Ég er komin með kryppu af kreppu, óréttlæti, vinnuskiptaálagi, persónulegum áhyggjum, erfiðu fólki, kvíða, reiði og dauðsfalli (í dag dó Mangó, páfagaukur sonar míns og ríkir mikil sorg á heimilinu). Svo er ég komin með upp í kok af óhugnanlegri fjölgun rassvasahagfræðinga, hversdagslegasta fólk í kringum mig opnar varla munninn án þess að út hrjóti hagfræðileg hugtök af bölsýna taginu. Af öllum þeim dellum sem við hefðum getað fallið fyrir sem þjóð. Hagfræði skagfræði skítabragfræði. Mig dreymir um heim án orða eins og hlutabréfamarkaður, vísitölur, atvinnuleysi, verðbólga og stýrivextir. Mig dreymir um að vakna.
Þarf nudd. Þarf slökun. Þarf MÁU. Þarf að einhver segi mér að allt verði í lagi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli