sunnudagur, maí 04, 2008

Háu ljósin helgarinnar

Undarleg helgi.
  1. Bölvaði mikið. Sagði ljótt.
  2. Þvoði þvott.
  3. Grét.
  4. Hjólaði og hjólaði en komst ekkert áfram í rokinu.
  5. Skrifaði færslur til að fá útrás en þorði ekki að birta þær.
  6. Dáðist að tæknikunnáttu Péturs, en hann er búinn að setja einn Brahms-bút af tónleikum Ástu á jútúbb, eins og sjá má hér. Þetta er langur kafli og engin lyftutónlist. Seinni hlutinn er mjög fallegur, hafið biðlund.
  7. Reyndi að taka til í fataskápnum en gafst upp. Rúmið mitt er núna eins og Alparnir og ég ætla að jóðla mig í svefn.
  8. Fann betur og betur að maður verður að vinna úr þeim áföllum sem maður verður fyrir, annars elta þau mann uppi þegar síst skyldi. Helvítis andskoti þegar maður er farinn að hljóma eins og sænskt vandamálaleikrit.
  9. Fór í ríkið með flöskur og fékk pening í staðinn.
  10. Var að spá í að breyta flugi hjá Iceland Express, fiktaði í gærkvöldi á vefnum til að skoða möguleikana og fór í hysteríukast þegar ég fékk póst um "nýja bókun", sem kostaði mig 23 þúsund krónur aukalega. Þvílíkt og annað eins! Það er enginn staðfestingarhnappur, ef maður skoðar nýja dagsetningu (og lokar svo glugganum), þá telst bókunin breytt og maður er rukkaður á visa. Ég vældi í þjónustufulltrúa í morgun og fékk þessu hnekkt, sem betur fer. En þetta rændi mig hugarró og svefni, getið sveiað ykkur upp á það. Stundum er ég mesti klúðrari í heimi.

Engin ummæli: