sunnudagur, janúar 20, 2008

Tyrkjamolar

Börnin mín eru miklir nammigrísir en það hef ég aldrei verið, ef frá er talið dökkt súkkulaði sem ég lít ekki á sem sætindi, heldur mannréttindi. Þau borða alls kyns hlaup og undarlega mola. Gáfu mér einhvern tímann svona piparbrjóstsykur og ég spýtti honum útúr mér bölvandi og fussandi.

Mér fannst kaffi skelfilega bragðvont fyrst, gleymi aldrei fyrsta sopanum. Tyrkisk peber og kaffi eiga það sameiginlegt að vera áunninn smekkur. Núna finnst mér tyrkneskur piparbrjóstsykur (sem reyndar kemur frá Finnlandi) hrikalega góður og kaffi lífsnauðsynlegt, rétt eins og súrefni, vatn og súkkulaði.

Hef einu sinni smakkað tyrkneskt kaffi og fannst það viðbjóður, en gerði reyndar þau mistök að sturta í mig öllum korginum. Það á maður víst ekki að gera. Ætla að prófa tyrkneskt kaffi aftur einn góðan veðurdag og dansa magadans í sægrænum kjól.

Engin ummæli: