Það fer að verða hálfgerður "þetta tveggjamánaðarlega" bragur á þessari bloggnefnu hér sem eitt sinn var sprellfjörug en er nú farin að finna fyrir aldrinum, enda orðin 7 ára. Ég er miklu duglegri að blogga um gamalt dót, en það sem gerist á öðrum vígstöðvum í lífi mínu. Hleypi fólki ekki lengur að mér á netinu, enda fullt af illa innrættu liði á sveimi.*
Ætla samt að greina frá því að líf mitt breyttist í síðasta mánuði. Hann pabbi minn dó, eftir harkaleg veikindi. Það var allt saman miklu erfiðari lífsreynsla en mig óraði fyrir, enda veit enginn hvað það er að missa nákominn, nema sá sem reynt hefur á eigin skinni. Rétt eins og þeir sem aldrei hafa eignast barn þekkja ekki tilfinningarnar sem fylgja þeim stóra harða og mjúka pakka. Keppir fátt við líf og dauða.
Blómin á myndinni eru tengdamamma (sem ég fékk hjá Maríu), nílarsef (græðling gaf mér Hildigunnur) og lárperujurt sem ég kom sjálf til úr steini. Mér þykir vænt um blóm og er einmitt að fara að sá fyrir einhverju skemmtilegu sem ég get dedúað við.
Síðan er það títt að samkvæmt almanaki kemur bráðum vor.
*Bara smá grín, nema þú sért með skítlegt eðli, þá er þetta ekki grín heldur þung ádrepa, og boð á steintöflu netsins um að snúa lífi þínu til betri vegar.