miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Hardkorkonan ógurlega

Tvisvar hef ég lent í eflingarandartaki í búð. Nýlega og með stuttu millibili.

1. Kaffibúð. Ég er að rabba við eiganda búðarinnar, hann er sérfræðingur í öllu er lýtur að kaffi, spjallið er á vinsamlegum nótum, þótt erindi mitt hafi verið að leita lækninga fyrir kaffivélina mína sem hefur verið með innantökur og þarmastíflur. Kaffisérfræðingurinn er maður næstum gufulegur í framkomu, lágmæltur, varkár í orðavali og vel máli farinn. Það kemur mér því í opna skjöldu er hann varpar fram þessu: "Tja, fyrir svona hard core kaffikonu eins og þig....." Við þessi orð kaffimannsins bólgna ég upp af undarlegu stolti. Ég eflist. Ég er hard core...kaffikona.

2. Glóey Ármúla. Vippa mér snöfurmannlega inn í búðina, með gömlu rafmagnstöfluna mína undir handleggnum. Þetta er rykfallið trébretti með fallegum postulínsöryggjum, tafla frá sjötta áratugnum. Það er nýbúið að endurnýja rafmagnið í íbúðinni minni og ég tími ekki að henda þessum fortíðarbita. Fékk þá hugdettu í svefnrofunum að búa til lampa úr töflunni. Vind mér að hávöxnum afgreiðslumannni og ber upp erindið - mig vantar perustæði, snúru, kló og góð ráð. Afgreiðslumaðurinn sýnir framtaki mínu einlægan áhuga , segir m.a. að þetta sé svakalega skemmtileg hugmynd, alveg "innlit/útlit" og allt. Svo spyr hann: "Ertu í Listaháskólanum?"

Ég og börnin erum nú að vinna að því að breyta töflunni góðu í lampa. Verði ljós. Lofa mynd þegar við höfum leyst ýmis praktísk vandamál, t.d. þarf ég að sverfa af postulíninu - án þess að brjóta það. Á einhver flísabor?

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Kjötföt..

Rakst á þetta heillandi tónlistarmyndband hjá Gvendarbrunni. Held að heimurinn verði betri staður ef þið gaumgæfið það. Fallegasta dæmi um "male bonding" sem ég hef séð í óratíma.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Flýgur fiskispaðinn*

Ég er hætt við að verða iðnaðarmaður, nema í neyð og hjáverkum. Er að drepast í skrokknum eftir smíðar og stúss helgarinnar, lagfærði nokkra stóla með vinklum og skrúfum, festi upp snaga og vínrekka, setti saman IKEA lampa (í staðinn fyrir þennan sem vildi heldur deyja en límast nema við puttana á mér). Æi, þetta var erfið helgi. Og það er hundur í mér.

Eitt ráð vil ég gefa ykkur. EKKI FARA Í HÚSASMIÐJUNA UM HELGAR, þ.e. ef þið þurfið að fá ráðleggingar af viti. Lenti í afgreiðslumanni sem vissi minna en ég um borvélar og þá erum við að tala um HÁLFVITA! Drengstauli þessi sýndi mér borvél og þegar ég spurði hvort hægt væri að festa svona skrúfbita á hana (og nota sem skrúfvél), þá sagði hann: "Nei, það er ekki hægt" (held hann hafi aldrei á sinni aulaævi borað í annað en eigið nef). Svo benti hann mér á skrúfvél sem ég keypti líka og bitasett að auki. Þegar ég sýndi þetta allt saman fróðum manni, þá sagði hann mér að auðvitað væri borvélin líka brúkleg sem skrúfvél, í bitasettinu sem ég keypti var m.a.s. þartilgerð græja. Þannig að ég eyddi fullt af peningum til einskis, eða svo gott sem.

Hvað sem því líður þá er ég græjuð upp í topp. Geri aðrar konur betur.

*þessi fyrirsögn kemur efni pistilsins ekki rassgat við

laugardagur, febrúar 24, 2007

Innlit, útlit og amma mín




Gamlir hlutir höfða sterkar til mín en nýir. Hef t.d. alltaf búið í gömlum húsum eftir að ég fór að ráða mér sjálf. Foreldrar mínir byggðu tvisvar á meðan ég var að alast upp sem þýddi tilveru í hálfkláruðu húsnæði um lengri eða skemmri hríð. Fæ enn hroll þegar ég finn lyktina af nýrri steypu. Sjarmi nýbygginga með svörtum, gráum og glerprýddum innréttingum fer fram hjá mér jafn örugglega og sjarmi golfíþróttarinnar.

Þegar fólk talar fjálglega um framkvæmdir við "nýja húsið", ræðir "lausnir" og "möguleika" þá byrjar mitt innra sjálf að geispa og ég dett út eins og framhaldsskólanemi í fyrsta tíma á mánudegi. Get bara ekki að þessu gert.

Myndirnar eru úr uppáhalds skotinu mínu. Appelsínugulu skálina keypti ég í dásamlegri búð sem heitir amma Ruth. Myndin á hillunni er af ömmu minni Elísabetu. Þetta er þykk pappamynd af henni u.þ.b. tólf ára gamalli í þverröndóttri peysu, með stórar slaufur í hárinu. Amma mín var einstök kona og þegar ég hugsa um hana þá hverf ég örskotsstund inn í hlýtt og mjúkt hálsakot og svei mér ef ég finn ekki appelsínu laumað í lófann á mér.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Tónlist er skipulagður hávaði

Í gamla daga óskaði ég þess alloft að kunna á partívænt hljóðfæri (lesist "gítar"), í stað þess að hafa verið send í píanónám. Vinkona mín spilaði á selló og ekki var það mikið meðfærilegra en slagharpan. Nú seint og um síðir hef ég náð þeim þroska að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið látin læra á þetta hljóðfæri.

Í dag er "starfsdagur" (til aðgreiningar frá öðrum dögum í vinnunni) sem þýðir að ég er að þrífa og organísera á skrifstofunni minni. Ekki vanþörf á að taka á uppsöfnuðum vanda sem stafar af annríki og þeirri staðreynd að ég hef skipulagsgáfu á við lárperu.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Skáldað líf

Ég er uppnumin. Var að koma úr bíó. Ef Sigga mælir aftur með mynd, þá hleyp ég hiklaust í næsta kvikmyndahús og kaupi miða. Stranger than fiction er snilld. Ekkert minna. Sjáið þessa mynd, hún er sýnd í Háskólabíó kl. 17:50 - ekkert hlé.

Við Ásta fórum saman og hlógum í takt. Greinilegt að hún erfði skakka aulahúmorinn minn. Gott að eiga eitthvað í börnunum sínum, fyrir utan nærsýni og útskeif hné.

Konan með lampann

Í gær...

- fann ég að það er ekki sem verst að teygja undir Elvis

- borðaði ég saltkjöt og baunir í góðum félagsskap

- lenti ég í vondum málum. Í helstu hlutverkum voru standlampi (IKEA drasl), tonnatak og 8 puttar. Við "operation glue" leystist lampinn upp að nokkru leyti en límdist hvergi nema við puttana á mér. Ég var því ein heima með samanlímda, silfraða fingur og standlampa í eftirdragi. Hvað gerir maður þá? Hringir í fyrrverandi. Hann hefur ráð undir rifi hverju.

Legg ekki meira á ykkur.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Níels kossaljón

Fékk nú bara hláturskast yfir þessu hér.

Og mikið rosalega er mér sama hver kyssir hvern, hvar, hvenær og hvaða líffæri fá að vera með.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Betu(r) gefnir skór

Í afmælisgjöf fékk ég Meindl gönguskó með minni. Dýrka þá. Inni í þeim er lag af efni sem lagar sig að fætinum og man hvernig hann er í laginu. Fyrst hélt ég að skórnir myndu hvert þeir hafa farið, eða jafnvel hvert ég stefndi. Það hefði getað komið sér vel að ganga í einhverju gáfaðra en maður er sjálfur. Hvað sem því líður eru þessir skór vel gefnir.

Getur einhver sagt mér af hverju ryksugan mín er alltaf stífluð?

laugardagur, febrúar 17, 2007

Klakaböndin bresta

Var að koma úr gönguferð að Helgufossi í Mosfellsdal með vini mínum Dóra draumi og tíkinni Sölku Völku. Vorum þarna á slóðum skáldsins, en Laxness ku hafa gengið þessa leið æði oft. Nokkuð laust var við að skáldlegri hugsun slægi niður í koll minn á göngunni, en þó leiddi ég hugann að því hversu skemmtilegt orðalag ég heyrði um daginn, þegar fréttamaður sagði sækjanda hafa "sett dreyrrauðan". Við þessi orð jókst skemmtigildi Baugsmálsins úr -90 í -75.

Í spjalli við annan vin minn, Hauk flugkappa, þá sagði hann orð fréttamannsins hafa kveikt hugrenningatengsl yfir í orðalag í barnabókum fornaldar (þegar við vorum lítil), en þá var viðbrögðum pilts gagnvart hróplegu óréttlæti lýst svo: Hann fór afsíðis og grét beisklega.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Lúin, snúin, búin

Mig logverkjar um allan skrokkinn. Get varla hreyft mig. Það er heilsusportaranum sem stjórnar leikfimihópnum mínum að kenna. Hann hrósar okkur, hinum leikfimu konum, af þvílíku alefli að við espumst allar upp, tökum þyngri lóð, fleiri armbeygjur og hlaupum miklu miklu hraðar og lengur. "Flottar armbeygjur, svona á að geraða!", "stórglæsilegar hnébeygjur", æpir hann á okkur, hress og upppeppandi. Ég dregst úr leikfiminni svo búin á því að ég get ekki loftað hnífapörum, reimað skó, hvað þá skipt um gír. Getsvosvariða.

Verð að fá mér sjálfskiptan bíl og mat sem hægt er að drekka með röri.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Hvað er svona merkilegt við það?

Já, ég er að rifna úr stolti. Festi upp hillu í herberginu hans Matta míns, alein (Matti hjálpaði mér reyndar að finna út úr hleðsluskrúfiþingíinu). Þurfti að bora 5 göt í eldgamla steypu. Nú er borvél efst á óskalistanum hjá mér, svo ég þurfi ekki alltaf að fá lánaðar græjur.

Iss piss. Ekkert mál.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Í nefinu er þetta helst

Lykt dagsins: Málning og þorramatur. Fullkomlega misheppnaður dúett.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Baunardagatal

Í dag er ekki alþjóðlegur dagur trönuberjabænda, ekki baráttudagur kóngabrjóstsykursgerðarmanna, ekki dagur íslenska lungans. Það eru ekki jólin og ekki páskar. Í dag er ekki öskudagur og ekki bolludagur.

Í dag er hins vegar afmælisdagur Hjalta sonar míns. Til hamingju Hjalti Elías bestakrútt!

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Bollur og syfjaðar tölvur

Búin að baka Hvannadalshnjúk af vatnsdeigsbollum, búa til Royal búðing, þeyta Vatnajökul af rjóma, laga uppistöðulón af sírópi og er tilbúin með sultuna og flórsykurinn. Bollur eru góðar.

Er tölvan hæg í vinnslu? Vil benda fólki á að fara í tools, velja internet options og delete temporary files. Búin að eyða sprilljón temporary files út úr kerfinu og tölvan er gjörbreytt, nú er hún vakur gæðingur í stað þvera múlasnans sem hún var áður.

Legg ekki meira á ykkur í bili.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Dreg augað í súrsaðan pung fyrir mistök

Dreymdi þennan draum fyrir u.þ.b. viku síðan, hann var mjög sterkur og skýr.

Ég sá allt í móðu, eins og búið væri að smyrja lagi af vaselíni á sjónhimnu mína. Fyrir framan mig lágu tveir lyklar, svona venjulegir ASSA lyklar. Ég tók annan upp og stakk honum í augnkrókinn, fann hvernig hann rann inn í eitthvert holrými þar með soghljóði. Sjónin lagaðist örlítið við þetta en ekki alveg. Þá tók ég hinn lykilinn og stakk honum inn í hinn augnkrókinn. Við það lagaðist sjónin aðeins betur.

Fletti upp í draumráðningabók og þar stendur að dreymi mann sig sjóndapran, sé það fyrir því að manni verði á "mikil yfirsjón." Ekki var það nú gott.


Sjálf tel ég þennan draum afleiðingu þess að ég hef ekki fengið snefil af þorramat í ár.

Staurblind

Þakka ykkur fyrir að standa svo augljóslega með mér í umferðaróhappinu baun vs. staur. Er næstum farin að vorkenna staurnum. Bíllinn er ekkert beyglaður að gagni, þetta var nauðaómerkilegt allt saman. Eftir að ég bömpaði í diskósveiflu á staurinn, ákvað ég að skoða ekki hvort eitthvað hefði skemmst, heldur keyrði beint heim og breiddi sængina upp fyrir haus.

Strútar eru skrítnar skepnur. Mun heimskari en þeir líta út fyrir að vera.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Staur - átti ég hann skilið?

Bölv og ragn! Ferlegur kuldi, ömurlegar fréttir aftan úr fortíð um grimmd og mannvonsku, myrkur, bloggleti annarra (grrrrrrr....!) og ÉG BAKKAÐI Á ****** STEYPTAN STAUR Á BÍLASTÆÐI. ***** staurinn var grár eins og hversdagsleikinn sjálfur.

Ætla að fara að sortera letingjana úr tenglalistanum mínum. Mjög fljótlega.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Fótatak fortíðar

Hef alltaf haft yndi af því að grúska í gömlu dóti, bókum, fötum, postulíni, skóm og alls kyns drasli. Kaupi mér stundum notuð föt og gerði það alloft áður en það komst í tísku. Festi kaup á þessum skóm fyrir nokkru í búð Rauða krossins á Laugavegi. Afskaplega þægilegir og fallegir að mínu mati. Skór með fortíð.

Vill svo einkennilega til að fyrri eigandi fylgir mér hvert sem ég fer. Þegar ég geng á þessum skóm, þá er ég aldrei ein. Klænk klænk klænk heyrist, þungir hælasmellir sem aldrei áður hafa tilheyrt sinfóníu fóta minna. Konan sem átti skóna var lágvaxnari en ég, doldið þybbin og ljóshærð. Tel hún hafi verið vel tennt og afar ákveðin í fasi. Klænk klænk klænk. Hún vann í mjólkurbúð, þar áður í fiski og fékk útborgað í seðlum sem henni voru réttir í brúnu umslagi. Hún átti til að ljúga, en af því að hún hafði svo stór brjóst var henni fyrirgefið.

Hún var aldrei fullkomlega sátt við sitt hlutskipti og þess vegna gengur hún aftur. Aftur og aftur. Í gegnum mig.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Torskildar tækninýjungar

Þið tölvunördar, endilega kíkið á þetta hér. Horfið á allt til enda. Drephlægilegt efni sem ég rakst á hjá Miss Jones, eðalfrænku minni.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Túlípanar og himinninn

Búin að fá formlega kvörtun undan efni síðustu pistla, þemað þykir of úrgangslegt.

Þess vegna ætla ég að tala um eitthvað snoturt. Túlípana. Þeir eru uppáhaldsblómin mín. Bæði fallegir og ætir.

Svo er ég afskaplega ánægð með himininn. Sem slíkan.


Orð dagsins eru: Illegitimus non carborandum*


*Don´t let the bastards grind you down

föstudagur, febrúar 02, 2007

Ef bloggið var bóla eru þessi orð gröftur

Það eru næstum allir hættir að nenna að blogga. Bráðum neyðist ég til að fara inn á barnaland.is í fyrsta skipti. Skilst að þar sé aksjón, mikil framleiðni og perversjónir í löngum bunum. Kaldhæðnislegt ef satt er.