Klukkuð af Dr. Eyju. Þetta vissuð þið ekki um mig (og hafið varla misst svefn af þeim sökum):
1. Bróðir minn byrjaði að kalla mig Betu þegar hann las Dularfullu bækurnar eftir Enid Blyton. Ég kallaði mig Betu baun í fyrsta ljóðinu sem ég man eftir að hafa "ort" (við erum að tala um sjöunda áratuginn hér), en það er svona:
Beta baun
datt í hraun
og missti þar
sín ellilaun
2. Ég hef aldrei smakkað ostrur.
3. Einu sinni skrifaði ég framhaldssögu, eldheita ástarvellu, í fréttablað vinnustaðar míns undir dulnefninu Barbara Kartnögl.
4. Ég get bara gert eitt í einu.
5. Þegar ég var lítil hélt ég að stjörnurnar væru fæturnir á englunum.
6. Akkúrat núna er ég með hælsæri á stærð við Landcruiser - var að reyna að ganga, á óþægilegum pæjuskóm, í augun á manni.
7. Pabbi minn lærði iðngrein sem ekki er lengur til. Hann er skriftvélavirkjameistari.
8. Á unglingsárunum átti ég hávaxinn vin sem alltaf stóð fyrir utan húsið mitt. Hann hét Óskar og var ljósastaur. Hann var með ponkulítið typpi sem ég hengdi gjarnan snúnings-flugelda-dót á á gamlárskvöld.
Klukka Hugskot, Ástu, Hörpu, Syngibjörgu, Jenný frænku og Ingu Hönnu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli