Hangi heima lasin og raddlaus. Þess vegna datt mér í hug að sýna ykkur skóna mína.
Hansahillur eru ógvuliga vinsælar um þessar mundir, eins og svo margt retró dót. Hansahillur eru úr tekki, danskar að uppruna og hef ég ekki hugmynd um hvaðan nafnið kemur. Frá Hansakaupmönnum? Þeir voru þýskir og engin eftirlæti Dana. Eða e.t.v. var hér á landi afkastamikill heildsali á 6. og 7. áratugnum sem hét Hansi (ég ætla ekki að segja "heildsali á réttri hillu" brandara hér).
Hansahillur voru á öðru hverju heimili í minni barnæsku. Þær þóttu ekkert sérlega merkilegar þá, en þénugar. Núna, þegar allir vildu hansa kveðið hafa, hef ég heyrt ýmsa barma sér yfir að hafa hent hansahillunum sínum á haugana.
Ég hef reyndar aldrei séð almennilega skilgreiningu á hansahillum. Það voru til skrifborð, skápar o.fl. sem passaði við hansahillurnar. Einingar sem áttu samleið. Tekk og koparfestingar.
Á myndinni má sjá hillur sem upplagt væri að geyma bækur í, en það geri ég ekki. Bækurnar eru í billy, skórnir í hansa.
Það er ekki ljótara en það. Sagði afi.