fimmtudagur, apríl 30, 2009

Liljur vallarins fyrir allan skattpeninginn

Fyrsti hjólatúr sumarsins að baki. Hjólið mitt skartaði blikkandi dönskum ljósum, hvítu að framan og rauðu að aftan. Hjálmar lét hvítan plömmerinn duga til endurskins að aftan.

Á Klambratúni sáum við konu, með á að giska fimm ára stúlkubarn sér við hlið, krjúpa í blómabeði og tína páskaliljur. Móðirin brosti við barninu og hjálpaði því að raða blómunum í vönd. Hjálmar tók á sig krók og starði illilega á mæðgurnar. Við það urðu þær heldur lúpulegar og snáfuðu á brott. Makalaust hvað fólk getur borið litla virðingu fyrir sameiginlegum eigum borgarbúa.

Tómi turninn á Höfðatorgi er eins og vond ofskynjun, mér snarbregður í hvert sinn sem hann dúkkar upp í sjónsviði mínu. Get ekki vanist þessu lóðrétta glerhafi.

Annars er ég bara spök og hita galvösk upp fyrir nallann.

miðvikudagur, apríl 29, 2009

Flýgur svínasagan

Man þegar allir voru með hland í brók yfir "2000 vandanum" sem átti að leggja vestræna siðmenningu í rúst. Sett var á laggirnar "viðbúnaðaráætlun fjólublár" hjá Almannavörnum og fólk eyddi mokfé í vírusvarnir eða hvað þetta nú hét. Góðæri fyrir tölvukalla, allt í fína með það.

Svo fengu fjölmiðlar fuglaflensuna og ríkislögreglustjóri setti á laggirnar "viðbúnaðarstig grábölvaður". Í kjölfarið sá maður fyrir sér Dickensíska senu, ólseiga grindhoraða kalla keyra hjólbörur fullar af líkum á Laugaveginum, sturta hræjunum í hauga á Ingólfstorgi, flugur sveimandi yfir og allir sem áttu að kveikja í löngu dauðir. Nálykt yfir borginni, vargurinn slítandi í sig mannaket, einn og einn veikur hósti til að rjúfa dauðakyrrðina. Allir auðvitað steindauðir heima hjá mér á Kirkjuteignum, nema páfagaukurinn.

Ekki batnar það. Nú, í miðri klípunni, eru fjölmiðlar komnir með svínaflensu. Það hljómar fremur óflatterandi að fá svínaflensu. Apótekin rokselja spritt og grímur. En fyrir utan nafnið, hvað er svona miklu verra við þessa flensu en aðrar flensur? Venjulegar inflúensur leggja fjölmarga að velli, á hverju einasta ári. Því þetta fár? Því allur þessi viðbúnaður? Af hverju lýsti Arnold yfir neyðarástandi í Kaliforníu? Ég skil bara ekki neitt í neinu, það er t.d. sagt að flensan sé ekki svo skæð nema í Mexíkó og þar eru um 160 látnir (óstaðfest). Hvernig getur flensuvírus orðið vægari við það eitt að fara yfir landamæri? Og ef einhver hnerrar í Leifsstöð, verður honum umsvifalaust pakkað inn í husholdningsfilm? Æ, er ástæða til að hræða okkur svona, við sem erum varla miklir bógar um þessar mundir. Þeir hefðu alla vega getað valið eitthvað sakleysislegra, t.d. gullfiskakvef eða hamstrabólgu.

Mér dettur helst í hug að það væri ráð að bólusetja fjölmiðla gegn flensu.

mánudagur, apríl 27, 2009

Molar og teygjur

Lost er í sjónvarpinu, þar á fólk við feiknamikil vandamál að stríða. Flókin, og að því er virðist, óleysanleg. Jafvel Ísland er skárra pleis en Losteyjan.

Talandi um tey(g)jur. Ég fékk mjög fyndinn póst um kínverskar hárteygjur búnar til úr notuðum smokkum. Í bréfi þessu voru fleiri upphrópunarmerki en í meðaltalbólu hjá Ástþóri M.: "EF þú átt dætur, frænkur eða þekkir einhvern sem á ....LESTU VEL!!!!!!!!!!!!!!. "

Talandi um talbólur. Yngri sonurinn er að filma stuttmynd með vinum sínum og sá eldri er að læra. Hjálmar fór út að hjóla, hann er með ofnæmi fyrir sjónvarpi. Húsið mitt lekur og það var keyrt á bílinn minn um daginn.

Ég er komin með kransakökusjúkdóm vegna ofneyslu marsipanmassa. Einkenni eru sundurleysi. Lækningin er að mér skilst sú að borða enn meiri kransaköku. Líkt læknar líkt.

Mér finnst að dagurinn eftir fermingarveislu eigi að vera lögboðinn frídagur.

laugardagur, apríl 25, 2009

Brauðtertumaraþon

Haddigúmm í haugasjó hvað ég er þreytt. Búin að smyrja 40 þús flatbrauðssneiðar, baka tertur, búa til fjall af döðlunammi, skúra, fægja, þrífa, dusta, fela drasl undir öllum rúmum, fá lánaða stafla af stólum, tertuspöðum, glösum, kökugöfflum og ég veit ekki hverju. Búin að ráða einleikara á píanó (Matthías Pétursson) og Pío míó tríóið til að skemmta gestum. Svo er fermingin náttúrlega þannig tímasett að veislugestir geta skrafað um pólítík án þess að rífa hver annan á hol. Skyldi maður ætla. Það þýðir ekkert að æsa sig daginn eftir kosningar.

Hjálmar hljóp hálft maraþon í morgun og vatt sér síðan beint í brauðtertugerð (rólegan æsing, hann fór í sturtu áður). Mikið assgoti sem hann er flinkur með mæjónesið, maður fær bara í hnén.

En nú ætla ég að vera slök. Oommmmm...

miðvikudagur, apríl 22, 2009

Hér er ekki fjallað um brjóst

Ég er búin að taka "kosningapróf" á mbl.is og hvað.is. Þar er mér sagt að einn flokkur samrýmist mínum skoðunum þokkalega. Sannleikurinn er sá að ég á í stökustu vandræðum með að velja á milli S og VG. Stefna VG í umhverfismálum er sú eina sem mér hugnast og í mínum augum eru umhverfismál afskaplega mikilvæg. Hins vegar er stefna VG í Evrópumálum óforbetranlega afturhaldssöm. Sé ekki hvað er að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu (og hafa svo þjóðaratkvæðagreiðslu um málið). Hvernig í ósköpunum er annað hægt en að skoða þann kost?

Kæri póstur, hvað get ég tekið til bragðs? Ekki dettur mér í hug að skila auðu, eða klippa fokkmerki út úr kosningaseðlinum. Ég vil að mitt atkvæði hafi vægi, þótt lítið sé, enda er ég ekki landsbyggðatútta með stór brjóst.*

*afsakið, ég meina "stór atkvæði"

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Séð og heyrt

Ef ég hefði ekki farið í klippingu í gær vissi ég ekki að Jói Fel hefði tekið upp bakka með jarðarberjum í Krónunni og lagt hann frá sér aftur.

laugardagur, apríl 18, 2009

Appelsínugul

Lífið snýst býsna mikið um fermingarundirbúning þessa dagana. Appelsínugult verður þemalitur veislunnar, enda sterkur og góður litur og í anda búsáhaldabyltingarinnar. Hjalti valdi borgaralega fermingu þar sem hann er trúlaus. Samt er hann eina barnið mitt sem sótti sunnudagaskóla nokkuð reglulega og að auki fór hann tvisvar í Vatnaskóg. Eitthvað hefur sérfróðum trúaruppalendum mistekist að innræta syni mínum sannkristni, eins og mér reyndar líka og föður hans. Önnur amma piltsins hefur af þessu nokkrar áhyggjur, og lái henni hver sem vill.

Fermingin verður um næstu helgi, þ.e. kosningahelgina. Talandi um stjórnmál. Hver ætli verði málalengingamálaráðherra?

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Diskó að eilífu

Hvort sem maður vill stunda vandaða mökunartilburði eða fágaða fótamennt, er brýnt að fá góða leiðbeiningu. Með nútíma tækni gefast ótal tækifæri til að læra réttu hreyfingarnar.

Dillum okkur (og lærum að telja á finnsku).

mánudagur, apríl 13, 2009

Viva Islandia




Í svona veðri er varla hægt annað en að vera glaður. Gengum á Trölladyngju, finnst miklu skemmtilegra að ganga á hana en á Keili. Matti minn skokkaði þetta léttilega með okkur, enda lítið mál að vera sprækur þegar maður er seytján ára.

Ég komst að því í þessari ferð að Hjálmar er afar óþolinmóður og hneigist til rallaksturs á hæfilega vondum vegum. Maðurinn er hreinlega viðþolslaus ef hann lendir á eftir hægfara ökutæki. Hélt á tímabili að hann ætlaði að berja gamla konu undir stýri, jafnvel með stýrinu. Svo blótar hann reiprennandi á spænsku. Extraño.

Páskafríið hefur liðið allt of fljótt og ég er enn með súkkulaðisvima sem blandast gleðivímunni í ljúfu hanastéli.

laugardagur, apríl 11, 2009

Lygalopinn

Það getur verið erfitt að vera manneskja, enda eru sumir ekkert sérlega góðir í því. Heimurinn skuldar okkur ekki neitt, en við honum helling. Sárt að trúa ekki á mátt réttlætis, heldur umbera yfirgang hinna ósvífnustu. Og við sem trúðum á heiðarleika og sanngirni erum hallærisleg og úrelt. Hlægileg. Við erum vélprjónaðar lopaflíkur.

Vont vont vont að vakna eftir að hafa verið bíað lengi og falskt í fastasvefn.

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Ókristileg ferming

Að mörgu er að hyggja þegar fermingarveisla er skipulögð. Sonur minn mun undirgangast borgaralega manndómsvígslu þann 26. þessa mánaðar, og verður fagnað með hrossakjötsáti fyrir opnum tjöldum. Ég ætla samt að blóta á laun, aðallega dýrtíðinni.

Er að spá í bakkelsi alla daga en matseðillinn er ekki komin lengra en á hugmyndastigið. Ef þið lumið á algjörlega frábærum uppskriftum þá megið þið alveg láta mig vita.

Annars er það helst að frétta að ég er komin í langþráð páskafrí og er það harla gott.

mánudagur, apríl 06, 2009

Fegrunarmáltruflanir

Ég var skömmuð í fermingarveislu fyrir að gera grín að ákveðnum stjórnanda ákveðins þáttar. Nú ét ég hund og hneigi höfuðið í iðrun. Umræddur stjórnandi er víst svo "æðislega klár" og "geðveikt flinkur". Augljóslega er það algjört aukaatriði að hann tali fegrísku sem ég kann varla hrafl í (mitt vandamál, ekki hans). Ég sló því fram í hálfkæringi að ég ætti bara að panta mér tíma hjá honum. Eins undarlega og það kann að hljóma kinkuðu allir ákaft kolli, ein frænka mín hljóp m.a.s. til og náði í símanúmerið hjá fegrunarmógúlnum.

Konu getur nú sárnað.

föstudagur, apríl 03, 2009

Sundurleysi

Stjórnmálaumræður *geisp*. Svakalega eru mörg framboð. Finnst ykkur Bjarni hafa fallegt nef? Jóhanna er með voða fix eyrnalokka. Tannhirða virðist yfirleitt með ágætum.

Við skötuhjúin fengum okkur að borða á tælenskum veitingastað í Kjörgarði. Fínasti matur, hræbillegur. Sáum slatta af fyllibyttum á Laugavegi, Monte Carlo er nýi Keisarinn. Spurning hvort rónarnir hætti að vera til verði þessi staður lagður niður eins og hinn. Keiserasera. Ég keypti mér nærbuxur á hundraðkall í búð þar sem allt var á hundraðkall.

Vorið lét á sér kræla í dag.