laugardagur, apríl 30, 2011

Mjallarvor

Reykjavík, Teigahverfi. Þrítugasti apríl tvöþúsundogellefu.

Ég held bara áfram að bíða eftir snjóléttu vori.

laugardagur, apríl 23, 2011

Lóur í túni og súkkulaði í fríi

Ef ég á að mæla með einu hóteli hér á landi, þá er það Hótel Glymur í Hvalfirði. Ekki að ég hafi prófað að vera á mörgum hótelum innanlands, en samt. Algjört sóma hótel, þótt ósómi sé ekki útilokaður þar með lögum, nema reykingar á herbergjunum (sómalög, ef einhver spyr mig). Maturinn var framúrskarandi, ekki síst morgunverðurinn.
Á leiðinni í Hvalfjörðinn komum við við í Mosfellsbakaríi, til að eiga eitthvað að narta í, ef hótelið skyldi ekki fæða okkur nægilega vel (vissum ekki þá að við værum að stinga okkur lóðbeint oní gnægtahorn). Hver vill þjást af hungri í orlofi?
Keyptum tvo kaffibolla í farmálum, tvær súkkulaðibitakökur og svo bætti ég við 100 g súkkulaðiplötu, til að tryggja að hungurvofan héldi sig í hæfilegri fjarlægð. Mér féll allur ketill í eld þegar ég uppgötvaði hvað súkkulaðiplatan kostaði, enda læstum við hana inni í öryggishólfi hótelsins þegar áfangastað var náð og fórum með hana óétna aftur heim.

Hugsa að við geymum hana til ársins 3007.

mánudagur, apríl 18, 2011

Grænlífið

Grænt er uppáhalds liturinn minn og gróður uppáhalds lífsformið (mögulega ein-tvær manneskjur sem ég held meira upp á en gras).
Hafði mikið yndi af stóra garðinum þar sem ég bjó í fyrra lífi, en nú læt ég inniræktun og litlu svalirnar mínar duga. Mesta furða hvað maður kemur miklu fyrir í gluggum. Unglingarnir á heimilinu eru ekkert hoppandi glaðir, en verða að sætta sig við að gluggar sem snúa í austur og norður eru kjörnir fyrir nýgræðing (jafnvel þótt þeim finnist bjórdósir heppilegra gluggaskraut).
Fór reyndar þvílíkum hamförum í sáningu að ég eiginlega veit ekkert hvað er hvar. Spennandi mál. Einn af fáum bökkum sem ég merkti var rósmarín og þar spíraði eitt fræ. Eitt! Ekki góðar heimtur af fjalli það. En já, til eru fræ* sem aldrei verða blóm.

*keypt í Blómavali

laugardagur, apríl 16, 2011

Skopskyn í orlofi

Jæja. Kallbeyglan sem ég bý með á afmæli í dag og var ég búin að undirbúa allskonar sniðugheit handa honum. M.a. bauð ég í sprenghlægilegan veiðimanna-brandarabol á Ebay fyrir u.þ.b. mánuði og var hann sleginn mér sem hæstbjóðanda.

Í fyrradag skilaði þetta sér loksins í hús, ég laumaðist spennt með pakkann inn í herbergi til að skoða. Það næsta sem ég gerði var að skrifa reiðilegt bréf til seljandans.

Í pakkanum var bolurinn á myndinni.