- Á Klambratúni var hópur Indverja að spila krikket
- Við Sæbrautina voru ungir og glaðværir þeldökkir menn að drekka bjór, hafa hátt og rífa bláan bol í ræmur
- Á bensínstöð sá ég íslenskan hjassa, með bleikklæddu hjassakvendi, reyna að koma í gang jeppagarmi og þrír Hallormsstaðaskógar hefðu ekki dugað til að kolefnisjafna þann gjörning
- Tvær rauðklæddar stúlkur hlógu hátt með breskum hreim á Skólavörðustígnum (voðalegt annars að sjá Skólavörðustíginn þessa dagana)
laugardagur, maí 31, 2008
Hnattræna veröld
Þvermenningin reið ekki við einteyming í hjólatúr um borgina í kvöld.
miðvikudagur, maí 28, 2008
Hvar er hrífan þín?
Ég skil öfund. Ég skil afbrýðisemi. En getur einhver útskýrt af hverju sumir líta á hamingju annarra sem persónulega móðgun við sig? Ef x elskar y, þýðir það að honum er í nöp við z?
Það er sorglegt að sjá samanherpta manneskju standa í eigin illa hirta garði, mænandi yfir í skika nágrannans, haldandi að nágranninn hirði svona vel um garðinn sinn í þeim tilgangi einum að ergja biturt fólk. Það er vinna að hugsa um garð og öll eigum við verkfærin til þess.
Stundum vildi ég óska að fólk fókuseraði meira á eigið líf en annarra.
Það er sorglegt að sjá samanherpta manneskju standa í eigin illa hirta garði, mænandi yfir í skika nágrannans, haldandi að nágranninn hirði svona vel um garðinn sinn í þeim tilgangi einum að ergja biturt fólk. Það er vinna að hugsa um garð og öll eigum við verkfærin til þess.
Stundum vildi ég óska að fólk fókuseraði meira á eigið líf en annarra.
mánudagur, maí 26, 2008
Músíkalskt þvogl
Dylan. Já, einmitt. Merkilegt að heyra litla manninn með gráa hattinn urra músíkalskt, umla og rymja með sínu nefi (bókstaflega), undir taktföstu spili atvinnumanna. Reyndi að greina hvaða orð voru þarna á sveimi, enda alvön því í mínu starfi að þreifa eftir merkingu í tauti. Hef heyrt að Dylan sé rómaður fyrir orðlist, glúrinn textasmiður, líkt og murrmaður Íslands, Megas. Zimmerman heldur því voða mikið fyrir sig svona á tónleikum. Best þótti mér Dylan takast upp í framsögn þegar hann blés í munnhörpuna sína.
Fannst rosa gaman. Allt er skemmtilegt í réttum félagsskap. Og ég var svo sannarlega í réttum félagsskap.
Fannst rosa gaman. Allt er skemmtilegt í réttum félagsskap. Og ég var svo sannarlega í réttum félagsskap.
laugardagur, maí 24, 2008
Það er gott að vera baun
Sambýlismaður minn spratt á fætur í morgun, haldinn óviðráðanlegri löngun til að baka handa mér bollur. Ég leyfði honum það, enda býr höfðingi í bauninni.
Síðan dró hann á hlæjandi fætur mér þessar öndvegis sandalaflíkur sem hann hafði föndrað við um nóttina.
Gæti ekki kvartað þótt einhver borgaði mér fyrir það, enda brosa jafnvel innyflin í mér, nema auðvitað þau sem kíma daglangt.
Gleðilegt júróvisjónkvöld! (Ó, en hvar eigum við að halda keppnina ef við vinnum?)
fimmtudagur, maí 22, 2008
Gamalt hakk og diskópopp
Ja hérna. Ísland komst áfram. Ég varð svo hissa að mér hætti að vera illt í tánni smástund. Hallast að því að ég sé óbrigðull áttaviti í júróvisjón, þ.e. minn smekkur virðist kengöfugur miðað við það sem nýtur velgengni í þessari ágætu (en þó nokkuð þreyttu) keppni.
Í morgun settist ég við hliðina á eldri borgara á læknabiðstofu. Hann leit upp úr blaðinu, spurði hvort ég væri að fara til læknis og sagði svo: Já, og hvað heldurðu að þú þurfir að bíða lengi vinan? Ég sagði að ég vissi það ekki, bið byði nú gjarnan upp á óvissu um slíkt. Varð hugsað til annars gamals manns sem settist við hliðina á mér í flugvél fyrir skömmu, á leið til Kaupmannahafnar, en hann spurði glaðlega: Ert þú að fara til Danmerkur?
Þyrfti ekki að efla fræðslu aldraðra? Eða kenna gömlum mönnum skárri pikköpplínur?
Í morgun settist ég við hliðina á eldri borgara á læknabiðstofu. Hann leit upp úr blaðinu, spurði hvort ég væri að fara til læknis og sagði svo: Já, og hvað heldurðu að þú þurfir að bíða lengi vinan? Ég sagði að ég vissi það ekki, bið byði nú gjarnan upp á óvissu um slíkt. Varð hugsað til annars gamals manns sem settist við hliðina á mér í flugvél fyrir skömmu, á leið til Kaupmannahafnar, en hann spurði glaðlega: Ert þú að fara til Danmerkur?
Þyrfti ekki að efla fræðslu aldraðra? Eða kenna gömlum mönnum skárri pikköpplínur?
miðvikudagur, maí 21, 2008
Fjarlægðin gerir fjallabeibin fögur
Vorboðinn ljúfi, sandalafarið* kveikti hjá mér enn eina frábæra viðskiptahugmynd. Sandalar með persónulegu mynstri, t.d. nafni kærastans, broskalli, blómi, hamar og sigð, písmerki eða kisu. Tattú er allt of varanlegt skraut fyrir minn hverflynda smekk.
Var annars að koma úr gönguferð á Keili, það var aldeilis ljómandi fínt. Hjálmar sagði að Keilir væri eins og kona sem liti vel út á ballinu, svo færi maður með hana heim, rifi úr lífstykkinu og þá flæddi hún bara útum allt og væri ekkert svo vel vaxin. Keilir er sumsé fjarskafallegt fjall. (Og ég vona að hann hafi ekki verið að tala um mig, nei, fjandakornið, nota aldrei lífstykki...)
*sviðsettar tær, eigandi ókunnur.
Var annars að koma úr gönguferð á Keili, það var aldeilis ljómandi fínt. Hjálmar sagði að Keilir væri eins og kona sem liti vel út á ballinu, svo færi maður með hana heim, rifi úr lífstykkinu og þá flæddi hún bara útum allt og væri ekkert svo vel vaxin. Keilir er sumsé fjarskafallegt fjall. (Og ég vona að hann hafi ekki verið að tala um mig, nei, fjandakornið, nota aldrei lífstykki...)
*sviðsettar tær, eigandi ókunnur.
mánudagur, maí 19, 2008
Tilvistarspurningar
Við skulum alltaf spyrja af hverju við gerum hlutina eins og við gerum þá.
Búin að liggja yfir Kids in the Hall sketsum, en þeir voru í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég bjó í Kanada ´89-90. Finnst þeir ennþá hrikalega fyndnir.
föstudagur, maí 16, 2008
miðvikudagur, maí 14, 2008
Dingl, dól og skyrhræringur
Jæja, komin heim eftir sérlega góða daga í Kaupmannahöfn. Fékk dálitla útrás fyrir spennufíknina með heimsókn í Tívolí. Fór í öll þau tæki sem fá blóðið til að bærast í kroppnum.
Himmelskibet
Dæmonen
Det gyldne tårn
Dragen
Fallturninn var doldið svakalegur, rússíbaninn mjög skemmtilegur (fór tvisvar í hann) en hræddust varð ég í rólunni í Himmelskibet, því maður dinglar í lausu lofti 80 m fyrir ofan grjótharða gangstéttina. Og ég er lofthrædd.
Dró kærastann með mér í Dragen, Dæmonen og fallturninn og sagðist hann aldrei hafa farið í þessi tæki áður. Mér skilst að honum hafi ekki þótt það skynsamlegt fyrr en hann kynntist mér. Velti fyrir mér af hverju. Hú kers, það er hressandi að finna ólgandi lífskraftinn þegar adrenalínið pumpast um æðarnar.
Næst ætla ég að biðja Hjálmar að borða skyrhræring með mér. Maður á að koma líkama sínum á óvart af og til. Bara hollt.
Himmelskibet
Dæmonen
Det gyldne tårn
Dragen
Fallturninn var doldið svakalegur, rússíbaninn mjög skemmtilegur (fór tvisvar í hann) en hræddust varð ég í rólunni í Himmelskibet, því maður dinglar í lausu lofti 80 m fyrir ofan grjótharða gangstéttina. Og ég er lofthrædd.
Dró kærastann með mér í Dragen, Dæmonen og fallturninn og sagðist hann aldrei hafa farið í þessi tæki áður. Mér skilst að honum hafi ekki þótt það skynsamlegt fyrr en hann kynntist mér. Velti fyrir mér af hverju. Hú kers, það er hressandi að finna ólgandi lífskraftinn þegar adrenalínið pumpast um æðarnar.
Næst ætla ég að biðja Hjálmar að borða skyrhræring með mér. Maður á að koma líkama sínum á óvart af og til. Bara hollt.
mánudagur, maí 12, 2008
sunnudagur, maí 11, 2008
Víst er hafmeyjan lítil, en..
Á ferðum mínum um stórborgina í dag rakst ég á ítalskan þjón sem bókstaflega trylltist úr fögnuði við að sjá þennan franska boxerhvolp; hann stökk frá hálfkláraðri pöntun og hoppaði um Grábræðratorg, hló hátt, kjassaði hundinn, baðaði út öllum öngum og vildi síðan ólmur leyfa mér að halda á spottinu. Ég gerði það og jújú, víst var hann voða voða dætur og mikið rassgat (sko hvolpurinn).
Mér finnst makalaust fínt þegar fólk hefur sjálfstraust, og heldur aðeins of mikið en of lítið. Fólk sem hefur góða sjálfsmynd viðurkennir þegar það gerir mistök, tekur ábyrgð á eigin hegðun, kennir ekki öðrum um það sem það segir og gerir. Það mundi t.d. aldrei segja setningu á borð við, "þú gerðir mig reiðan og lést mig berja þig". Fólk með gott sjálfstraust biðst afsökunar þegar það gerir á hlut annarrar manneskju. Fólk með heilbrigða sjálfsmynd veit að það les ekki hugsanir annarra. Meintur hugsanalestur er eitt af því sem fer hvað mest í taugarnar á mér, t.d. þegar sagt er eitthvað á þessa leið, "ég veit að þú settist þarna af því þú hatar mig".
Held að margt mannanna bölið stafi af brogaðri sjálfsmynd, óöryggi og minnimáttarkennd.
Lítillæti á sinn sjarma, en ég verð að viðurkenna að það kætir mig að sjá svona nöfn á húsum.
Setjum ekki ljós okkar undir mæliker.
Mér finnst makalaust fínt þegar fólk hefur sjálfstraust, og heldur aðeins of mikið en of lítið. Fólk sem hefur góða sjálfsmynd viðurkennir þegar það gerir mistök, tekur ábyrgð á eigin hegðun, kennir ekki öðrum um það sem það segir og gerir. Það mundi t.d. aldrei segja setningu á borð við, "þú gerðir mig reiðan og lést mig berja þig". Fólk með gott sjálfstraust biðst afsökunar þegar það gerir á hlut annarrar manneskju. Fólk með heilbrigða sjálfsmynd veit að það les ekki hugsanir annarra. Meintur hugsanalestur er eitt af því sem fer hvað mest í taugarnar á mér, t.d. þegar sagt er eitthvað á þessa leið, "ég veit að þú settist þarna af því þú hatar mig".
Held að margt mannanna bölið stafi af brogaðri sjálfsmynd, óöryggi og minnimáttarkennd.
Lítillæti á sinn sjarma, en ég verð að viðurkenna að það kætir mig að sjá svona nöfn á húsum.
Setjum ekki ljós okkar undir mæliker.
laugardagur, maí 10, 2008
Karnival
föstudagur, maí 09, 2008
Sól er góð, bláhausabjór er vondur
fimmtudagur, maí 08, 2008
Grænt bylgjast hár á steini
Sjórinn er tær og mínar tær eru tær snilld.
Græna slýið er hár á búklausum dvergum, sennilega er þarna um að ræða fjarskylda ættingja Margeirs hennar Önnu. Mér finnst þetta fallegt.
Græna slýið er hár á búklausum dvergum, sennilega er þarna um að ræða fjarskylda ættingja Margeirs hennar Önnu. Mér finnst þetta fallegt.
miðvikudagur, maí 07, 2008
Svo kom sólin og þá gretti ég mig ógurlega, enda föl og intressant kona í stórborginni
Kaupmannahöfn er heitu löndin. Þvílík dýrðarinnar dásemd *dæs*
Ég fékk nýtt hjól sem er þannig úr garði gjört að maður getur hjólað í pilsi og verið uppréttur. Á því líður mér eins og drottningu, svíf um og veifa lýðnum. Vissi ekki að það að hjóla gæti nálgast fersk jarðarber, nirvana, súkkulaði og fullnægingu sinnum sjöhundruð.
Smurbrauðsdrengurinn og ég pældum töluvert í orðinu "grillilmur", um leið og við sprönguðum í sandinum á Amager strand. Pælið í því.
Orð geta verið svo asnaleg. Þess vegna læt ég staðar numið núna.
Rétt bráðum.
Já, núna sagði ég.
Ég fékk nýtt hjól sem er þannig úr garði gjört að maður getur hjólað í pilsi og verið uppréttur. Á því líður mér eins og drottningu, svíf um og veifa lýðnum. Vissi ekki að það að hjóla gæti nálgast fersk jarðarber, nirvana, súkkulaði og fullnægingu sinnum sjöhundruð.
Smurbrauðsdrengurinn og ég pældum töluvert í orðinu "grillilmur", um leið og við sprönguðum í sandinum á Amager strand. Pælið í því.
Orð geta verið svo asnaleg. Þess vegna læt ég staðar numið núna.
Rétt bráðum.
Já, núna sagði ég.
mánudagur, maí 05, 2008
sunnudagur, maí 04, 2008
Háu ljósin helgarinnar
Undarleg helgi.
- Bölvaði mikið. Sagði ljótt.
- Þvoði þvott.
- Grét.
- Hjólaði og hjólaði en komst ekkert áfram í rokinu.
- Skrifaði færslur til að fá útrás en þorði ekki að birta þær.
- Dáðist að tæknikunnáttu Péturs, en hann er búinn að setja einn Brahms-bút af tónleikum Ástu á jútúbb, eins og sjá má hér. Þetta er langur kafli og engin lyftutónlist. Seinni hlutinn er mjög fallegur, hafið biðlund.
- Reyndi að taka til í fataskápnum en gafst upp. Rúmið mitt er núna eins og Alparnir og ég ætla að jóðla mig í svefn.
- Fann betur og betur að maður verður að vinna úr þeim áföllum sem maður verður fyrir, annars elta þau mann uppi þegar síst skyldi. Helvítis andskoti þegar maður er farinn að hljóma eins og sænskt vandamálaleikrit.
- Fór í ríkið með flöskur og fékk pening í staðinn.
- Var að spá í að breyta flugi hjá Iceland Express, fiktaði í gærkvöldi á vefnum til að skoða möguleikana og fór í hysteríukast þegar ég fékk póst um "nýja bókun", sem kostaði mig 23 þúsund krónur aukalega. Þvílíkt og annað eins! Það er enginn staðfestingarhnappur, ef maður skoðar nýja dagsetningu (og lokar svo glugganum), þá telst bókunin breytt og maður er rukkaður á visa. Ég vældi í þjónustufulltrúa í morgun og fékk þessu hnekkt, sem betur fer. En þetta rændi mig hugarró og svefni, getið sveiað ykkur upp á það. Stundum er ég mesti klúðrari í heimi.
föstudagur, maí 02, 2008
Liljur varla minns
Sat á latastrák mínum, eitthvað að rísla mér þegar smám saman helltust yfir mig höfuð-, herða-, hné- og táþyngsli. Enn fremur stirðnaði skap mitt og tónninn hvesstist við börnin. Dularfullt, já, þar til ég uppgötvaði að loftið var þrungið liljuilmi svo þungum að hann lá sem mörusmokkur yfir vitum mér. Fjarlægði liljuvöndinn og þá skánaði líðanin og skap mitt róaðist.
Ég ráðlagði dóttur minni áðan að sleppa liljum í jarðarförinni ef ég drepst einhvern tímann. En svo dró ég það til baka. Jarðarförin mín er einmitt kjörið tilefni, því ég þoli ekki liljur og varla fer blómaangan að plaga mig oní kistu. Líka óþarfi að láta spyrjast að maður sé vandlátt og kresið lík.
Ég ráðlagði dóttur minni áðan að sleppa liljum í jarðarförinni ef ég drepst einhvern tímann. En svo dró ég það til baka. Jarðarförin mín er einmitt kjörið tilefni, því ég þoli ekki liljur og varla fer blómaangan að plaga mig oní kistu. Líka óþarfi að láta spyrjast að maður sé vandlátt og kresið lík.
fimmtudagur, maí 01, 2008
Þakklæti
Tónleikar Ástu tókust vonum framar, hún performeraði af krafti og lífsgleði. Ég var allt í senn; stolt, meyr, hrædd, kvíðin, spennt, kát, þakklát.
Við Hjálmar undirbjuggum veisluna saman og rákumst m.a. á þessar kínversku klementínur sem eru svo fínar með sig að þær nugga sér ekki utan í aðrar klementínur með berum berkinum. Undarleg sóun og sérviska.
Veislan gekk vel, þrátt fyrir eitt og eitt baunarklúður, t.d. um leið og ég bað fulla stofu af gestum að skála fyrir tónlistarkonunni sá ég að gestirnir voru allir þurrbrjósta, ekki sála með glas. Pínlegt. En það reddaðist.
Í dag kemst lítið annað að í höfðinu á mér en þakklæti. Þakklæti til allra góðu gestanna sem umvöfðu Ástu mína hlýju og væntumþykju á þessum tímamótum, þakklæti til smurbrauðsdrengsins sem ég er kolfallin fyrir, þakklæti til yfirhönnuðar lífs míns fyrir fjölskylduna og vinina.
Ég er líka þakklát fyrir að kunna að njóta þess að borða sushi, brauð með osti, súkkulaðihúðaða ávexti, mangójógúrt og hráskinku með piparrót. Þakklát fyrir að finna djúpa gleði við að gefa og þiggja. Þakklát fyrir að þykja gott að fara í sturtu. Þakklát fyrir brúnu augun sem horfa stundum á mig og sjá ekkert annað.
Vona að þið þurfið ekki insúlin eftir lesturinn, en svona líður mér í dag. Náðuð þið því? Ég er þakklát.
Við Hjálmar undirbjuggum veisluna saman og rákumst m.a. á þessar kínversku klementínur sem eru svo fínar með sig að þær nugga sér ekki utan í aðrar klementínur með berum berkinum. Undarleg sóun og sérviska.
Veislan gekk vel, þrátt fyrir eitt og eitt baunarklúður, t.d. um leið og ég bað fulla stofu af gestum að skála fyrir tónlistarkonunni sá ég að gestirnir voru allir þurrbrjósta, ekki sála með glas. Pínlegt. En það reddaðist.
Í dag kemst lítið annað að í höfðinu á mér en þakklæti. Þakklæti til allra góðu gestanna sem umvöfðu Ástu mína hlýju og væntumþykju á þessum tímamótum, þakklæti til smurbrauðsdrengsins sem ég er kolfallin fyrir, þakklæti til yfirhönnuðar lífs míns fyrir fjölskylduna og vinina.
Ég er líka þakklát fyrir að kunna að njóta þess að borða sushi, brauð með osti, súkkulaðihúðaða ávexti, mangójógúrt og hráskinku með piparrót. Þakklát fyrir að finna djúpa gleði við að gefa og þiggja. Þakklát fyrir að þykja gott að fara í sturtu. Þakklát fyrir brúnu augun sem horfa stundum á mig og sjá ekkert annað.
Vona að þið þurfið ekki insúlin eftir lesturinn, en svona líður mér í dag. Náðuð þið því? Ég er þakklát.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)