miðvikudagur, janúar 30, 2008

Til hamingju

Ég á afmæli í dag, já, ég á afmæli í dag og mér var boðið út að borða í kvöld. Í Kaupmannahöfn.

Í þetta skipti sleppið þið við nöldur um hvað sé glatað að eiga afmæli þegar iðulega er skítaveður undir himinháum jólavisareikningi.

Chai er gott. Þið eruð góð.

mánudagur, janúar 28, 2008

Frelsið er yndislegt

Mótmælin í Ráðhúsinu voru "skrílslæti". Spaugstofan mátti ekki gera "ósmekklegt" grín að hraksmánarlegri yfirtöku í borgarstjórn.

Einmitt. Hvernig væri að gefa út vandaða handbók um hvað "má í spaugi" og hvernig eigi að mótmæla þannig að það raski ekki fegurðarsmekk hins almenna borgara.

Grín og mótmæli. Held að sumir nái bara ekki pointinu.

sunnudagur, janúar 27, 2008

Blogghverft

Var að klippa táneglurnar í morgun og missti klippurnar ofan í klósettið. Hefði tekið mynd og sýnt ykkur ef klósettið hefði verið nýþrifið.

Þoli ekki þegar fólk er neikvætt og segir að blogg sé sjálfhverft. Pfft! Örugglega bara öfund.

föstudagur, janúar 25, 2008

Bobbingar, tennur og verkfæri

Í morgun barðist ég gegnum kafaldsbyl og þæfing til að láta konu með kaldar hendur grípa um ber brjóstin á mér og fletja þau út á milli tveggja glerplatna, þar til þau voru á þykkt við afmæliskort. Notaði ferðina og lagðist upp á harðan bekk og hagræddi persónu minni þannig að prívatpartarnir væru við nefið á vinalegum lækni. Komst á þessu stigi í snertingu við annað nef úr stáli sem hefur það hlutverk að þvinga upp líkamsop.

Fór svo beint í Kópavoginn að heimsækja tannlækninn minn vegna tannverks. Tannpína er leiðindapína.

Sjaldan hefur jafnmörgum verkfærum úr gæðastáli verið potað í op baunar á einum degi. O, jæja.

Spái stundum í hvernig það sé að vera með brjóst á stærð við Plútó og Tríton. Hlýtur að vera erfitt að halda jafnvægi með svona bobbinga. Getur hún sippað? Ef hún sest við borð, leggur hún þá júllurnar hvora sínum megin við kaffibollann? Kafnar hún ef hún reynir að standa á höndum?

Úff. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Þótt þú sért fyndin, geturðu ekki verið það ævinlega, enda verður það þreytandi til lengdar

Oft hef ég viðrað ímugust minn á sjálfshjálparritum. Ein undantekning er á þessari óbeit minni, því gamlar betrunarbækur þykja mér fyrirtaks skemmtan. Í fórum mínum er bókin Listin að vinna hylli karlmanna eftir W.S. Keating (Söguútgáfan Suðri, Reykjavík 1950). Mig langar að deila með ykkur nokkrum viskukornum úr ritinu og vona að það nýtist þeim einstæðu konum sem hugsanlega gætu verið að lesa þessi orð. Sjálf er ég einstæð kona og ætla því að lesa af athygli.
Úr kaflanum Samræður.
Ef þú ert vel gefin, er aðdráttarafl þitt ekki fólgið í útlitinu einu. Það er sízt þýðingarminna hvað þú segir og hvernig þú segir það.

Við skulum fyrst athuga málfarsgallana. Óreglulega settar tennur geta orsakað smámælgi, en hún getur líka verið letilegum framburði að kenna. Ef þú ert smámælt eða verulega blest í máli, ættirðu tafarlaust að tala við færan tannlækni.

Úr kaflanum Minnimáttarkennd.
Öll höfum við okkar galla; enginn er fullkomlega ánægður með sjálfan sig nema hálfvitinn.

Meðalstúlkan er frjálsmannleg í framkomu, stundar starf sitt af skyldurækni, giftir sig, og í þessum straumi lífsins gleymir hún sjálfri sér og því, sem henni kann að vera á vant í samjöfnuði við aðra.

Ef tennur þínar eru skemmdar, skaltu láta gera við þær, eða fá þér að öðrum kosti gerfitennur. Ein glæsilegasta leikkonan í Hollywood hefur gerfitennur í báðum gómum.

Ertu kannske feimin við karlmenn? Til þess er engin ástæða. Á hverju ári giftast stúlkur svo milljónum skiptir, og því skyldir þú ekki geta orðið ein þeirra?

Úr kaflanum Fegurð.
Fallegast er, að andlitið sé egglaga.

Hárgreiðslan hefur mikil áhrif á andlitssvipinn, og sé vel til hennar vandað, getur hún breytt andlitsfalli og hulið sviplýti. Hér á eftir verður drepið á nokkrar andlitsgerðir og hárgreiðslu þá, sem hverri um sig hentar bezt:
  • Egglaga andlit: Bezt að hárgreiðslan sé einföld. Annars má nota hvaða hárgreiðslu sem er, ef hún spillir ekki andlitssvipnum.
  • Langt og mjótt andlit: Skipt í miðju (nema nefið sé ljótt). Lokkar eða brúskar fram á ennið. Eyrun sjáist (ef svipurinn er fríður). Sítt hár, sem hylur eyru og háls. Skipt neðarlega í öðrum vanga. Litlir, hringlaga lokkar (ef svipurinn er fíngerður).
  • Breitt eða kringlótt andlit: Sítt hár, liðað upp frá hálsinum, svo að eyrnasneplarnir sjáist. Skipt hátt í öðrum vanga. Hárið greiðist upp frá andlitinu (pompadour) (ef svipurinn er fríður). Hárið falli í lausum bylgjum.
  • Með gleraugum: Hyljið eyrun.
  • Með stóru nefi: Hátt, uppsett hár. Haríð vefjist upp í hnakkanum.
  • Langur háls: Hárið hylji hálsinn.
  • Stuttur háls: Hárið sé stutt, svo að hálsinn komi í ljós.
Úr kaflanum Ástarhót.
Að því kemur, fyrr eða síðar, að þú verður að láta ást þína í ljósi, ef þú vilt ekki missa af þeim, sem þú hefur valið þér.

Gerðu honum til geðs. Ef hann stingur upp á einhverju, skaltu lýsa þig því samþykka. Ef honum finnst rauður kjóll fara þér betur en svartur, skaltu vera í rauða kjólnum, og láta hann verða þess varan, að þú gerir það fyrir hann. Komdu þeirri trú inn hjá honum, að það sé hann, sem ráði.
Gettu þér til um óskir hans og uppfylltu þær. Ef hann borðar á matsöluhúsi, skaltu bjóða honum í mat. Láttu þér umhugað um, að honum líði vel. Ekki er nauðsynlegt, að þú gangir svo langt að rétta honum inniskóna hans óumbeðið, en gerðu samt eitthvað í þá átt fyrir hann. Stilltu útvarpstækið á þá stöð, sem honum þykir mest gaman að hlusta á, og leggðu púða við bakið á honum í stólnum.
Segið svo að ég geri aldrei neitt fyrir ykkur.

mánudagur, janúar 21, 2008

Viðeigandi klæðnaður

Ef ég væri stjórnmálamaður í fatakaupum mundi ég gæta þess vandlega að hafa plötu í bakstykkinu, eins og er í mótorhjólajökkum. Rífandi sala í hnífasettum hjá Brynju á Laugavegi.

Minnir mig á málsgrein sem ég las í handbókinni Leiðin til að vinna hylli karlmanna (gefin út á sjötta áratugnum):

Ef þér hafið ljótt nef má bægja athyglinni frá því með viðeigandi snyrtingu og hatti.

sunnudagur, janúar 20, 2008

Tyrkjamolar

Börnin mín eru miklir nammigrísir en það hef ég aldrei verið, ef frá er talið dökkt súkkulaði sem ég lít ekki á sem sætindi, heldur mannréttindi. Þau borða alls kyns hlaup og undarlega mola. Gáfu mér einhvern tímann svona piparbrjóstsykur og ég spýtti honum útúr mér bölvandi og fussandi.

Mér fannst kaffi skelfilega bragðvont fyrst, gleymi aldrei fyrsta sopanum. Tyrkisk peber og kaffi eiga það sameiginlegt að vera áunninn smekkur. Núna finnst mér tyrkneskur piparbrjóstsykur (sem reyndar kemur frá Finnlandi) hrikalega góður og kaffi lífsnauðsynlegt, rétt eins og súrefni, vatn og súkkulaði.

Hef einu sinni smakkað tyrkneskt kaffi og fannst það viðbjóður, en gerði reyndar þau mistök að sturta í mig öllum korginum. Það á maður víst ekki að gera. Ætla að prófa tyrkneskt kaffi aftur einn góðan veðurdag og dansa magadans í sægrænum kjól.

laugardagur, janúar 19, 2008

Lífið - þakklátt starf

Gerði merkilega uppgötvun í vikunni. Var að vaska upp, útvarpsfréttir ómuðu í litla eldhúsinu mínu og af og til lagði ég frá mér leirtauið til að heyra betur hvað þulurinn sagði. Hversdagslegt? Já. Sannarlega var heimurinn hversdagslegur á þessu augnabliki. Lífið var einfaldlega í jafnvægi. Mér hefur ekki liðið svona vel í mörg ár. Eftir skilnaðinn hefur líf mitt verið rússíbani, hreinsunareldur, ópera, farsi og ég á köflum hádramatík. Rúm tvö ár síðan ég ákvað að rífa mig upp og skilja við mann sem alltaf hefur reynst mér vel, traustur og heiðarlegur sem hann er. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að telja hann enn meðal bestu vina minna og fyrir það er ég endalaust þakklát, okkar og ekki síst barnanna vegna. Held að hvorugt hafi nokkurn tímann misst sjónar á hinu sem manneskju, þrátt fyrir þoku sárinda sem lagðist yfir tilveruna um stundarsakir. Hef aldrei litið til baka með biturð, hvers vegna ætti ég að gera það? Þrjú yndisleg börn og mörg góð ár við daglega amstrið sem fylgir fjölskyldulífi og barnastússi. Gleði og sorgir eins og gengur og gerist hjá þeim sem eru svo heppnir að eiga sér "eðlilegt líf".

Uppgötvun mín við uppvaskið var að fyrst núna líður mér eins og gömlu Betu, nema bara miklu betur. Ég er sátt við sjálfa mig. Næstum búin að fyrirgefa mér þau mistök sem ég gerði, allar slæmu ákvarðanirnar sem ég tók. Hef aldrei verið hrædd við að axla ábyrgð á eigin gjörðum, en er ekki tilbúin að taka á mig ábyrgð á hegðun annarra.

Situr dálítið í mér pistill sem ég las nýlega, eftir Davíð Þór Jónsson. Góð hugleiðing þar á ferð. Eftir því sem ég eldist dýpka tilfinningar mínar og skerpast. Fyrir það er ég þakklát. Ég get orðið ástfangin eins og unglingur, nema enn betra - hef reynslu og innsæi sem mig skorti alveg í sjálfhverfri gelgjumóðunni. Og nú á ég líka svolítið sem ekki fæst keypt, fengið að láni eða stolið - ég þekki sjálfa mig. Ómetanlegt.

Það er svo gott að vera til.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Lærið baunar

Mikið kapp, litlir hæfileikar. Íþróttasaga mín í hnotskurn. Var að sýnast fyrir leikfimikennaranum (sem illu heilli er ungur karlmaður), tók fruntalega á í spretthlaupi og spojong, held ég hafi teygt lærvöðva eins og maður skyldi aldrei teygja lærvöðva. Sit nú hálfskjálfandi í latastrák undir teppi, get varla gengið þrjú skref. Líður eins og bjána. Kvíði fyrir að verða mál að pissa.

Ákvað að dreifa huganum og hræra í tenglalistanum. Takið eftir smekklegu mynstrinu, þetta er harðangur og klaustur og dass af kappmellu og aftursting. Varla krosssaumspor að sjá.

Elska jákvætt og góðviljað fólk. Vildi bara koma því að. Svona er ég spes.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Ófús snúslús

Ég á það til að sofa yfir mig og veit að stundum hendir það aðra líka. Vitanlega er þetta snústakkanum að kenna, allt of freistandi að lúra ponku lengur. Rakst í kommentakerfi úti í bæ á þessa frábæru vekjaraklukku. Sumsé, ef þú ýtir á snúsið, þá tengist klukkan heimabankanum þínum og fé leggst sjálfkrafa inn á reikning málstaðar sem þú hefur óbeit á.

Minnismiði baunar - nokkur félög til að leggja ekki fé inn á:
  1. Forsetaframboð Ástþórs Magnússonar
  2. Vélhjólaklúbburinn Fáfnir
  3. Eftirlaunasjóður Moggabloggara
  4. Samtök byggingarverktaka í Kópavogi
  5. Vinafélag Lúkasar og annarra ljótra hunda
  6. Ægisdyr, áhugafélag um göng til Vestmannaeyja
  7. Hvaða golfklúbbur sem er
  8. Krossinn
  9. Samtök trúða og annarra sem mála sig mikið í framan
  10. Panflautufélagið
  11. Leoncie heim
Einhver félög sem þið viljið ekki styrkja?

mánudagur, janúar 14, 2008

Friðurinn, stærðin og stólarnir

Það væri hægt að fylla heila vetrarbraut með því sem ég ekki skil. Nei, þrjár vetrarbrautir. Horfi stundum á dr. Phil, finnst hann svo ákveðinn og sterkur að segja fólki að hætta bjánagangi og svona og ég fæ næstum í hnén þegar hann horfir strangur á konuna sem er alltaf reið eða kallinn sem er alltaf að halda framhjá.

Eitt vekur furðu mína. Af hverju eru stólarnir í settinu svona stórir? Er það til að fólk sýnist grennra? Eða vandamálin stærri?

Svo hef ég verið að velta fyrir mér öðru máli sem e.t.v. ætti erindi í stóran stól. Er einhver stefna í byggingarmálum á þessu landi? Er svæðið í kringum Smáralind svona ljótt og óaðlaðandi af því að einhver skipulagði það þannig? Getur sá sem ábyrgur er fyrir þeim hroða ekki skipulagt sig út úr skipulagsstörfum?

Auk þess legg ég til að fólk hlusti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson í Silfri Egils. Sá maður veit sínu viti. Hlakka til að sjá þættina hans.

Baun vill að beitt verði skyndifriðun á heilbrigða skynsemi. Sú stefna að láta verktaka stjórna byggingarstefnu heils lands er hvorki heilbrigð né skynsamleg.

laugardagur, janúar 12, 2008

Samt Íslendingur. Víst!

Mér líður eins og svikara. Hef ekkert fylgst með júróvisjón þetta árið. Laugardaglögin hafa lent utangarðs, þrátt fyrir að hið geðþekka sjónvarpsfólk Gísli og Ragnhildur ríði þar rækjum.

Af hverju hef ég ekki áhuga lengur? Var ég lokuð inni í haughúsinu sem barn?

Líst ekki á þetta. Ætla að leita mér aðstoðar. Hvaða fagfólk ræður við júróvisjónapatíu?

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Aurasálin

Eins og allir vita má ég ekkert aumt sjá, finn til með fólki sem á bágt. Held alltaf með þeim sem tapar. Um þessar mundir er ég að reyna að safna samúð fyrir þá 200 landa mína sem eiga RangeRovera á sölu (meðalskuld per bíl 5 millur).

Ég er líka að reyna að safna samúð fyrir fólk sem tekur nokkur hundruð milljónir að láni til að fjárfesta og gambla með og tapar stórt. Skilst að einhverjir fyrrverandi forríkir séu nú næstum fátækir. Verði að selja þyrluna, penthásið og jafnvel kúldrast á sagaklass í stað þess að líða um loftin blá í einkaþotu.

Mér gengur ekki nógu vel með samúðarsöfnunina. Enda aumur launþegi í heilbrigðisgeiranum, líf manns og störf til fárra fiska metin. Til sönnunar á því hve ómerkileg og smá í sniðum fjármál mín eru má nefna að desemberuppbót og vísindasjóðsstyrkur frá stéttarfélagi mínu eru uppspretta mikillar kæti, enda þýða þessir örfáu þúsundkallar að ég get keypt eitthvað sniðugt, t.d. skó. Það er alltaf góð hugmynd að kaupa skó, tala nú ekki um rauða skó. Og í dag kvartaði ég í fiskbúðinni minni undan brimsöltu saltfiskflaki sem ég keypti hjá þeim á þriðjudaginn og viti menn. Ég fékk þúsund krónur felldar niður af verði laxins sem ég var að kaupa. Í sárabætur. Þetta gladdi mig ómælt.

Laun fólks í stjórnunarstöðum, sem sýslar með fé, eru fullkomlega úr samhengi við veruleika flestra. Það er margtugginn sannleikur á kaffistofum landsmanna. Skyldu fjármálafyllerí, útrás og stórveldisdraumar vera að renna sitt skeið? Gerist eitthvað "raunverulegt" núna? Hefur þetta áhrif á okurkjörin sem okkur sem neyddumst til að taka húsnæðislán nýlega voru boðin? Hækkar bensínið endalaust? Hvað verður um landkrúserna og börnin?

Peningar. Fne.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Fjölnota flúnel

Nenni ekki á útsölur. Hlýt að vera orðin gömul. Þurfti þó að fara í Kringluna eftir vinnu í dag til að kaupa bækur fyrir menntskælinginn. Álpaðist inn í Joe Boxer og festi kaup á flík sem ég var búin að sverja að ég ætlaði aldrei að eignast. Svona náttbuxur úr flúneli. Hef séð náttbuxað lið á sveimi í Nóatúni, í sjoppum og úti að labba með hundinn. Fyrst hélt ég að það væri að ganga í svefni en svo var mér sagt að þetta væri voða smart.

Nú á ég svona bláköflóttar buxur. Er í þeim sem ég skrifa. Nokkuð notalegt en mér er kalt á tánum. Mér er alltaf kalt á tánum, og var einu sinni sagt að þær væru eins og litlir ísmolar, alveg passlegir í viskíið. Vildi að ég væri hobbiti.

mánudagur, janúar 07, 2008

Þú hljóða vist

Í vinnunni í dag vorum við að tala um klósett og þau hljóð sem fylgt geta notkun postulínsins. Sagðar voru sögur af fáránlega staðsettum klósettum, t.d. var eitt með veggi aðeins hálfa leið upp í loft í miðri stofunni (svo salernisfari missti ekki af samræðum í selskapnum) og annað var í voða fínni innlit/útlit-íbúð með glerveggjum sem mögnuðu upp öll (ó)hljóð.

Japanskar konur eru víst næstum búnar að eyða öllu grunnvatni þarlendra með því að sturta niður í tíma og ótíma (til að fela hljóðin) og fann því einhver hugvitsmaðurinn upp þetta tæki.

Það getur verið erfitt að vera manneskja.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Því ég kann spil´á lyklaborð

Hann Matti minn fékk gítar í jólagjöf og er búinn að ná ótrúlegum tökum á því ágæta hljóðfæri á undraskömmum tíma. Hefur góða undirstöðu í píanóleik og það hjálpar. Magnað að sjá (og heyra) hvernig hann finnur nýja og nýja vinkla á tónlistinni.

Hann fann t.d. í dag forrit á netinu þar sem maður tekur lyklaborðið, heldur á því eins og gítar og bara rokkar!

Guðisélof fyrir fólk sem hugsar út fyrir kassann.

föstudagur, janúar 04, 2008

Er andi í draumnum í súpunni í brauðinu í jólaskrautinu?

Nú er ég komin með páfann á heilann. Ekki þægilegt. Held mig sé farið að dreyma hann líka, því mig minnir endilega að ég hafi lesið frétt í gær eða hinn um að páfinn vilji hefja stórsókn í særingum, þ.e. að þjálfa fleiri presta í að særa út illa anda. Á slíku sé aukin þörf og að prestar nú til dags séu ekki nógu vel að sér í þessu undirstöðuhandverki guðsmanna. Var að leita að þessari frétt áðan á vefmiðlum en fann hvergi. Ansans. Fann hins vegar þartilgerðan fréttavef kaþólskra.

Svaf yfir mig í morgun. Dreymdi að dóttir mín elti mig um allt með stóra skammbyssu og ætlaði að skjóta mig af því að pabbi hennar nennti því ekki. Mér fannst þetta doldið leiðinlegt og bað hana að sleppa því að skjóta mig, segja heldur pabba sínum að gera það sjálfur. Já, já.

Strákarnir komu til mín í dag og það er skemmtilegt. Ætla að elda handa þeim fiskisúpu og gefa þeim gott heimabakað brauð með. Nóg að gera næstu daga við að snúa sólarhringnum á rétt ról, grunar að það verði ryðgað tannhjól með ískri og skrölti. Svo þurfum við að moka jólaskrautinu ofan í kassa og henda blessuðu jólatrénu.

Legg aldeilis ekki meira á ykkur, enda kúfmælt.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Guðdómurinn í PISA, náttúrulega

Ég er búin að sjá Krumma ofurgoð krossfestan óguðlega.

Ég er búin að borða kalkúninn guðdómlega.

Ég er búin að fjúka hringinn í kringum Perluna með rakettunum.

Ég er búin að vera sæl og kjánaleg og hlæja mikið.

Og nú er komið nýtt ár sem ég hóf á því, í fyllstu auðmýkt, að leita leiðsagnar hjá fólki sem er í góðu sambandi við guð. Samkvæmt erlendum karlmanni sem gengur um í kjól og má aldrei kvænast tilheyri ég ónáttúrulegri lífseiningu. Náttúrulegar fjölskyldur eru "vagga friðarins". Einmitt.

Svo er biskupinn búinn að finna ráð gegn meintri lestrarleti íslenskra barna.
Gefum honum orðið:

"PISA könnunin sýnir fram á að lesskilningi sé ábótavant hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er alvarlegt ef börnin okkar rofna úr tengslum við þjóðararfinn, bókmenntir okkar og ljóð. Því skal ítreka hve háskasamt það er ef kynslóðir vaxa úr grasi skilningsvana og ólæsar á þann grundvallarþátt menningar og samfélags sem trúin er og siðurinn. Það er brýnt að stórefla þátt kristinfræði í skólunum, jafnframt aukinni fræðslu í almennum trúarbragðafræðum."

Blasir við.