föstudagur, maí 13, 2011

Í hverju ertu?

Sambýlingur minn vinnur hjá stóru tæknifyrirtæki. Í dag var ýmislegt á döfinni hjá starfsfólkinu, t.d. námskeið, tiltekt og eitthvert strandþema eftir vinnu. Partnerinn var búinn að grafa upp stuttbuxur og bol sem engin orð fá lýst, en lita- og mynsturfyllerí kemur við skræpótta sögu og veldur hastarlegum skyntruflunum. Bolurinn er þar að auki níðþröngur og nær bara niður á miðja bumbu á kallinum, sem er afar klæðilegt. Þegar ég kvaddi hann í morgun var hann á leið til vinnu á hjóli, í sínum hefðbundna klæðnaði en með strandfatnað litblindra í bakpokanum.

Jæja. Í vinnunni varð mér hugsað til unnustans sem var grænn á MSN og lék forvitni á að vita hvort hann væri kominn í magabolinn ógurlega.

ping

í hverju ertu?

Sagði ég voða fyndin (var líka að hugsa um þetta drephlægilega atriði). Aldrei þessu vant fékk ég ekkert svar, en ojæja, vinnandi fólk og allt það.

Klukkutíma seinna kom sms í símann minn: Er á námskeiði. Verið að nota vélina mína við kennslu. "Í hverju ertu" kom upp á stórt tjald.

Að miðaldra fólk skuli þurfa að lenda í svona...

mánudagur, maí 09, 2011

Vær

Nýlega varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi á fjölmennum fundi að sitja skáhallt fyrir aftan mann sem metur tannheilsu sína mikils. Hann hamaðist með svona litlum bursta á tönnunum og óttaðist ég á tímabili að hann myndi gurgla og skyrpa í eyrað á konu sem sat fyrir framan hann.

Eftir tannhreinsunina byrjaði maðurinn að bora vandvirknislega í nefið og sá ég hann skófla úr hægri nös u.þ.b. 120 g af úrvals hori.

Fínn fundur.

Auk þess komst ég að því að það verður aldrei neitt úr mér því mig skortir metnað, mig dreymir aldrei um að vera best í heimi, mig skortir keppnisskap, af því ég er ekki nógu frek, af því ég er löt, af því ég skipulegg sjaldan heimsyfirráð, af því ég set mér ekki markmið, af því ég held ekki með liði.

Metnaðarleysið á sínar björtu hliðar. Ég dunda mér við baunarækt og les um gamalt dót og læt annað fólk ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Ekki einu sinni þótt það bori í nefið.