laugardagur, júlí 28, 2007

Mannætulúgur

Nú hef ég öðlast djúpan skilning á lífi blaðbera. Sonur minn Hjalti tók upp á því að vilja vinna sér inn pening - hann hefur nefnilega augastað á notaðri tölvu. Blaðburður í afleysingum í nokkrar vikur á að duga til að hann geti eignast gripinn. Og í morgun gekk ég með Hjalta fyrsta blaðburðarrúntinn, til að hjálpa honum að setja sig inn í nýja starfið.

Þetta var lærdómsríkt. Vissuð þið að sumt fólk er með mannætulúgur? Hélt að ein mundi klippa af mér fingur. Gaman að fá Moggann með morgunkaffinu - og fingur af blaðburðarbarni í kaupbæti.

Er annars á leiðinni í bloggfrí fljótlega, vona að það gangi betur en síðast;)

föstudagur, júlí 27, 2007

..setti upp á sér stýri, úti er ævintýri

Var að lesa þessa frétt, getur verið að fólkið deyi bara úr hræðslu?

Minnið mig á að fá mér aldrei kött.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Baun. Alveg þráðbein.

Jæja. Nú er baunin búin að kaupa sér hlaupaskó. Ungur og ákafur sölumaður vildi pranga inn á mig dýrari skóm sem "laga sig að hlaupastílnum", en mér fannst það nú bara varhugavert. Fyrir skóna.

Þótt furðu fáir hafi snuprað mig fyrir sauðsháttinn í tengslum við "litla sumarbústaðamálið", rifjaðist upp í kolli mínum sagan af Bjössa. Bjössi var vinur minn á unglingsárunum, gekk með þykk gleraugu og var fádæma utan við sig. Eitt sinn var hann með vinum sínum í bænum, eitthvað mikið að spjalla og gekk harkalega á staur. Bjössi fann til, horfði sárreiður á félagana og hvæsti: Af hverju sögðuð þið mér ekki að hann væri þarna? Getið ímyndað ykkur næstu árin hjá Bjössa greyinu. Bjössi, staur. Bjössi, annar staur. Bjössi, passaðu þig - staur!

Hljóp á nýju skónum í Laugardalnum áðan. Nýklippt, með sólgleraugu, æpodd og þokkafullan stíl. Ávallt svöl.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Þoka

Í dag er sál mín pikti.* Bæði litprikuð blá og herská.

Djöfull hvað ég sakna daganna þegar ég lá undir sæng og las um Prins Valíant og Aletu, drottningu Þokueyjanna.




*Frá Wikipedia, hin frælsa alfrøðin
Far til:
Piktar vóru fornu innbúgvarnir í
Skotlandi. Teir livdu í Skotlandi og oyggjunum fyri norðan. Í 4. øld eru teir nevndir í rómverskum skriftum. Landið, sum teir búðu í, var nevnt Piktland ella Piktaland.
Nógvar fornar leivdir eru eftir piktar, sum geva nakað av innliti í samfelag teirra. Men lítið av skrift hevur yvirlivað. Vísindin veit ikki eingang hvussu piktar nevndu seg sjálvar.
Navnið piktar kemur av latínska picti, sum er navn ið rómverjar góvu fornu innbúgvunum í Skotlandi, tí at teir vóru litprikaðir (tattoveraðir) um stóran part av kroppum sínum.

sunnudagur, júlí 22, 2007

Á Flúðum rækta menn grænmeti í gúrkutíð


Fór í sumarbústað með strákunum mínum á föstudaginn, við vorum búin að hlakka lengi til þessarar ferðar. Keyptum vikubirgðir af mat í Bónus, komum okkur fyrir í fínum bústað í blíðskaparveðri. Vorum búin að bjóða nokkrum vinum og ættingjum í heimsókn á Flúðir. Sváfum þarna eina nótt eins og englar, fórum í badminton, húlluðum og kósuðum okkur. Yndisleg afslöppun blasti við í heila viku.

Eftir bíltúr á Selfoss á laugardeginum komum við aftur í bústaðinn. Vorum á leið í pottinn þegar bíl var lagt fyrir aftan minn. Ég skipti mér lítt af því, sötraði kaffi úti á palli og var að afklæða mig þegar kona steig út úr bílnum. Í bílnum sá ég glitta í mann og tvö börn.

Konan nálgast mig varfærnislega og segir, ahemm...ég var búin að bóka þennan bústað.
Ha? segi ég.
Jú, við leigðum hann þessa viku, það var allt frágengið, segir konan.
Hvaða vitleysa, ég er hérna með samninginn, sko, hérna stendur þetta skýrt og greinilega........úps!


Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fljótfærni kemur baun í bobba. Hafði sem sagt bókað ranga viku, greitt fyrir hana og sú vika var liðin. Bústaðurinn hafði staðið galauður vikuna áður en baun mætti með strákana sína í fríið langþráða.

Nú var ekki annað að gera en segja "gúlp" og hefjast handa. Með hraði. Við ruddum draslinu oní poka, kassa og töskur, föt og matur í bland. Á meðan stóð fjögra manna fjölskyldan á veröndinni án þess að mæla orð frá vörum. Held að konan hafi vorkennt mér og maðurinn viljað berja mig. Börnin líktust föður sínum.

Minnir að ég hafi tautað eitthvað samhengislaust við konuna meðan á þessu stóð og hlegið kjánalega þess á milli. Á leiðinni heim í bílnum sveipaði okkur hnausþykk vonbrigðaþoka. Matti og Hjalti eiga alla mína samúð fyrir að eiga svona sauð fyrir móður. Maður velur sér víst ekki ættingja.

Á myndunum má sjá brot þess dóts sem rutt var inn í bílinn á mettíma. Takið eftir snyrtilegum frágangi og merkjum um góða rýmisgreind pakkarans.

Nú erum við að borða sumarbústaðamat, fórum í badminton úti í garði í gær og ég húlla til að gleyma.

föstudagur, júlí 20, 2007

Ms. Bean´s holiday


Búin að kaupa húlahring, bolta og badmintonsett. Er á leiðinni í algjörlega nauðsynlegt bloggfrí.

Munið að vera þæg og góð. Það ætla ég að vera.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Hann er til sölu



Nei, ekki Sigurður Flosason, heldur hið kynþokkafulla hljóðfæri sem hann mundar hér af alkunnri snilld. Baun tekur að sér ýmis verk, t.d. að gefa svöngum hljóðfæraleikurum að borða og selja vönduð hljóðfæri. Ber að taka fram að þótt Siggi vinur minn eigi marga saxófóna þá er eigandi þessa tiltekna lúðurs annar.

Alto saxófónninn sem um ræðir er ca. 10 ára gamall, keyptur í Svíþjóð, algerlega ónotaður, í góðum kassa. Þetta er frönsk gæðasmíð, Selmer Super Action Serie II. Topphljóðfæri.

Áhugasamir hafi samband í síma 864 6314, eða sendi mér póst í elisabetar@simnet.is.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Klukk klukk segir baunin

Klukkuð af Dr. Eyju. Þetta vissuð þið ekki um mig (og hafið varla misst svefn af þeim sökum):

1. Bróðir minn byrjaði að kalla mig Betu þegar hann las Dularfullu bækurnar eftir Enid Blyton. Ég kallaði mig Betu baun í fyrsta ljóðinu sem ég man eftir að hafa "ort" (við erum að tala um sjöunda áratuginn hér), en það er svona:
Beta baun
datt í hraun
og missti þar
sín ellilaun


2. Ég hef aldrei smakkað ostrur.

3. Einu sinni skrifaði ég framhaldssögu, eldheita ástarvellu, í fréttablað vinnustaðar míns undir dulnefninu Barbara Kartnögl.

4. Ég get bara gert eitt í einu.

5. Þegar ég var lítil hélt ég að stjörnurnar væru fæturnir á englunum.

6. Akkúrat núna er ég með hælsæri á stærð við Landcruiser - var að reyna að ganga, á óþægilegum pæjuskóm, í augun á manni.

7. Pabbi minn lærði iðngrein sem ekki er lengur til. Hann er skriftvélavirkjameistari.

8. Á unglingsárunum átti ég hávaxinn vin sem alltaf stóð fyrir utan húsið mitt. Hann hét Óskar og var ljósastaur. Hann var með ponkulítið typpi sem ég hengdi gjarnan snúnings-flugelda-dót á á gamlárskvöld.

Klukka Hugskot, Ástu, Hörpu, Syngibjörgu, Jenný frænku og Ingu Hönnu.

Dæmið um dóm rafgötunnar

Að eltast við kjaftasögur og hálfsannleik hefur löngum verið þjóðaríþrótt. Ég ber veika von í brjósti um að þeir sem temja sér dómhörku og hefndarþorsta læri af stóra hundamálinu um litla hundinn. Verum ekki of fljót að beygja okkur niður eftir grjótinu.

Hjá Elíasi ríkir snilldin ein.

Psst! Í nótt var ég á harðahlaupum undan risastórum krókódíl.

mánudagur, júlí 16, 2007

Enn bryddir á baunardraumum

Í nótt dreymdi mig þetta.

Ég var lögð inn á spítala þótt mér fyndist engin ástæða til þess, ég mótmælti, sagðist vera frísk. Í mig var settur þvagleggur og ekkert gerðist drykklanga stund, ég glápti á tvo tóma poka sem leggurinn tengdist. Svo allt í einu streymdi í þá dökkt þvag, þar til þeir voru við það að springa. Þegar átti að taka legginn úr mér gramdist mér mjög hversu margt fólk, sérstaklega gamlir og laslegir karlar, vildu fylgjast með þeirri athöfn.

Ráðið nú þennan draum. Skil ekki af hverju ég er ekki lögst í bloggleti eins og allt alminlegt fólk. Þvílík tjáningarþörf.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Trúarjátning*

Fyrir allnokkru uppgötvaði ég að draumurinn um framhaldslíf væri ekkert annað en það. Draumur og óskhyggja. Nógu slæmt sossum að missa af samastað syninum hjá. En svo rann upp fyrir mér annað ljós. Óþægilegra. Ég er hætt að trúa á "ástina".

Trúi á lostann, geðveikina, þráhyggjuna og hræðsluna við að vera einn. Trúi á gjörningaveður tilfinninganna og breyskleika mannskepnunnar.

Trúi á þrána eftir sálufélaga.

Trúi á löngunina að finna líkama þétt upp við líkama minn, finna sterka karlmannsarma taka utan um mig.

Trúi á vináttuna og gleðina.

Trúi á ástina til barnanna minna, skilyrðislausa og óendanlega.

Trúi á sjálfa mig.


*held þessi játning sé innblásin af ákveðinni nornafærslu, en þetta er bara satt.

Rán í einmunablíðu

Um daginn langaði mig að sjá út um gluggana og pantaði þartilgerðan gluggaþvottamann. Hann kom, vildi fá 10 þús. kall fyrir verkið og gat ég prúttað verðinu niðrí 7000 sem hann samþykkti með því skilyrði að fá "fast gigg" hjá mér, þrisvar á ári. Dúddinn þvoði gluggana og sendi mér svo reikning upp á 8000 kall. Gott og vel. Svo fór ég í sumarfrí og gleymdi að borga reikninginn sem var með eindaga örfáum dögum eftir að ég fékk hann í pósti. Borgaði bölvaðan reikninginn áðan, eindagi var 12.júlí og upphæðin komin upp í 12000 krónur! 4000 kall í vexti fyrir þriggja daga seinkun!

Er mökkfúl yfir þessari ósvinnu. Gæti hugsað mér margt skemmtilegra
að gera við peninginn, t.d. fara í rótarfyllingu, styðja kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins, fá mér hringi í geirvörturnar, hlusta á panflautur eða setja tvö kíló af tyggjói í hárið á mér.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Súlur, sorp, nudd og fleira

Er í sveitinni, nánar til tekið höfuðstað Norðurlands. Varð mér úti um lyklaborð með íslenskum stöfum með því að múta nokkrum háttsettum embættismönnum.

Búin að ganga á bæði Ytri og Syðri Súlur, í yndislegu veðri. Ekkert út á landslagið að setja en verð að segja að mér finnst ótrúlegt að sveitarfélagið hér sé svo blankt að hafa öskuhaugana opna og illa lyktandi - á þessum fallega stað. Skyggir smá á útivistarfílinginn að halda í sér andanum vegna sorpfýlu.

Á annars von á fagmannlegu nuddi og heimabökuðu brauði. Lífið er bærilegt takk:)

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Draumfarir, jarðarfarir

Um daginn dreymdi mig galdur - í draumnum fékk ég þykkt umslag í hendur og upp úr því tíndi ég nokkra hluti; rispuð og kámug sjóngler (til að varna mér sýn), ljósmynd af hönd þar sem búið var að strika með tússlit svarta línu frá úlnlið upp með handarjaðri og þumli (til að binda hendur mínar). Svo var þarna einhver hlutur sendur til að lama fætur mína. Allt hindranir. Ég hugsaði í draumnum að einhver sem bæri til mín kala væri að magna á mig galdur og að ég yrði að tala við Evu, því hún vissi ábyggilega hvað ég ætti til bragðs að taka. Ósköp hvað draumar geta verið sterkir...og skrítnir.

Var í jarðarför föðurbróður míns í dag, en hann var úrsmiður. Presturinn lagði út frá því í ræðunni og hóf hana á orðunum "tikk takk". Hvarflaði að mér á þeirri stundu að fyrir hvert tikk tilverunnar ættum við að segja takk. Lífið er fallegt og með árunum hef ég misst trúna á annað líf. Við eigum þetta líf, tikk. Lifum því, takk.

mánudagur, júlí 09, 2007

Bros


Frábær helgi. Búin að hitta marga góða bloggvini, stanslaus gleði.

Í augnablikinu eru allar rásir uppteknar af sæluvímu yfir lífinu.

Tók mynd af mér á leiðinni á djammið í gærkvöld, sjaldgæf sjón á þessum síðustu og bestu tímum - óbrosandi baun.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Leiðinda leiðindi

Ósætti er voða mikið tekið þessa dagana. Mér finnst bara allir að vera að rífast, út af einhverju fótboltasparki, heimili vandræðamanna sem enginn vill hafa, hundum og köttum.

Eins og mér leiðast leiðindi þá eru þau yfir og allt um kring. En eftir morgundaginn verð ég komin í sumarfrí og um leið leiðindin.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Sterka þögla týpan á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu

Ég var að borða silung. Lítið sem hann gat gert í því.

Svo fór ég allt í einu að hugsa um alla þessa karla í gamla daga sem aldrei sögðu neitt. Áttu konur sem arransjéruðu öllu í kringum þá, úðruðu og bjástruðu liðlangan daginn, hnussuðu og létu dæluna ganga en karlarnir gengu hljóðir, rökuðu sig hljóðir, sötruðu kaffið sitt orðalaust og í mesta lagi andvörpuðu eftir matinn og lögðu sig svo.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Bjartsýn horfir baunin fram á veginn

Helgin var yndisleg. Strákarnir mínir loksins komnir úr löngu ferðalagi, ótrúlega gott að fá pjakkana heim. Og veðrið lygilega dásamlegt. Eða dásamlega lygilegt.

Er nýtekin upp á því að skokka, skilst að það sé stórhættuleg iðja. En mikið svakalega er þetta gaman. Finnst ég svo megnug þegar ég set í hlaupagírinn. Þyrfti samt að fá mér betri skó, einhverja hátækni-sportpúðaskó svo ég verði ekki liðónýt á þessu renneríi.