Mér fannst næstum fróun í því að lesa um Byrgisbófann, þótt það sé nú óþarfi að persónugera misgjörðir og láta Guðmund sæta refsingu. Ríkið (við) berum jú ábyrgð á þessu eftirlitsleysi með vanhæfum manninum.
Mæli annars eindregið með pistlum Einars Más, en finna má glefsur úr þeim á Eyjunni.
Hér er smá sýnishorn:
"Markaðurinn á að vera frjáls, en ekki fólkið. Það er boðorð dagsins. Það þarf meiri peninga fyrir þá sem eiga nóg af þeim. Einhver fékk þrjúhundruð milljónir fyrir að byrja í vinnunni. Kannski ættu bankastjórarnir að semja fyrir láglaunafólkið sem er tíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun þeirra. Þeir gætu fengið árangurstengda þóknun svo eitthvað sé í boði."
"Fólk er að drukkna í hugfræðihugtökum sem allir nota en enginn skilur. Samanber allar fjárfestingarnar. Einn kaupir annan og annar kaupir hinn, og þeir heita jafn fjölskrúðugum nöfnum og jólasveinarnir.
Einhver græðir glás af seðlum og allir eru svaka ríkir á meðan ellilífeyrisþegarnir hnipra sig í kompum, fólk gengur heimilislaust um götur og lægstu laun eru svo lág að enginn trúir að nokkur sé á þeim. Jafnvel jafnaðarmenn yppta öxlum þegar þeir heyra verkalýðinn nefndan á nafn. Hann hafa þeir ekki séð í mörg ár.
Hér eitthvað sem rímar ekki. Eða rétta sagt: Þetta er heilmikil hagfræði. Á meðan er heiminum huggulega deilt upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með vestrænum Bushlimum gegn múslimum sem vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar.
Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en sjálft er stríðið háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig fólkið sem þjáist undan þessu öllu á að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna.
Málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið, sópar göturnar, afgreiðir í búðinni og þjónar til borðs á veitingahúsinu. Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?
Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á fjárfestana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli