður. Mér skilst að honum hafi ekki þótt það skynsamlegt fyrr en hann kynntist mér. Velti fyrir mér af hverju. Hú kers, það er hressandi að finna ólgandi lífskraftinn þegar adrenalínið pumpast um æðarnar.

Næst ætla ég að biðja Hjálmar að borða skyrhræring með mér. Maður á að koma líkama sínum á óvart af og til. Bara hollt.

Engin ummæli: