sunnudagur, júlí 22, 2007

Á Flúðum rækta menn grænmeti í gúrkutíð


Fór í sumarbústað með strákunum mínum á föstudaginn, við vorum búin að hlakka lengi til þessarar ferðar. Keyptum vikubirgðir af mat í Bónus, komum okkur fyrir í fínum bústað í blíðskaparveðri. Vorum búin að bjóða nokkrum vinum og ættingjum í heimsókn á Flúðir. Sváfum þarna eina nótt eins og englar, fórum í badminton, húlluðum og kósuðum okkur. Yndisleg afslöppun blasti við í heila viku.

Eftir bíltúr á Selfoss á laugardeginum komum við aftur í bústaðinn. Vorum á leið í pottinn þegar bíl var lagt fyrir aftan minn. Ég skipti mér lítt af því, sötraði kaffi úti á palli og var að afklæða mig þegar kona steig út úr bílnum. Í bílnum sá ég glitta í mann og tvö börn.

Konan nálgast mig varfærnislega og segir, ahemm...ég var búin að bóka þennan bústað.
Ha? segi ég.
Jú, við leigðum hann þessa viku, það var allt frágengið, segir konan.
Hvaða vitleysa, ég er hérna með samninginn, sko, hérna stendur þetta skýrt og greinilega........úps!


Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fljótfærni kemur baun í bobba. Hafði sem sagt bókað ranga viku, greitt fyrir hana og sú vika var liðin. Bústaðurinn hafði staðið galauður vikuna áður en baun mætti með strákana sína í fríið langþráða.

Nú var ekki annað að gera en segja "gúlp" og hefjast handa. Með hraði. Við ruddum draslinu oní poka, kassa og töskur, föt og matur í bland. Á meðan stóð fjögra manna fjölskyldan á veröndinni án þess að mæla orð frá vörum. Held að konan hafi vorkennt mér og maðurinn viljað berja mig. Börnin líktust föður sínum.

Minnir að ég hafi tautað eitthvað samhengislaust við konuna meðan á þessu stóð og hlegið kjánalega þess á milli. Á leiðinni heim í bílnum sveipaði okkur hnausþykk vonbrigðaþoka. Matti og Hjalti eiga alla mína samúð fyrir að eiga svona sauð fyrir móður. Maður velur sér víst ekki ættingja.

Á myndunum má sjá brot þess dóts sem rutt var inn í bílinn á mettíma. Takið eftir snyrtilegum frágangi og merkjum um góða rýmisgreind pakkarans.

Nú erum við að borða sumarbústaðamat, fórum í badminton úti í garði í gær og ég húlla til að gleyma.

Engin ummæli: