sunnudagur, júní 28, 2009

Afstæði háranna

Nútímamaðurinn er umkringdur sjálfsögðum hlutum. Hugmyndir okkar um fegurð eru í sjálfu sér jafn furðulegar og hjá "frumstæðu" fólki, sá t.d. um daginn fræðsluþátt um þjóðflokk í Afríku þar sem tíðkast að skera neðri vörina frá andliti kvenna og setja leirdisk í gatið. Dyan Cannon (í bíómyndinni á Rúv í gær) var með svo úttútnaðar varir af kollageni, eða hvað það nú heitir, að hún mátti vart mæla, hvað þá sýna svipbrigði með ofstrekktri andlitshúðinni. Sumum gæti þótt það ókostur fyrir leikkonu, en um það má deila í hennar tilfelli.

Mig langar ekki í varir á stærð við Hummer, mig langar ekki í brjóst á stærð við Perluna og mig langar ekki í bótox, dítox eða kickbox. Mér finnst heimurinn fullur af gerviþörfum og bábiljum og langar ekkert að elta dillur og tísku. Eftir því sem ég kemst næst þjást konur í Finnlandi og Þýskalandi ekki eins harkalega af höfnuðum líkamshárum ("unwanted hair"), og í BNA og víðast hvar í Evrópu, þar sem liggja haugar af kroppsloðnu sem enginn vill fóstra. Ég skal játa að mér þykir sjálfsagt að raka á mér leggi og krika (þótt í prinsippinu sé það bjánalegt) og til þess hef ég notað fokdýrar rakvélar og borgað hvítuna úr augunum fyrir eitthvert kvenlegt rakkrem. Eftir að klípan skall á, hefur verð á þessum varningi, sem dýr var fyrir, rokið upp úr öllu valdi. Í sturtunni í morgun uppgötvaði ég að svona rakkrem er algjör óþarfi, það er fullt eins gott að nota venjulega sápu. Hann afi minn rakaði sig alltaf þannig að hann lét fasta sápu freyða með rakbursta, bar hana á sig og skóf svo á sér kjammana. Segið mér, af hverju notar enginn fasta sápu lengur við rakstur? Raksápa í álbrúsa er hroðalega slæm fyrir umhverfið, fyrir utan hvað verðið á þessu drasli er fáránlega hátt. Rakstursbransinn, eins og reyndar allur útlitsiðnaðurinn, er uppfullur af gerviþörfum á uppsprengdu verði.
Spörum gjaldeyri og verum loðin. Eða notum umhverfisvæna og ódýra sápu. Eða gefum kallinum rafmagnsrakvél (ég keypti eina slíka handa mínum um daginn). Sem minnir mig á að dóttir mín sagði mér frá ógnvekjandi rafmagnstæki sem togar hár úr slíðri, eitt og eitt í einu. Sérhannað fyrir konur til að berjast við hárin sem þær hafna. Kvenmenn eru masókistar upp til hópa.

Guð blessi Ísland.

föstudagur, júní 26, 2009

Stórborgarbaunin

Sit á skuggsælum bar og drekk g & t, borða hnetur og bíð eftir að Elstabet og Yngstabet snúi aftur úr Oxfordstræti. Ég er sjerpi ferðarinnar, rogaðist með mýmarga poka upp á hótel. Velti fyrir mér hver kaupir í gegnum dóttur mína og hvað hafi orðið af henni Ástu, þessari búðarfælnu og listhneigðu ungu stúlku.

Hljóta að teljast tíðindi að mér var boðið í BNTM partí fyrsta daginn hér. Það var verið að undirbúa töku ("fashion shoot") fyrir þáttinn í næsta húsi við hótelið, ég var eitthvað að forvitnast og glaðhlakkalegur dyravörður bannaði mér að taka myndir en bauð mér þess í stað í partí sem haldið var um kvöldið.
Verkamannaþéttni er býsna mikil í Lundúnum (þarna voru um hundrað gulir menn á smábletti, hef ekki hugmynd hvað þeir voru að bedríva og ákvað að sleppa því að spyrja, vegna yfirvofandi hættu á að vera boðið í enn eitt partíið).
Drakk kaffi úr bolla sem var stærri en hausinn á mér og mun verra á bragðið.
Afmælisbarnið sjötuga, Elísabet Ásta, og Ásta mín Heiðrún Elísabet í undirgrundinni.

London er hávaðasöm. Umferðin, mannmergðin, mengunin. Fjölbreytileiki mannlífsins yfirþyrmandi. Alveg klárt að ég er meira fyrir fjöll en stórborgir svona heilt yfir.

Já, og mamma mín er sjötug í dag. Hún er yndisleg kona og fyndin og skemmtileg og sjaldan skömmótt. Ég er að spá í að kenna henni tunglgöngusporið á eftir, svona í minningu Michaels Jackson.

Sjerpinn kveður að sinni. Veriði stillt elskurnar.

sunnudagur, júní 21, 2009

"Við"

Kunningjakona mín býr með fjölskyldu sinni í pínulítilli íbúð í "fínni götu" í 101. Þau búa þröngt og hafa úr litlum efnislegum gæðum að moða. Í næsta nágrenni, við sömu götu, stendur reisulegt sprilljón fermetra hús, glæsikerrur í heimkeyrslunni, m.a. silfurlitur reinsróver éppi. Í þessu stóra húsi býr fólk sem kennt hefur verið við útrásina.

Núnú. Umrædd kunningjakona lenti á kurteislegu spjalli við útrásareiginkonuna um daginn, en sú var nýkomin úr langri siglingu um Karabíska hafið, kaffibrún og sælleg, klædd silfurlitum leðurjakka í stíl við éppann. Eitthvað barst talið að ástandi þjóðarbúsins og þá setti útrásarkvendið upp þjáningarsvip og dæsti þunglega, svo glamraði í gútsískartinu: "Æ, já. Vonandi lærum við eitthvað af þessu."

laugardagur, júní 20, 2009

Sætt og súrt

Mikið dæmalaust er nú skemmtilegt að ferðast. Fór með hressum Skýrrurum í sólstöðugöngu á Skessuhornið, það var hrikalega gaman og erfitt líka. Ég ætla að vera góð stúlka og sleppa hástemmdum lýsingum á því hvernig það er að standa á fjallstindi í miðnætursól.
Margt ber til tíðinda á ferðalögum hérlendis. Má nefna að við rákumst á verðmiða einn ágætan í ónefndri vegasjoppu. Miðinn prýddi hanka sem á héngu sælgætispokar af erlendum uppruna, einhvers konar súrt hlaup. Hér er mynd af miðanum:Guð blessi Ísland.

miðvikudagur, júní 17, 2009

Hvalkjöt og kandífloss

Dagurinn í dag hefur verið með miklum ágætum, algerlega laus við skrúðgöngur, rellur, kandífloss og klístruð risasnuð. Það er djúpt á þjóðrembunni í mér þessa dagana, get varla farið í lopasokka eða sagt "mysingur". Hvað þá "tólg".

Fyrir ykkur sem viljið lesa um æsispennandi lífsstíl blanka og ófræga fólksins (sem fær aldrei orður eða verðlaunastyttur), þá get ég ljóstrað upp að ég fór í Bónus (alls staðar opið, af sem áður var), síðan í fjallgöngu á Vífilsfell, því næst þreif ég klósett og þvoði þvott og núna rétt áðan var ég að ljúka við fyrirtaks máltíð. Hrefnukjöt og bakaðar kartöflur. Salat, mynta og graslaukur af svölunum. Rækta nefnilega eitt og annað í svalakössum, en, nei, ekkert kannabis.

Svo var ég að spá í að fara ómáluð út á bensínstöð. Og kannski maður bregði sér í brjóstaminnkun líka.
Grýla sagði mér í óspurðum fréttum að ástandið væri gott. Hún er náttúrlega annáluð bjartsýnismanneskja og á í kvöld stefnumót við feitan útrásarvíking á harmónikkuballi á Ingólfstorgi. Allir þekkja smekk Grýlu á karlmönnum, verði henni að góðu.

Sumar.

sunnudagur, júní 14, 2009

Nývirkið



Í dag bakaði ég hálfgert súrdeigsbrauð, fór í Kolaportið og keypti mér eyrnalokka og hrossaket, þvoði fúla tölvu upp úr ediki, knúsaði afmælisbarn, hjólaði um allan bæ, borðaði bláber og rakst á þetta naut. Gerði ýmislegt fleira líka. Ég er dugleg að lifa.

Mömmutal

Þessa mynd tók ég af Matta mínum rétt áðan. Hann er 18 ára í dag og finnst ósköp leiðinlegt að láta taka myndir af sér. Þar sem blogg er hvort eð er að leggjast niður sem ritform, ætla ég að nota tækifærið og monta mig af þessum ljúfa pilti sem er í skákliði MH, stærðfræðinörd og spilar undurvel á píanó. Hann fékk viðurkenningu hjá Tónskóla Sigursveins við skólaslit fyrir frábæra frammistöðu á miðstigsprófi, en þar rúllaði hann upp einkunninni 9,7. Ég veit að svona mömmugrobb er óþolandi, en mér er eiginlega skítsama. Þið þurfið ekkert að lesa þetta. Börnin mín fylla mig stolti og það rífur úr mér hjartað að einhverjir andskotans drulludelar með græðgina og heimskuna að vopni skuli hafa kippt fótunum undan landinu, skert möguleika barna okkar á að afla sér menntunar og lifa í því sem gjarnan kallast velferðarsamfélag. Á sama tíma fyllir það mig von að umgangast alla daga hæfileikaríkt, bjartsýnt og vel gert ungt fólk eins og hann Matta.

Og annað má Matti eiga. Hann er alltaf góður við mömmu sína.

P.S. Mér finnst rétt að geta þess að ég hef nú uppfrætt þennan unga mann um réttindi við 18 ára aldur; þ.e. leyfi til að kvænast, kjósa, kaupa sér sígarettur og fá sér tattú.

föstudagur, júní 12, 2009

Letibloggarar og laxamentum latrones

Gengum á Móskarðshnjúka í dag eftir vinnu og ég steingleymdi að taka mynd af okkur göngugörpunum á toppnum, eftir frækilegan sigur við voðalegar skriður og flugbeittar líparíthellur. Hins vegar gaf ég gaum að smávinum fögrum, lá í mosa og myndaði foldar skart. Sætukoppar.
Mýrfjóla.

Þjóðarblómið.

Mér var bent á að tenglalistinn minn samanstandi að mestu af fólki sem er hætt að blogga, eða næstum hætt að blogga. Dapurlegt er það hrun. Á ég virkilega að enda ein og tuðandi í raftóminu?

Talandi um eilífðar smáblóm. Þegar við komum heim úr fjallgöngunni hrundi ég oní latastrák, aum og snúin í hnjám og ökklum, en Hjálmar tók (blístrandi af fjöri) til við að þvo þvott og vaska upp. Maðurinn er magnað þrekbúnt. Þegar hann ætlaði að þrífa safapressuna, kom fram áður óþekkt lífsform. Við köllum það útrásarmyglu, laxamentum latrones.
Blessaður gróðurinn er svo duglegur, rétt eins og útrásarvíkingur í góðæri.

fimmtudagur, júní 11, 2009

Ístruflanir

Rúna vinkona mín í sveitinni verður aldrei blönk, því hún á krónuvél sem býr til danskar krónur milli krukkan 10 og 16.

Hin stöðuga löngun mín í ís heldur áfram að valda heilabrotum. Hjálmar sagði mér sögu af mömmu sinni sem fylltist á tímabili ómótstæðilegri löngun í blómkál, borðaði það frá morgni til kvölds. Þá kom í ljós að hana vantaði járn. Ef mann langar í ís daginn út og inn, hvað vantar þá í kroppinn? Hjálmar sagði að mig vantaði "í" og "s".

Og þá heiti ég Elabet.

þriðjudagur, júní 09, 2009

Af ólund og lundahruni

Það er fjallað um undirhöku Britney Spears í fjölmiðlum en enginn skrifar staf um undirhöku Gunnars Birgissonar, sem er þó sýnu stærra umfjöllunarefni að mínu mati.

Get ekki talað um #($$HFF!"/&""!!! Æseif málið, það veldur mér of mikilli geðshræringu og ég sveiflast í afstöðu minni til aðgerða. Skítamál. Íslendingar flýja land unnvörpum og ekki annað hægt en hafa áhyggjur af slíkri óheillaþróun. Hér á að skattpína okkur vesalingana til helvítis, skera niður velferðarkerfið og láta okkur borga skuldir óreiðumanna þar til okkur þrýtur örendið. Eða svo segja svartsýnispésar. Bjartsýnisbósar þegja þunnu hljóði.

Í ofanálag hef ég svo áhyggjur af lundanum, en mér skilst að þrátt fyrir hrun stofnsins ætli Vestmannaeyingar að "fara varlega" í að banna veiðar í ár. Hvað þýðir "að banna varlega"? Sé fyrir mér hjálmklædda menn banka (hljóðlega) uppá hjá þekktum lundaföngurum og hvísla "hei, þú mátt ekki veiða lunda". En geta Vestmannaeyingar kannski veitt kanínur í staðinn fyrir lunda? Það væru búdrýgindi, nóg til og vel hægt að éta þær, að mér skilst.*


*ef einhver viðkvæmur Vestmannaeyingur les þetta, þá bið ég hann að telja upp að tíu áður en hann sendir mér haturspóst
með afskornum lundakynfærum

laugardagur, júní 06, 2009

Hollendingurinn mígandi

Íþróttir eru mér óskiljanlegur heimur en ég veit að þær eru mjög æsandi. Fínt að fólk fái heilbrigða útrás fyrir spennu og óárán í kroppnum. Heyrði af þerapíu sem mundi henta mér betur, en hún felst í að þeyta leirtaui í vegg. Heyrði líka af þerapíu sem mér leist í meðallagi vel á, en þiggjendur þeirrar píu fá naflastreng um sig miðja (úr taui) og síðan er smáklippt af strengnum, eftir því sem sjúklingnum batnar. Þeir sem gagn hafa af þessu, eru helst þeir sem urðu fyrir því við fæðingu að naflastrengurinn var klipptur af ónærgætni, eða jafnvel var skilinn eftir of stuttur stubbur til að sál stubbhafans gæti blómstrað. Eðlilega er slíkt engum hollt og ekki einu sinni allt dítox heimsins getur lagað það sálarkrump sem af því hlýst að fruntalega sé skorið á naflastreng.

(Smellið á myndina ef þið viljið sjá textann. Ég mæli ekkert sérstaklega með því).

föstudagur, júní 05, 2009

Gildi heilbrigðrar hárvaxtarstefnu

Við þurfum ofurhetjur...
sem hugsa út fyrir boxið og greina mun á piparmyntu og heyrnartólum. Ofurhetjur með góð lungu, vænt þel og heilbrigðar tennur. Ofurhetjur sem bjarga góða fólkinu og henda vonda fólkinu í ruslið (endurvinnslu auðvitað, plánetan okkar er í voðalega mikilli hættu). Af hverju er alltaf leiðinleg Enya-óperu-hvalahljóðatónlist í dómsdagsþáttum? Er það virkilega svona sorglegt að heimurinn líði undir lok?

Spyr sú sem veit að hún ekki veit.

fimmtudagur, júní 04, 2009

Nasahrun

Ekki eru öll kurl komin til grafar um afleiðingar klípunnar. Þessi svitalyktareyðir er hættur að fást á Íslandi og ég er að verða búin með síðasta staukinn minn.

Sanex er eina sortin sem ég get notað.

Agalegt.

mánudagur, júní 01, 2009

Fætur í sykurlegi

Fékk rabbarbara hjá henni Rúnu (finnst einhverjum það fyndið?) og honum Ara (já, er það fyndið líka?), en þau búa fyrir austan fjall og reka þar rausnarbú. Bjó til sultu og sauð niður rabbarbarafætur með eplum, engifer og kanil.
Sulta sulta sulta sulta sulta...og rabbarbarafótaeplasíróp.
Steinarnir (hægra megin við krukkuna) eru úr fjörunni á Djúpalónssandi, en mér var boðið í unaðs- og óvissuferð í gær á Snæfellsnesið. Veit ekki hvort ég á nokkuð að segja ykkur frá þeirri ferð...
Skotfærabirgðir af heimalöguðu vanillusírópi út í kaffið, gúmle gúmle það er gott.

Mæli með löngum helgum, mér finnst að það eigi að fjölga þeim. Í atvinnuleysi hlýtur að vera vit í að stytta vinnuvikuna.

Borðum sultu og verum sæt og góð.