Mikið vona ég að síldin jafni sig.Ótalmargt fleira gáfulegt gæti ég sagt, en þessi kona er búin að því öllu og ef hún fer í pólitík þá hef ég eitthvað að kjósa.
Megi árið 2009 færa okkur miklar og góðar breytingar, minna rugl og meira réttlæti.
Mikið vona ég að síldin jafni sig.
Börn eru stórmerkileg og undurgóð fyrirbæri. Bara ef þið skylduð ekki vita það.
319.733 Íslendingar voru svo óheppnir að fá ekki jólakort frá mér í ár. Skil að þeir séu sárir. Ég er sjálf í þessum hópi og finn höfnunina hlaðast upp.
Nei, fyrirsögnin er ekki horstallur (efrivör?). Horst Tappert er dáinn, aðeins 85 ára gamall. Í huga mér ómar Aus der Reihe Derrick - stefið ástsæla, í moll.
Allar myndir sem ég fann af stórmenninu voru litlar. Því setti ég fjórar inn og á einni sést Klein, hliðardúddinn skondni, tilberi Tapperts.
Frá blautu barnsbeini hef ég undrast stórum hvers vegna fólk borgar hvítuna úr augunum fyrir vanlíðan steypta í postulín, einhverjar Bing og Crosby* snobbstyttur af ómálga börnum sem engjast um af sársauka. Verkin um verkinn bera dúlluleg nöfn: tannpína, magapína, höfuðverkur, eyrnaverkur. Já, hver hefur ekki lent í því að hlæja góðlátlega að eyrnaverk barnsins síns?


Eins og mér hefur verið tíðrætt um, eða allavega tvírætt um, er íslenska geitin í bráðri útrýmingarhættu. Því gladdi það mig óskaplega að sjá að fólk megi vera að því að bjarga geitinni, á þessum síðustu og verstu. Geitin á allt gott skilið og geitaostur er vitaskuld hnossgæti.
Öll þessi vandræði sem yfir þjóðina hafa dunið eru of stór fyrir litla hausinn minn. Ætla að hvíla kúpuna með því að hugsa um litlu krúttlegu ergelsin.
Þetta sama skilti var síðan skilið eftir við dyr Stjórnarráðsins (mér fannst það öndvegis fín plassering), en þar fékk það ekki að standa lengi - ég var aðeins of sein að taka mynd, því dyrnar opnuðust og einhver kippti skiltinu inn. Rétt eins og þegar Bónusfáninn var dreginn að húni í síðustu mótmælum, hann fékk ekki að blakta lengi. Vissulega er ljómandi gott að slík árvekni og skilvirk vinnubrögð sjáist hjá stjórnvöldum, en betra væri að þau sæust víðar en í húsvarðadeildinni.
Enginn banani er óhultur fyrir mér þessa dagana, á mig rennur æði sjái ég einn brúnan. Banana. Gríp hann höndum tveim og geri tilraunir. Baka bananabrauð, aldrei eins tvisvar í röð. Trúi því að ég muni á endanum uppgötva hina fullkomnu uppskrift að bananabrauði. Í dag setti ég hnetusmjör í deigið. Fjári gott. Það var í eftirmat. Í aðalrétt voru Ora fiskbollur úr dós (kr. 277).
Fjölmiðlarnir eiga að endurspegla samtímann og þarna bregðast þeir, líka krosstrén. Fer að halda að einu raunverulegu umræðuna sé að finna á netinu, þótt þar séu æði misjafnir flugfiskar á sveimi. Reyndar eru undantekningar á dugleysinu, því Víðsjá er vissulega fínn þáttur og oft beittur. Og svo er þessi fjölmiðill ferskur, lesið hann!„Baun” var fljót að finna fréttapunkt dagsins. Fálæti fjölmiðla hvað varðar þátt hins almenna borgara í mótmælunum.
Hvers vegna taka meira að segja RÚV-arar þátt í að gera lélegar og misvísandi fréttir af fundinum á Austurvelli í dag, sem var STÓRFRÉTT.
Hvar eru t.d. hljóð- og mynd-upptökurnar af því þegar mannfjöldinn blístrar og æpir, æ ofaní æ, og hristir mótmælaspjöld sín til samþykkis orðum Sigurbjargar og Einars Más (dj. er hann góður). Hvar eru bútarnir úr ræðum dagsins og viðtölin við venjulega fólkið sem mætti þarna í hrönnum?
Hvar eru myndskeiðin þar sem panað er almennilega yfir mannfjöldann, til að áhorfendur fái tilfinningu fyrir mætingunni og stemningunni - og hverjir voru þarna. Bara einblínt á unga fólkið og anarkistana, egg og reykspól, að ógleymdum Geir Jóni sem var nú bara í vinnunni... sorrí, en ekki var hann að mótmæla.
