föstudagur, október 31, 2008

Rassálfar

Af hverjuAfhverjuAfhverjuAfhverjuAfhverju?????

Af hverju er alltaf verið að draga himpigimpið HHG fram í Kastljósið? Er ástandið ekki nógu slæmt fyrir? Hvað hefur hann til málanna að leggja? Er hann klár, sjarmerandi, fyndinn, djúpvitur, frumlegur, fallegur, hlýr, skemmtilegur, orðsnjall? Hefur þjóðin grætt mikið á því að hlusta á hann hingað til? Er virkilega ekki hægt að bjóða þjóðinni eitthvað betra? Hvað t.d. með þá sem ræddu ástandið í eðalþættinum Víðsjá í dag - fást þeir ekki í sjónvarp?

Ég bara spyr.

fimmtudagur, október 30, 2008

Gillemojið

Lærði nýtt orð í dag. Gillemojið. Já, bara allt gillemojið. Svo er dippidúttur ljómyrði sem ég held að Nanna matargúrú hafi bakað í sínu frjóa höfði.

Þegar ég var lítil og þver sagði pabbi: Ekkert þras með Gæja gas! Heima hjá Rúnu vinkonu var viðkvæðið: Ekkert múður með Lalla lúður!

Nú ætla ég að stytta mér stundir:

Ekkert bögg með Skara skrögg
Ekkert þref með Steinu Stef
Ekkert tuð með Gullu Guð
Ekkert diss með Sigga piss
Engan kjaft með Skúla Skaft
Ekkert væl með Bogga bræl
Ekkert píp með Konna kríp
Enga steypu með Hönnu hleypu
Ekkert blogg með Gunna gogg

Ef þið líðið um í tilgangsleysi og óviti eins og ég, megið þið bæta við listann. Vitanlega. En ég legg ekki meira á ykkur í bili.

miðvikudagur, október 29, 2008

Einblínis punktar

  • Mamma gaf mér slátur, það var mjög gott. Borðuðum það með stöppuðum kartöflum, rófum og smjöri. Hjálmari finnst skrítið að ég hafi til skamms tíma borðað vambirnar með bestu lyst. Held að ég sé afbrigðilega ómatvönd (matóvönd?). Borða allt nema ýsu *fuss og fne!*
  • Í gær kveikti ég næstum í húsinu við að steikja kleinur ofan í samstarfsfólk mitt og í morgun gleymdi ég kleinudunkinum heima. Þurfti að keyra 34 km til að bjarga því.
  • Kleinudunkurinn lá á koddanum við hliðina á heilanum mínum og fór vel á með þeim öllum þremur. Dunkurinn hló hátt og sló sér á lær, en koddinn var doldið bældur.
  • Síðdegis hringdi í mig dimmrödduð kona sem sagðist hafa talað við mig í gærkvöld og spurði ég hana forviða hvað ég hefði sagt. Hún sagði að ég hefði lofað að gefa sér eldavél.
  • Hjálmar synti í sjónum í dag. Það finnst mér svalt.
  • Bráðum verðum við Kúba. Bandaríkjamenn eru kúkar við Kúbu og Bretar eru kúkar við okkur. Færeyingar eru góðir og ég mun aldrei styðja viðskiptabann á þá, hvað þá setja þá á hryðjuverkalista. Ég er góð stúlka.

þriðjudagur, október 28, 2008

Oft er í kryppu vitandi fjær

Ég er komin með kryppu af kreppu, óréttlæti, vinnuskiptaálagi, persónulegum áhyggjum, erfiðu fólki, kvíða, reiði og dauðsfalli (í dag dó Mangó, páfagaukur sonar míns og ríkir mikil sorg á heimilinu). Svo er ég komin með upp í kok af óhugnanlegri fjölgun rassvasahagfræðinga, hversdagslegasta fólk í kringum mig opnar varla munninn án þess að út hrjóti hagfræðileg hugtök af bölsýna taginu. Af öllum þeim dellum sem við hefðum getað fallið fyrir sem þjóð. Hagfræði skagfræði skítabragfræði. Mig dreymir um heim án orða eins og hlutabréfamarkaður, vísitölur, atvinnuleysi, verðbólga og stýrivextir. Mig dreymir um að vakna.

Þarf nudd. Þarf slökun. Þarf MÁU. Þarf að einhver segi mér að allt verði í lagi.

sunnudagur, október 26, 2008

Húsmæðraherðing

Nýkomin úr húsmæðraorlofi með fjórum fræknum skólasystrum úr MK (MK var ósköp venjulegur menntaskóli áður en hann lenti í matvælabölinu).

Það bar helst til tíðinda að við lögðum allnokkuð á okkur til að komast í heita pottinn sem vildi ekki heita heiti pottur og var bara kaldi pottur. Við ösluðum yfir snjóbunka og stungumst gargandi oní pottinn með húfur, trefla og vettlinga. Loðfóðruð sundföt hefðu komið sér vel. Í pottinum skulfum við í takt þar til þrjóskan bráði af okkur og við gáfumst upp fyrir nístingsköldu veðri og vanmætti gagnvart tækninni.

Vandamálið var nefnilega að stjórnstöð heita pottsins var eins og stjórnborð vondakallsins í Bond mynd. Þúsund takkar og milljón ljós. Hver finnur eiginlega upp á svona flóknum heitupottum í sumarbústað? Herra Bjáni, segi ég.

Þetta var fjör og vinkonur mínar eru dásamlegar konur sem ég mundi treysta fyrir stjórn landsins, hiklaust. Ef það eru ekki of margir takkar í því dippidútti.

laugardagur, október 25, 2008

Brjótum ekki baksýnisspeglana, það er vont að keyra án þeirra

Mér fannst næstum fróun í því að lesa um Byrgisbófann, þótt það sé nú óþarfi að persónugera misgjörðir og láta Guðmund sæta refsingu. Ríkið (við) berum jú ábyrgð á þessu eftirlitsleysi með vanhæfum manninum.

Mæli annars eindregið með pistlum Einars Más, en finna má glefsur úr þeim á Eyjunni.

Hér er smá sýnishorn:

"Markaðurinn á að vera frjáls, en ekki fólkið. Það er boðorð dagsins. Það þarf meiri peninga fyrir þá sem eiga nóg af þeim. Einhver fékk þrjúhundruð milljónir fyrir að byrja í vinnunni. Kannski ættu bankastjórarnir að semja fyrir láglaunafólkið sem er tíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun þeirra. Þeir gætu fengið árangurstengda þóknun svo eitthvað sé í boði."

"Fólk er að drukkna í hugfræðihugtökum sem allir nota en enginn skilur. Samanber allar fjárfestingarnar. Einn kaupir annan og annar kaupir hinn, og þeir heita jafn fjölskrúðugum nöfnum og jólasveinarnir.

Einhver græðir glás af seðlum og allir eru svaka ríkir á meðan ellilífeyrisþegarnir hnipra sig í kompum, fólk gengur heimilislaust um götur og lægstu laun eru svo lág að enginn trúir að nokkur sé á þeim. Jafnvel jafnaðarmenn yppta öxlum þegar þeir heyra verkalýðinn nefndan á nafn. Hann hafa þeir ekki séð í mörg ár.

Hér eitthvað sem rímar ekki. Eða rétta sagt: Þetta er heilmikil hagfræði. Á meðan er heiminum huggulega deilt upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með vestrænum Bushlimum gegn múslimum sem vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar.

Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en sjálft er stríðið háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig fólkið sem þjáist undan þessu öllu á að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna.

Málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið, sópar göturnar, afgreiðir í búðinni og þjónar til borðs á veitingahúsinu. Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?

Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á fjárfestana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?"

fimmtudagur, október 23, 2008

Lúgur reiðinnar

Á leiðinni heim úr vinnu flaug mér í hug að það væri jafnvel enn leiðinlegra að skilja eftir sig öskureitt blogg og deyja, en að vera í skítugum nærbuxum og lenda í slysi.
Búin að leita mér hjálpar. Þetta er góð bók. Finn í henni lúgur og lítil hólf fyrir ofsann.

p.s. Ég er samt ennþá bálill út í skíthausinn Brown. Skora á alla að skrifa undir á indefence.is

miðvikudagur, október 22, 2008

Smá útrás

Ég er svo bandbrjáluð úr reiði og almennri frústrasjón yfir öllu þessu helvítis kjaftæði um að "við" höfum eytt um efni fram og verðum að gjalda fyrir bruðlið og ...

Þessi sektarkennd sem verið er að koma inn hjá þjóðinni, hún loðir við mann eins og lykt af lauk. Hata það að vera refsað fyrir glæpi annarra. Af hverju er ekki hlustað á fólk eins og þessa konu?

Af hverju gera ráðamenn þjóðarinnar ekkert nema loðmæla og lúffa fyrir Bretabullum?

Svo er ég algjörlega sammála Agli hér, hvað verður gert fyrir "varfærna fólkið", okkur sem horfum á eignir étast upp vegna þeirrar svívirðu sem nefnist verðtrygging húsnæðislána? Okkur sem ekki tókum myntkörfulán fyrir éppa?

Lesið það sem stendur hér og ég ragmana ykkur til að mótmæla. Það er meira púkó að sitja heima og tuða en að fara út á götu og brjálast út í steingeld yfirvöld og glæpamenn sem hafa stolið frá þjóðinni. Það er ekki púkó að mótmæla óréttlæti.

Dauði og djöfull hvað ég er reið!

þriðjudagur, október 21, 2008

Banka menn

Enn deili ég með ykkur hugðarefnum mínum.

Þessi mynd, sem hangir uppi á vegg í eldhúsinu mínu, er af félögum sem ferðuðust um og skemmtu fólki. Höfuðhljómburður bankþegans ku víst hafa verið einstakur. Hann hét Professor Charles Cheer, the man with the xylophone head. Því miður kann ég ekki deili á bankaranum.

Baun alveg brilljant og fix



Nú er verið að redekorera eldhúsið sem felst í því að mála innréttingu frá sjötta áratug síðustu aldar og líma ljómandi fallegan blómapappír í hillur og skúffur.

Ég var nefnilega orðin svo hrædd um að málningarflögurnar sem duttu oní potta og súpuskálar innihéldu blý. Hvað kom aftur fyrir Rómverja? Ha? Urðu þeir ekki minnislausir eða eitthvað svoleiðis?

sunnudagur, október 19, 2008

Pósturinn syngur alltaf tvisvar

Getur einhver frætt mig á því af hverju Pósturinn auglýsir svo ákaft um þessar mundir? Getur einhver frætt mig á því af hverju Pósturinn auglýsir yfir höfuð? Gætu auðvitað legið ný sóknarfæri þarna, endurvakning bréfaskáka, pennavina eða keðjubréfa með sokkaplögg og vískí. Veit sossum ekki rassgat um markaðsmál.

Oft hellist yfir mig sú tilfinning að allir viti eitthvað sem ég ætti að vita en veit ekki.

laugardagur, október 18, 2008

Sól-í-dag-norsk

Mér finnst stórundarlegt þegar menn hafa fyrirgert rétti sínum til að vera í ákveðinni stöðu en hanga samt á henni eins og hundur á roði. Hef reyndar meiri samúð með hundi á roði en þeim sem ekki þekkja sinn vitjunartíma, fara ekki þótt ljóst sé að enginn vilji hafa þá og þeir stórskemmi fyrir öðrum með þrjósku sinni og afneitun á staðreyndum. Speglar eru gagnslaust dót fyrir siðblindingja.

Fórum á mótmælafundinn á Austurvelli í dag. Það var rosalega kalt, en fallegt veður og stillt. Gott að sjá slatta af fólki þarna en skipulag mótmælanna hefði mátt vera betra, þótt ég sé mjög þakklát fyrir að einhver skuli hafa döngun í sér að skipuleggja vettvang fyrir þögla meirihlutann, svo hann geti sýnt hug sinn í verki og samstöðu. Mér finnst að sleppa megi tónlistaratriðum (nema þau séu framúrskarandi inspírerandi), hafa frekar stuttar snarpar tölur, sem stappa stálinu í fólk.

Ég er almennt hrifin af málflutningi Þorvalds Gylfasonar en skíthrædd við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem hann virðist telja góðan kost. Mikið vildi ég heldur að Norðmenn ættleiddu okkur, við fengjum að kúra í fangi þeirra og hringla með norskar krónur. Að Noregur stóribróðir mundi passa litlu frekjudolluna Ísland og leyfa henni að þroskast.

Auk þess langar mig að nefna að Björgvin G. Sigurðsson minnir mig býsna mikið á Steingrím Hermannsson. Veit ekki hvort það er gott eða slæmt.

fimmtudagur, október 16, 2008

Fréttatungubroddsmál hin meiri

Jóhanna Vigdís er farin að ofursveifla errunum sínum. Þegar hún las fréttirnar áðan heyrðist: ".....vegna hins gRRRRRíðaRRlega vanda..." Alveg eins og Bogi.

Held þau ættu að fara sparrrrrlega með öll þessi errrr. Maður verður bara hrrrædur.

miðvikudagur, október 15, 2008

Gerir gagn kynhneigð




Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst gaman að horfa á fallegar konur og últra bjánalega þætti eins og America´s next top model. Þá er það komið út í loftið, fannst rétt að viðra þessa skavanka mína í miðri k****unni, munar ekki um einn kepp í sláturtíðinni.

þriðjudagur, október 14, 2008

Kvusslax

Hér gefur að líta eftirlætisseglana á ísskápnum mínum.

Ég er hætt að tala um ástandið og mun ræða lax, nærbuxur, kertavax, kex og fleiri hluti með exi í á næstunni.

Verið hrex, ekkert strex, blex.

sunnudagur, október 12, 2008

Sjálfrennibaun

Hann er fundinn. Bíll drauma minna.*


*Takk Hal í Hallósku

Heklaður kjóll úr álbaukum

Nú ríður á að nota höfuð og hönd. Hugkvæmni, bjartsýni, framtak og sköpunarkraft. Rakst á þennan ágæta tengil hjá Hörpu, en hún er sannarlega snillingur í höndum og höfði.

Bankabygg

Ég bakaði brauð úr bankabyggi. Setti bankabygg út í rauðrófusúpu um daginn og í gær út í kjötsúpu. Bankabygg er gott. Bankar eru vondir.

Mig langar ekki að vera hrædd.

föstudagur, október 10, 2008

Geirmundur Brún er fauti

Ég hélt langa og tilfinningaþrungna ræðu yfir forviða samstarfsfólki mínu í morgunkaffinu. Finn hve reiðin yfir fádæma ósanngirni Gordon Brown gagnvart Íslendingum blæs mér í brjóst afl til að lifa af enn einn hrundaginn. Mig langar að stilla herra Brún upp við vegg og æpa á hann: Pick on someone your own size, blöðruselurinn þinn!

Las áðan þessa frábæru færslu, get skrifað undir hvert orð hér.
Vildi óska að einhver verði okkur þarna í Bretlandi, það gengur ekki að taka því þegjandi að Íslandi sé kennt um þá kreppu sem gengur yfir heimsbyggðina. Fjandakornið, ef við erum litla þúfan sem velti því hlassi öllu saman, þá erum við sko stórasta litla þúfan í sögu mannkyns.

Auk þess tel ég að augabrúnir Aðalsteins Elskulegs færu prýðilega við efrivör Huggýjar.

fimmtudagur, október 09, 2008

Nigericelandia

Í gær var ég á Skólavörðustígnum og sá unga fallega konu bogra við að koma barni sínu fyrir í bílstól. Á sama tíma staulaðist gömul kona þar hjá, með skuplu yfir hvítu hárinu og í lúinni kápu. Allt í einu laust þeirri hugsun niður í kollinn minn að ég væri heppin að vera ekki ung, vildi miklu heldur vera hundgömul. Ég skammast mín fyrir þennan þankaling, en vonleysið í kringum mann er þrúgandi. Vildi óska að eitthvað væri í fréttum annað en fjármál og hrun og hvað Bretar, Danir, Hollendingar, Finnar og allir séu reiðir út í Íslendinga, og að það verði ekki til matur og allir missi vinnuna og allt fari á hausinn og....

Baggalútur gerir nú um stundir meira fyrir geðheilsu mína en 10 sálfræðingar og 17 spaugstofur. Og smá vonarglæta. Ég fékk þetta, að því er virðist ábatasama bréf, sent í pósti í dag:

Honnorabble reeder!


I hop this letter finds you blessd with good helth.

Pls. let me interoduce me. I am Johannes Asgeir Jo brother of well known icelandic busness man.

Just before my brotha disappear he store 30 mill US$ in local storage facilty Rumfatalager.

I now need your help to free this 30 mill US$ CASH!

I am villing to split with you 60/50 on this deel.

Plrase keep this letter a secret, as there are many that would vant a slæs of this tasty kake.

Reply to my email noriskguaranteed@darkside.is

Your brother in faith

Johannes Asgeir Jo

esq.

miðvikudagur, október 08, 2008

Barnasprengjukynslóðarblús

Verkföll mjólkurfræðinga, biðraðir, vöruskortur, normalbrauð, saxbauti, óðaverðbólga, amrískir kaggar, kalda stríðið, víxlar, þorskastríð, sparimerki, kjarnorkuvá, útvíðar gallabuxur, Dallas, axlapúðar, diskó, permanentkrullur, þjóðarsátt, fótanuddtæki, gróðurhúsaáhrif, Árni Johnsen, útrás, peningakjaftæði, heimskreppa. Svo verður okkur hent í gamalmennasorpkvörn, möluð og borin á tún, þegar við, hrum af elli, getum ekki unnið lengur.

Hversu óheppin getur ein kynslóð verið? Þeir sem lifðu tvær heimsstyrjaldir höfðu þó allavega lekkera tísku og góða tónlist.

þriðjudagur, október 07, 2008

Dansinn í Hruni

"Rússneski sendiherrann hringdi í mig í morgun í jákvæðum stellingum." Út frá þessu stellingaspjalli stórmennanna í morgunsárið spratt tilkynning í pressuna um að Rússar ætluðu að dæla í okkur risaláni. Talað var um "nýja vini" í fjölmiðlum í dag. Davíð malaði í Kastljósinu, tíundaði verk sín, hann hefur átt "í bréfaskriftum við bankastjóra í öðrum löndum" og rætt við þá líka. Hugsa sér hvað hann er duglegur. Hann var líka voða duglegur þegar hann lagði niður Þjóðhagsstofnun.

Rætt var við breskan hagfræðing í fréttatíma Sjónvarps í kvöld, en hann sagði viðbrögð hérlendra stjórnvalda og Seðlabanka einkennast af fáti og fumi og kom með annan vinkil á hvernig við gætum tæklað hluta vandans sem við blasir.

Einu sinni fór ég á dansnámskeið með vinkonu minni. Hún og herrann hennar voru stöðvuð í miðri danssveiflu. "Sjáið öll, svona á ekki að gera", kallaði kennarinn hátt og benti á parið, sem stóð kafrjótt og vandræðalegt undir ákúrum leiðbeinandans.

Nú er Ísland parið sem heimurinn horfir á, hlær að og tekur sem dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina.

mánudagur, október 06, 2008

Betri eru hyggjur en áhyggjur

"Gleðilega kreppu, elsku baunin mín", sagði hann og tók þétt utan um mig. Æðrulaus, þrátt fyrir aðstæður sem myndu reka margan manninn í volandi uppgjöf.

Svo spilaði hann fyrir mig þetta lag og ég fór að hlæja. Við það hristist hnúturinn í maganum og svei mér ef losnaði ekki aðeins um hann.

Ég er heppin.

sunnudagur, október 05, 2008

Múkk

Langt síðan ég hef séð eins góða mynd og ég sá í gærkvöld. Hún er dönsk og heitir Adams æbler. Mæli hiklaust með þessari ræmu ef þið rekist á hana á vídjóleigunni.

Langt síðan ég hef séð eins vonda mynd og ég var að horfa á (með hálfu auga) í kvöld. Hún er íslensk og heitir Stella í framboði. Pínlega slæm bara.

Segi ekki meira. Jú, múkk.

laugardagur, október 04, 2008

Ó, hve létt er þitt skóljóð

Misjafnt er hvernig fólk bregst við horuðum kúm í faraóskum skilningi. Allnokkrir sjá fyrir sér fall siðmenningarinnar við þessar efnahagsþrengingar sem sjálfsagt ganga yfir eins og hver önnur ísöld. Ýmsir fyllast kvíða og vanlíðan. Horfa tárvotum augum út um glugga skuldsetts Range Roversins. Aðrir stinga banana í eyrun og kyrja grípandi auglýsingastef. Einhverjir detta ofan í doktor Phil og plastfólkið. Sumir ætla til Póllands að leita sér að vinnu og senda peninga heim. Ríkisbubbarnir stinga höfðinu í gullsandinn. Blankir verða blankari.

Sjálf hef ég tilhneigingu til að kaupa mér ljóðabækur og skó.

fimmtudagur, október 02, 2008

Glugginn minn. Núna.

Falla lauf. Fellur króna. Fellur snjór. Fellur geð guma og svanna. Fellur mér doktor House betur í geð en stjórnmálamenn sem engan vanda geta leyst.

Fésbókin

THE BORG segja: Resistance is futile. Ég ætla samt að sitja við minn kjánakeip og damla mót straumi. Enda ræð ég ekki við að eiga 500 vini.