sunnudagur, ágúst 21, 2011

Hreinn Sveinn

Ekki er tekið út með sitjandi sældinni að vera ísbjörn á Íslandi. Það veit hann vinur minn Sveinn Pálsson dyravörður.

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Dellur, veður og nærbuxur

Dagarnir hafa verið undarlegir. Tíminn er undarlegur. Undarlegur hlýtur að þýða eins og sár, já, best gæti ég trúað því.

Partnerinn er í miklu dugnaðarkasti þessa (undarlegu) daga. Því duglegri sem hann er, því ræfilslegri verð ég. Sennilega einhver sálhagrænn ballans að verki, debet og kredit. Debbí og Kreddi, skæslegt par.

Hann fékk upphringingu í dag. Ringring. Djúp karlmannsrödd spurði: "Heyrðu, héddna, hvar fékkstu nærbuxurnar, þessar fansípants sem þú varst í í göngunni í sumar?" Greinilega ekki laust við að þær hafi vakið athygli, grænmynstruðu hlaupabrækurnar sem ég gaf honum í afmælisgjöf. Og ekkert nema gott um það að segja. Annað merkilegt sem skeði fyrir hann í dag (hahahahahahhahaha!) var að bandarískir túristar kölluðu hann engil, af því hann var svo liðlegur við þá, bláókunnugt og villuráfandi fólkið.

Ég held að allur þessi dugnaður stafi af væntanlegri veiðiferð. Meira hvað veiðiástríðan hlýtur að vera skemmtileg. Það þarf að hnýta flugur, plana matseðil, æfa köst, kaupa veiðidót, taka til gamla dótið, raða í box og töskur, tala um veiðistaði, hlakka til.

Aldrei hefur mér tekist að koma mér upp almennilegri dellu fyrir nokkrum sköpuðum hrærandi hlut og því öfunda ég hann. Eða samgleðst honum, vitaskuld.

Auk þess mótmæli ég, og undir það taka sólblómin mín úti á svölum, haustinu sem ryðst óboðið inn um miðjan ágúst.

föstudagur, ágúst 05, 2011

*Knúz*

Fyrir nokkrum árum nefndi ég hann riddara rafgötunnar, þennan mann sem bjargaði ókunnugri miðaldra dömu í tæknilegum bloggvandræðum. Óumbeðinn rétti hann mér hjálparhönd, þá og svo oft síðar.

Í riti gat hann verið óttalegur strigakjaftur, þar sem hann barðist gegn kynjamisrétti, heimsku og ofbeldi. Í reynd var hann ljúfmenni með óborganlegan húmor og ríka réttlætiskennd.

Það er ekkert rafrænt við sorgina og söknuðinn sem ég ber.

Far vel, vinur.

fimmtudagur, ágúst 04, 2011

Andlegt góðgæti

Engin orð í orðabókinni komast nálægt því að lýsa ferðinni sem farin var í sumar með Ferðafélagi Íslands. Hinn óeiginlegi Laugavegur var... eiginlega óviðjafnanlegur og sannarlega margra blaðra virði.

Myndina tók ég á Uppgönguhrygg og af einhverjum ástæðum minnir hún mig á ljóð eftir Þórarin Eldjárn. Það er svona (vona að rétt sé farið með og mér fyrirgefist að birta það hér):

Maður og maur

Að tvisvar sinnum tveir séu fjórir
er talið nokkuð vel sannað.
Að maurar séu litlir en menn stórir
er margsinnis vottað og kannað.

Þó sumir menn séu lengri en ljósastaur
er ljóst eins og þið getið alveg séð
hve auðveldlega maður verður maur
munurinn er bara þetta Ð.