sunnudagur, ágúst 26, 2012

Misskilið múslí


Átti von á góðum gestum og ákvað að nota ferðina og nýta fyrningar af gamalli sólberjasultu. Þá bakar maður hjónabandssælu. Fann ekki uppskriftina hennar mömmu og tók séns á að nota handskrifaða uppskrift frá konu sem ég þekkti einu sinni. Hún skildi skömmu eftir að ég fékk uppskriftina í hendur, og einhvern veginn langaði mig aldrei að láta reyna á hjónabandssæluna hennar. Ekki fyrr en í gær, í huguðu letikasti.

Ég skellti innihaldsefnum kökunnar í gömlu hrærivélina mína, en þau vildu  ekki loða saman, þau vildu skilja. Gat skeð. Þegar hjónabandssælan kom síðan úr ofninum var hún eins og malarkambur með einu mjúku jarðlagi. Hún náði næstum að vera þolanlegt bakkelsi ef maður jós á hana haug af vanilluís. Gestirnir voru kurteisir.

Í morgun skildi ég óhamingju og innra eðli kökunnar þegar ég borðaði hana út á súrmjólk.  Það verður hver að fá að njóta sín eins og hann er gjörður. Þessi hjónabandssæla var múslí. Fyrirtaks múslí.

laugardagur, mars 24, 2012

Rokbaul




Lögðum land undir fót og heimsóttum Akranes, sérstaklega til að skoða nytjamarkaðinn Búkollu. Þar var lítið að hafa í þetta skipti. Keyptum þá bara svaka fínt kaffi í Kaupfélaginu og dýrindis kruðerí í bakaríi sem ég man ekki hvað heitir. Síðan lá leiðin í Hvalfjörðinn, við ætluðum að ganga að Glym. Af því að veðurstofan hafði spáð svo góðu veðri.

"Góða veðrið" endurskilgreindi fyrir mér orðið rokrassgat og nú trúi ég sögunni sem Hjálmar sagði mér af gangnamanninum við Botnsá sem þurfti að skíta sama kúknum þrisvar sinnum.

Upp komumst við af því að við erum þrjósk. Og biluð. Þetta rok var bara kjánalegt.

Spurning hvort maður eigi að grýta eggjum í Veðurstofuna? Nei, djók.

þriðjudagur, febrúar 28, 2012

Febrúarblóm

Það fer að verða hálfgerður "þetta tveggjamánaðarlega" bragur á þessari bloggnefnu hér sem eitt sinn var sprellfjörug en er nú farin að finna fyrir aldrinum, enda orðin 7 ára. Ég er miklu duglegri að blogga um gamalt dót, en það sem gerist á öðrum vígstöðvum í lífi mínu. Hleypi fólki ekki lengur að mér á netinu, enda fullt af illa innrættu liði á sveimi.*

Ætla samt að greina frá því að líf mitt breyttist í síðasta mánuði. Hann pabbi minn dó, eftir harkaleg veikindi. Það var allt saman miklu erfiðari lífsreynsla en mig óraði fyrir, enda veit enginn hvað það er að missa nákominn, nema sá sem reynt hefur á eigin skinni. Rétt eins og þeir sem aldrei hafa eignast barn þekkja ekki tilfinningarnar sem fylgja þeim stóra harða og mjúka pakka. Keppir fátt við líf og dauða.

Blómin á myndinni eru tengdamamma (sem ég fékk hjá Maríu), nílarsef (græðling gaf mér Hildigunnur) og lárperujurt sem ég kom sjálf til úr steini. Mér þykir vænt um blóm og er einmitt að fara að sá fyrir einhverju skemmtilegu sem ég get dedúað við.

Síðan er það títt að samkvæmt almanaki kemur bráðum vor.

*Bara smá grín, nema þú sért með skítlegt eðli, þá er þetta ekki grín heldur þung ádrepa, og boð á steintöflu netsins um að snúa lífi þínu til betri vegar.

þriðjudagur, desember 13, 2011

Desemberblóm

Með auknum þroska hef ég öðlast ákveðnari smekk. Veit betur hvað mér líkar og hvað ekki. Stórar ilmsterkar liljur þykja mér t.d. leiðinlegar, satt best að segja þoli ég þær ekki. Smágerðar hýasintur þykja mér hins vegar fallegar og ilmurinn góður. Samt eru hýasintur liljur, eða heita alltjént goðaliljur á íslensku. En liljur eru auðvitað allskonar, og nef líka.
Hvað sem því líður er aðventan ekki sem verst og ég hlakka óstjórnlega til að hafa börnin mín þrjú hjá mér um jólin.

Góðar stundir.

sunnudagur, október 09, 2011

Októberblómstur



Ræktun sumarsins gekk misvel. Rúkóla nenni ég ekki að rækta aftur, hef oft heyrt fólk segja að þetta vaxi eins og arfi en í sumar gerði ég þriðju (og síðustu) tilraun til rúkólaræktunar. Bæði sáði og keypti plöntur. Allt óx jafnilla, blómstraði bara og fékk svo lús. Fuss!

Það sem ég var einna ánægðust með var fræpakki keyptur í Tiger. Í honum var dularfull fræblanda og hefur eitthvað verið blómstrandi á svölunum hjá mér í allt sumar. Lit- og fjölskrúðug blanda allskonar blóma. Dásamlegt. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af þessum dönsku sumarblómum. Ég tók þær í dag, 9.október takk fyrir!


Auk þess minni ég á besta flóamarkað landsins, missið ekki af honum.

föstudagur, september 23, 2011

Fæðuöryggi í Austurbænum

Í vor keypti ég litla tómatplöntu. Í sumar umpottaði ég hana samviskusamlega og vökvaði á hverjum degi. Plantan launaði atlætið með því að vaxa og vaxa, hún varð einn og hálfur metri á hæð og breiddi út fagurgrænu blöðin sín (og vondu lyktina).

Uppskeru erfiðisins má sjá á myndinni. Dvergurinn er ekki enn farinn að roðna, enda kann hann ekki að skammast sín.



fimmtudagur, september 22, 2011

Eigulegt

Mikið er hún Nigella með fagurlega dreifðan þunga, vildi óska að mín kíló röðuðu sér af slíkri smekkvísi um lendur líkamans. Yfirleitt finnst mér ekki sérlega gaman að horfa á fólk eldra en þriggja ára háma í sig mat, en hún borðar svo fallega hún Nigella. Kannski af því að það er verið að taka myndir af henni fyrir sjónvarpið.

Matarást á ég sameiginlega með Nigellu. Sem betur fer finnst mér ekki bara gaman að borða, heldur líka elda. Og ég get skoðað eldhúsdót tímunum saman, svona græjur sem ég vissi ekki að mig vantaði. Þá sjaldan ég á erindi til Stóra Bretlands sleppi ég ekki ferð í Lakeland. Dásamleg búð.

Annað brennandi áhugamál mitt er gamalt dót, ekki síst gamalt og gott eldhúsdót. Hef alltaf verið hrifin af gömlum munum og þar sem svo margt drasl er framleitt í heiminum í dag getur marg borgað sig að kaupa notað. Móðir jörð brosir líka hringinn þegar við kaupum notað dót, frekar en nýtt. Endurvinnsla er góð.

Við Þórdís gramsvinkona og sálarsystir höfum sett upp flóamarkað á netinu, fyrir áhugasama um fortíðargripi. Endilega skoðið síðuna. Þið sjáið ekki eftir því.