Á Íslandi hefur almenningur fáa kosti í húsnæðismálum, flestir undirgangast það form af eignaupptöku sem kallast verðtryggt lán, þ.e. þeir enda með því að greiða 4-5 falt verð fyrir húsnæði sitt. Ef þeir lifa það. Sem fáir gera. Mér skilst að í upphafi verðtryggingar, sem er séríslenskt fyrirbæri, hafi bæði laun og lán verið verðtryggð, en verðtryggingunni svo kippt af laununum. Það var nógu gott fyrir almúgann.
Nú, á tímum óðaverðbólgu og atvinnuleysis, ætla stjórnvöld að hjálpa okkur. Með því "að fresta verðbótunum", "að greiðslubyrði lækki um 10% 1. desember og allt að 20% eftir eitt ár, miðað við það sem annars hefði orðið". Hvað þýðir þetta á mannamáli? Að við verðum látin borga allt ruglið seinna, það er bara lengt í snörunni? Svo megum við leigja af bönkunum íbúðirnar okkar, þegar við missum þær. Það má vel vera að þetta sé frábær aðgerðapakki, ég er bara skríll.
Sáum í gærkvöld Bond og fannst hún vond. Breskur níðingsháttur hefur aldrei höfðað eins lítið til mín. Enginn fyndinn græjunörd, engin hlýja, enginn húmor, engin Moneypenny og varla nokkur söguþráður. Svo var djöfullinn danskur.
En í dag viðrar vel til mótmæla.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli