þriðjudagur, júlí 10, 2007

Draumfarir, jarðarfarir

Um daginn dreymdi mig galdur - í draumnum fékk ég þykkt umslag í hendur og upp úr því tíndi ég nokkra hluti; rispuð og kámug sjóngler (til að varna mér sýn), ljósmynd af hönd þar sem búið var að strika með tússlit svarta línu frá úlnlið upp með handarjaðri og þumli (til að binda hendur mínar). Svo var þarna einhver hlutur sendur til að lama fætur mína. Allt hindranir. Ég hugsaði í draumnum að einhver sem bæri til mín kala væri að magna á mig galdur og að ég yrði að tala við Evu, því hún vissi ábyggilega hvað ég ætti til bragðs að taka. Ósköp hvað draumar geta verið sterkir...og skrítnir.

Var í jarðarför föðurbróður míns í dag, en hann var úrsmiður. Presturinn lagði út frá því í ræðunni og hóf hana á orðunum "tikk takk". Hvarflaði að mér á þeirri stundu að fyrir hvert tikk tilverunnar ættum við að segja takk. Lífið er fallegt og með árunum hef ég misst trúna á annað líf. Við eigum þetta líf, tikk. Lifum því, takk.

Engin ummæli: