fimmtudagur, júlí 26, 2007

Baun. Alveg þráðbein.

Jæja. Nú er baunin búin að kaupa sér hlaupaskó. Ungur og ákafur sölumaður vildi pranga inn á mig dýrari skóm sem "laga sig að hlaupastílnum", en mér fannst það nú bara varhugavert. Fyrir skóna.

Þótt furðu fáir hafi snuprað mig fyrir sauðsháttinn í tengslum við "litla sumarbústaðamálið", rifjaðist upp í kolli mínum sagan af Bjössa. Bjössi var vinur minn á unglingsárunum, gekk með þykk gleraugu og var fádæma utan við sig. Eitt sinn var hann með vinum sínum í bænum, eitthvað mikið að spjalla og gekk harkalega á staur. Bjössi fann til, horfði sárreiður á félagana og hvæsti: Af hverju sögðuð þið mér ekki að hann væri þarna? Getið ímyndað ykkur næstu árin hjá Bjössa greyinu. Bjössi, staur. Bjössi, annar staur. Bjössi, passaðu þig - staur!

Hljóp á nýju skónum í Laugardalnum áðan. Nýklippt, með sólgleraugu, æpodd og þokkafullan stíl. Ávallt svöl.

Engin ummæli: