laugardagur, ágúst 29, 2009

Ber í fötum

Þakin rauðum slettum og með æðisglampa í augum hef ég verið að berjast til síðasta berjadropa. Áðan reif Hjálmar af mér dalla, sleifar, ausur og uppþvottabursta og skipaði mér að setjast, enda var hann farinn að horfa á mig með óvenjumiklum áhyggjusvip.

Þetta byrjaði allt með ferð norður á Dalvík, en þar býr stór og góður föðurleggur minn. Á Dalvík veiddum við í soðið og tíndum ber. Fórum líka á Byggðasafnið, en það finnst mér skemmtilegt og gott safn.

Hér má sjá pabba og Birni bróður hans á leið á miðin. Fínir kallar.
Mávarnir slógust um slógið, fannst það greinilega ekkert slor.
Baun var býsna fiskin, dró ýsur og stundum þorsk. Eitt sinn kom upp úr kafinu þöngulhaus ægifagur, hann hefði maður átt að hirða. Hausinn hefði sómt sér vel sem borðskreyting, klósettbursti eða órói í svefnherberginu.
Í Ólafsfjarðarmúla kom leyndur fæðingargalli baunar sér vel, nefnilega baklægar sogskálar á þremur aukaörmum sem gerðu henni kleift að hanga í snarbrattri hlíðinni og tína ber ofan í tíu lítra fötur.
Fyrir utan krækiber, eru fyrir norðan bláber, aðalbláber og aðalber (þau eru kolsvört eins og sjá má á myndinni). Dalvíkingum þykja aðalberin best. Mér þykja öll berin best.

Baun himnasæl í ilmandi berjalyngi.

Hjálmar og min berjamor (mamma heitir það í berjamó) í Böggvistaðafjalli.
Þetta er hann Depill. Þótt Depill sé bara lítill kanínustrákur er hann stór upp á sig og leggur sér skrautjurtir til munns. Hann leit ekki við gulrótum og káli, en kjamsaði á stjúpum sem hún Dísa skáfrænka mín gaf honum úr garðinum.

Já, það er ekki ljótara en það. Nú er ég búin að frysta, sulta og safta sleitulaust í tvo daga. Brá á það ráð að baka risastóra hjónabandssælu til að losna við rabbarbarasultu sem til er í bunkum á heimilinu (þar losnuðu tvær krukkur). Búsældin ríður ekki við einteyming hér á Kirkjuteignum.

Held ég leggi ekki meira á ykkur að sinni, enda kappnóg.

mánudagur, ágúst 24, 2009

Vegna fjölda áskorana...

...þar sem fjöldinn var einn, kemur hér uppskriftin að Elvis-pelvis:

u.þ.b. kíló "butt pork roast"
olía til steikingar
1 dós tómatsósa (eða hakkaðir tómatar í dós)
1/4 bolli eplaedik
1/4 bolli Worcestershire sósa
1/4 bolli púðursykur (má vera aðeins meira, fer eftir hvað edikið er sterkt)
salt og pipar
1/2 tsk sellerífræ (ég notaði sellerísalt og sleppti þessu)
1/2 tsk chiliduft
smá slurkur af sterkri sósu (red hot pepper sauce)

Stingið offorslega í pöruna með beittum hníf (veitir holla útrás). Brúnið ketið á öllum hliðum. Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott/pönnu og látið suðuna koma upp. Ágætt að setja kjötið og sósuna svo í svartan pottofn eða hvað það nú heitir og hægelda í ofni í a.m.k. 2 tíma, eða þar til kjötið er alveg meyrt. Það þarf að ausa yfir Elvis af og til. Látið kjötið standa í 10 mínútur áður en þið skerið það niður.

Ég hef gert þetta áður og þá tók ég pöruna af fyrir eldun, ég er ekki frá því að það sé betra. Það kemur mikil fita af pörunni og hún er ekkert góð þegar hún er elduð á þennan hátt, verður bara gúmmí. Ólseiga Elvishúð vill enginn snæða.

Með þessu er borið fram franskbrauð, kartöflu-sætkartöflustappa og "cole slaw" (hvítkál, gulrætur, mæjó, sýrður rjómi og ananas). Nauðsynlegt er að drekka pepsi með og leyfa Elvis að raula á fóninum. En það má líka drekka rauðvín eða bjór eða rótarbjór eða mjólk.

Uppskriftina fékk ég hjá Ásdísi Viggósdóttur, sem er mesti aðdáandi kóngsins í öllum heiminum og þótt víðar væri leitað. Takk Ásdís:)

Rifs og Elvis

Get svo svarið að ég er búin að vera gal-mega-ofur-spídígonsales dugleg undanfarið. Tíndi ber, sultaði, græddi péning fyrir Hollvinasamtök Grensásdeildar, hét á hlaupagarpinn minn í hálfmaraþoni, lagaði bílskúrshurðaopnara hjá mömmu og pabba (nei, það var nú Hjálmar), bakaði fagra rifsberjatertu og hélt matarboð þar sem eldaður var Elvis-pelvis.*

Á sunnudaginn fórum við Hjalti litli í bókabúð að kaupa skóladót og þar mætti okkur brennivíns-þynnkustækja svo römm að ég hélt eitt andartak að við hefðum villst inn á Keisarann sáluga. Það var greinilega gaman á Menningarnótt, og greinilega ekki eins gaman daginn eftir að olnboga sig áfram í troðfullri ritfangaverslun. Blessað fólkið.

Og nú verður stefnan tekin norður á bóginn til móts við ótínd ber og óveiddan fisk. Búbaunin lætur ekki að sér hæða og má ekkert vera að þessu rafgaufi.

Elvis rokkar í kjötinu.


*Hægeldaður svínabógur í heimalagaðri bbq-sósu, uppskriftin er úr bókinni Are you hungry tonight?

miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Ekki gleypa tyggjó

Hræðilegar aukaverkanir!

Þessa myndskreyttu viðvörun fékk ég senda í pósti í dag og kannski er ég síðasta mannveran á Íslandi til að sjá hana, en get samt ekki annað en deilt þessu með ykkur. Af því að þið eruð þið.

Var að horfa á fréttir Stöðvar tvö, þar sem beðist var afsökunar á vægast sagt ömurlegum fréttaflutningi í gær. Lágmarks kurteisi. Fannst annars spaugileg fréttin um mýsnar tvær sem fundust á svölum fjölbýlishúss í bænum, sérstaklega þegar fréttakona Stöðvar tvö leit þungbrýnd inn í myndavélina, lagði hönd á húsvegginn og sagði alvöruþrungnum róm: Hér á bakvið þessa klæðningu gæti allt verið iðandi af músum.

föstudagur, ágúst 14, 2009

Áhættuhegðun húsmæðra

Held að ástand þjóðmála sé að leiða mig út í áhættuhegðun. Fór um daginn í leiðangur til að pumpa lofti í dekkið á hjólinu mínu og valdi blákalt til þess vafasama bensínstöð, þessa þarna rétt hjá Umferðarmiðstöðinni, en þar skilst mér dópsalar iðki sitt díl í öðrum hverjum bíl (gott ef hvíti bletturinn á myndinni er ekki niðursullað amfetamín).

Reyndar komst ég svo að því að ég get hvergi pumpað í hjólið, því ventlarnir passa ekki við neinar loftslöngur. Prófaði eitthvert millistykki sem gekk ekki heldur. Neyddist því til að notast við gamaldags pumpu og sterka upphandleggsvöðva kærastans *andvarp*.

Ég er búin að vera lasin og hálflasin í heilan mánuð, hóstandi og snörlandi. Fékk sýklalyf um daginn, kláraði þann (10 daga) skammt og svo skrifaði doksi upp á annan kúr fyrir mig í morgun. Ég ákvað að leysa það sýklalyf ekki út, átti að borga 10 þúsund kall fyrir töflur og sprei. Sleppti töflunum og er sannfærð um að kroppurinn lemur á þessari pest. Fyrir rest.

Mig langar í berjamó.

miðvikudagur, ágúst 12, 2009

Netkeröld

Mér þykir býsna gaman að skoða gamlar auglýsingar, sem e.t.v. ber lágmenningarlegu upplagi mínu vitni. Rakst á þessar í tímaritinu Konan og heimilið, handbók heimilisins 1969 og finnst þær báðar svo fallegar og aðlaðandi.
Einu hef ég velt fyrir mér, talandi um horfna tíma og fagureygðar ýsur. Hvað verður um Facebook-síðu manneskju sem deyr, þ.e. þegar aðstandendur komast ekki inn til að eyða síðunni (lykilorð farin yfir í sælli veröld)? Er fullt af dánu fólki á fésbók? FB er erlent og fjarlægt apparat og varla tengt þjóðskrá. Það hlýtur að sama skapi að vera til hellingur af bloggsíðum látinna. Undarleg tilhugsun að menn haldi áfram að sveima um netheima þótt þeir séu komnir undir græna torfu.

Held þetta komist næst martröð minni um eilíft líf.

laugardagur, ágúst 08, 2009

Glaðir, stoltir og allir hinir sem eru eins og þeir eru




Hér eru nokkrar myndir úr gleðigöngunni. Mín staðfasta og vel ígrundaða skoðun er sú, að gleði sé góð og það sé alls ekki of mikið af henni í lífinu.


Margir í bænum, og þeir sem voru ekki þar hljóta að hafa verið að éta fisk á Dalvík.
Til hamingju með daginn hommar og lesbíur!

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Skaupmáttarrýrnun

Nú er ég búin að semja marga pistla í huganum sem náðu að villast inn í myrkrakompu. Hugsanlega rekst ég á slökkvarann (kveikjarann?) einhvern daginn þegar ég er að leita að stjörnuskrúfjárni.

Eftir örstutt og snýtingasamt sumarfrí náði vinnan að gleypa mig, það er nú meira annríkið alltaf á Lansanum. Vill til að mér finnst gaman í vinnunni, dagurinn hleypur hviss-bæng-búinn. Best gæti ég trúað, að þegar allir hólarnir í Vatnsdal, eyjarnar á Breiðafirði og vötnin á Tvídægru hafa verið talin, teljist ég heppin að starfa við það að gera gagn. Ekki öfunda ég stropaða dúdda með stórar tölur í gráðugu höfði, þótt þeir eigi böns of monní sem þeir hamast við að borga ekki skatt af. Það verður hver að lifa með sínum gjörðum.

Auk þess óttast ég ekki klípuna. Hagvöxtur er fyribæri úr endaþarmi andskotans sem étur upp auðlindir jarðarinnar og traðkar á valdalausum manneskjum. Stríð, slys og aðrar hörmungar auka hagvöxt. Ég lýsi frati á heim sem getur ekki hugsað um neitt gáfulegra en hagvöxt. Og er ekki óþarfi að láta væl um einhverja "kaupmáttarrýrnun" draga úr sér kjarkinn? Hvað með það þótt við getum ekki keypt allt þetta drasl sem hvort sem er endar inni í geymslu/bílskúr/á haugunum? Pfft! Svartagall og dómsdagsraus er prýðilegt í hófi, en í óheftu magni dregur það allan mátt úr fólki. Er ekki kominn tími til að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan? Er mögulegt að leggja frá sér bitra heykvíslina og tala um eitthvað annað en peninga? Ég sé í hillingum einn fréttatíma án lögfræðinga, hagfræðinga og formanns Framsóknarflokksins.

Hitti í dag mann með ýtuvaxinn fót en ákvað að hafa ekki orð á því við hann. Fannst óþarfi að núa honum upp úr hinu augljósa.

mánudagur, ágúst 03, 2009

Sumarmatur

Stend á blístri eftir máltíð kvöldsins. Sjávarréttapítsa með rúkola, nýrifnum parmesan og hvítlauksolíu.
Í eftirrétt voru ábrystir með kanilsykri og mjólk. Ég er, að eigin mati, miklu flottari kokkur en Rachel Ray (efast um að hún hafi fengið brodd í Kolaportinu).
Sumarfríið mitt er búið að vera leti, át, lestur, hangs, át og hjólatúrar í blessaðri blíðunni. Ekki yfir neinu að kvarta.* Myndin hér að neðan var tekin í Nauthólsvík í dag, svona er veðrið alltaf á Íslandi.
Ég hef frá svo mörgu að segja. Ó, já. Hafið þið smakkað salat með grænsápubragði?


*Nema útrásardrulluháleistunum, þáttum um bresku konungsfjölskylduna, kvefinu, bönkunum, því að ég komst ekki á tónleika Ljótu hálfvitanna í gærkvöld (uppselt), eigin skavönkum og annarra, reykingum og óréttlæti heimsins.