þriðjudagur, september 30, 2008

Líður svona og svona

Ef ég væri önd..


Ef ég væri athafnaskáld..

Ef ég væri snuð...



Ef ég væri nógu mikil tík...

En ég er bara baun.

mánudagur, september 29, 2008

Ég á ekki krónu en langar í öxi

Þessi dagur er búinn að vera hreint agalegur. Samt á ég ekki einu sinni hlutabréf í Glitni, nema jú þetta sem Davíð gaf mér í morgun. Menn eru reiðir og æstir og tala eins og þeir séu til í að taka lán fyrir lítið notaðri fallöxi og gera lukkuriddarana, sem gömbluðu með annarra fé og töpuðu, höfðinu styttri. Úr munni dagfarsprúðasta fólks streyma gremjulegar lýsingar á sukki og svínaríi útrásaróskabarnanna fyrrverandi og maður fær blóðbragð í munninn og kyrjar með: Til helvítis með gráðugu svínin! Lán okkar eymingjanna tútna út í verðbólgunni, færast hratt og örugglega að því marki að maður sitji uppi með miklu hærri skuld en sem nemur verðgildi eignarinnar. Ömurlegt að "góðærið" skyldi fljúga hjá án þess að skíta á mig einu sparði. Djöfulsins djöfull!

Í dag öðlaðist ég skilning á frönsku byltingunni.

Sé fyrir mér aukna spurn eftir þjónustu handrukkara á næstunni, því eins og einn úr þeirri stétt mælti við vesældarlegan rukkþega í Kompásþætti um daginn: "Sko, þúst, það eru lög og reglur í landinu."

Auk þess lýsi ég yfir þungum áhyggjum af því hversu mjög skilnuðum fjölgar í kreppunni, þ.e. skilnuðum vegna fjárhagsvanda. Veit þetta fólk ekki hvað er hrikalega dýrt að skilja? Það veit ég, maður lifandi.

Fugl dagsins er steypa.

laugardagur, september 27, 2008

Ásta


Í dag eru 24 ár síðan ég puðaði við að koma frumburði mínum í heiminn. Þá var ég ung og vitlaus, yngri en dóttir mín er núna og miklu vitlausari en hún hefur nokkurn tímann verið. Man að ég horfði á barnið nýfætt og hugsaði: Hver er þetta? Hún var lögð í fangið á mér, þung, heit og mjúk, bláókunnug. Man að mér þótti miður að finna ekki undir eins fyrir bullandi móðurtilfinningum eins og ég hafði lesið um í bókum, og ég var undrandi. Undrandi yfir að hafa fætt barn sem ég þekkti ekki neitt.

Nær aldarfjórðungi síðar þekki ég þessa mannveru betur en flesta og víst er að ég elska hana. Skilyrðislaust. Ekkert í þessum heimi skiptir mig meira máli en hamingja barna minna.

Þegar Ásta var kríli og bjó í Amríku, vildi hún alloft láta syngja fyrir sig og féll það iðulega í minn hlut vegna tónfötlunar föður hennar. Ég hef aðeins samið eitt lag um ævina, og var það við vísukorn í bók sem henni fannst skemmtileg. Mamman í bókinni hélt nefnilega áfram að vilja syngja fyrir strákinn sinn þótt hann yxi úr grasi og yrði virðulegur kall.

I´ll love you forever
I´ll like you for always
as long as I´m living
my baby you´ll be.

Miðill miðill það er draugur í bólgunni

Ég heyri oft hljóð sem ég skil ekki, sé oft hluti sem ég skil ekki, finn oft lykt sem ég skil ekki. Heimurinn er svo fullur af stöffi sem ég skil ekki að það er varla pláss fyrir hitt.

Eitt af því sem ég skil ekki er af hverju fólk skýrir hluti sem það skilur ekki með fyrirbærum sem það skilur ekki, t.d. draugum. Hljóð í gömlum húsum eru nærtækt dæmi. Og verðbólgan.

föstudagur, september 26, 2008

Berlúskóní-effektinn dillar sér í gulum kjólum

Dóttirin segir að allir fésbókarar hafi þekkt myndgaldurinn sem ég notaði til að gera síðustu færslu unaðsfagra og áhugaverða, en ég sá forritið í fyrsta skipti í gær og fannst það svaka sniðugt. Ásta sagði enn fremur að Facebook væri skemmtilegt apparat og sýndi mér ýmsa gáfumannaklúbba þar. Kristín hefur núð mér upp úr afdalamennsku minni, sem birtist í því að ég er hvorki með síðu á téðri fésbók, né hef ég horft á einn einasta Friendsþátt. Veit ekkert um Jóí, Spóí og Bimbí, eða hvað þessir blessuðu vinir heita nú allir saman.

Horfði á málbeinið brillera í Útsvari. Finnst Útsvar skemmtilegur þáttur, já, pottþétt lúðalegt, ég veit. En er þátturinn Síngíngbí sem nú rúllar á Skjá einum smart? Það þykir mér ekki, og þá er kannski von til þess að hann sé hipp og kúl.

Kær kveðja úr sveitinni.

fimmtudagur, september 25, 2008

Bauneríski draumurinn

Hér er bráðfyndin síða sem hann Hjálmar gróf upp. Óborganlegur þessi amöríski fílingur.


Mér finnst að allar hárgreiðslustofur ættu að hafa forrit í þessa veru, þá gæfist tækifæri til að skoða hvernig mismunandi hárgreiðslur klæði mann, svona áður en skærin segja snippsnipp og maður þarf að fara út á götu með hauspoka.

þriðjudagur, september 23, 2008

Keðjumas

Ásta mín yndisleg klukkaði mig og ætla ég ekkert að gera með það annað en greina frá því að ég er keðju-keðjuslítari. Hef slitið keðjur frá því ég var fóstur, segja má að mér haldi engar keðjur fremur en Húdíni, tala nú ekki um þessar fjárans búðakeðjur. Þegar litli bróðir minn var í alvörunni lítill hafði hann gjarnan þennan brandara á hraðbergi: Viltu veðja? Kúkur og keðja. Ég er ekki að reyna að vera gáfuleg, það gerist ósjálfrátt.

Mér finnst fara hljótt um þetta Moggafíaskó um helgina, þar sem slegið var upp á forsíðu að fundist hefðu vísur í pósíbók sem Laxness átti að hafa ort barn að aldri. Hvar stendur málið? Veit að önnur vísan var auðgúggluð og kennd einhverjum Húnvetningi, en hvað með hina? Baðst Mogginn afsökunar, var einhver rekinn, komu skýringar?

Slúðrið nú í mig einhverju krassandi, verið svo væn.

mánudagur, september 22, 2008

Einn flýgur fiskur úr sögu og eftir standa tveir olíubrúsar

Meira ruglið þessi kapítalismi. Á Íslandi er verið að strauja burt alla fjölbreytni í verslun og þjónustu. Langar að nefna hér tvö dæmi: Til skamms tíma var öndvegis góð fiskbúð á Gullteig. Þar keypti ég í matinn 2-3 sinnum í viku, rabbaði við hressa og skemmtilega afgreiðslumenn og fékk aldrei vondan fisk í soðið. Nú er þessi fiskbúð horfin sem slík, en í staðinn er komið eitthvert skrambans keðjufyrirbæri sem heitir Fiskisaga. Margar fiskisögur, allar eins og sérstaða litlu búðanna úr sögunni.

Annað dæmi. Í dag fór ég á glænýja bensínstöð N1 á Ártúnshöfða. Áður en þessi stóra stöð reis, var þarna smákofi sem stóð sína pligt býsna vel sem bensínstöð. Þar keypti ég alltaf olíu á bílinn minn, en hann er farinn að reskjast og þarf þykka olíu. Gat valið úr tegundum en keypti oftast Extra. Núnú. Ætlaði sumsé að kaupa olíu, ranglaði um víðáttur nýju stöðvarinnar, fann ekki neitt og spurði loks starfsmann. Var sagt að þykk olía fengist ekki lengur á stöðvum N1. Það voru aðeins til tvær tegundir, þær sem "seljast mest". Hins vegar mátti fá á bensínstöðinni bleiur, álegg, kex, rjóma, raksápu, frisbídisk og uppþvottalög. En ekki olíu á bílinn. "Áherslubreytingar", sagði afgreiðslumaðurinn. "Það verður að spara hilluplássið", svaraði hann brosandi þegar ég spurði af hverju í ósköpunum þeir gætu ekki haft fleiri en tvær olíutegundir til sölu á bensínstöðinni.

Mig langar að segja einhverjum að stinga markaðshyggjunni upp í rassgatið á sér. Veit bara ekki hver ber ábyrgð á þessu bulli.

sunnudagur, september 21, 2008

Horfum á Klovn

Við Hjálmar erum búin að liggja yfir Klovnþáttum (segið þetta upphátt) alla helgina. Ótrúlega eru Casper og Frank fyndnir náungar. Og óþolandi.

Vorum að koma úr kaffiboði á Suðurnesjum, en þar býr dóttlan Ásta með Maríu Önnu sinni. Ásta bakaði bollur sem heppnuðust ljómandi vel, þótt hún hafi tautað við baksturinn að hún væri ómöguleg í svona stússi. Svartsýnin kemur úr föðurættinni, og kallast þar "raunsæi". Pfft.

Veðrið er skítvont en það er notalegt að kúra undir teppi og lesa Pullman. Verið spök.

fimmtudagur, september 18, 2008

Biblían er barefli

Hef komist að eftirfarandi um sjálfa mig.
  1. Get ekki rætt við fólk um pólitík nema það sé svo gott sem sammála mér.
  2. Get ekki talað við trúarnöttara um nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Var barin með biblíu um daginn. Trúarofstæki er böl.
  3. Hagfræðileg hugtök lenda á hausnum á mér og skolast burt í skilningsvana straumi. Fæ fjarrænt blik í auga þegar gáfaða fólkið í sjónvarpinu talar með lotningu um fjármálamarkaðinn.
  4. Þegar rætt er um framkvæmdir, flísum lýst og niðurbroti veggja, talað um blöndunartæki og innréttingar þá byrjar athygli mín að fjara út. Ég hef ekki vott af innanhússarkitektalegum hæfileikum, rýmisgreind eða skipulagsgáfu. Um þetta geta allir sem séð hafa inn í skápa mína borið vitni.
Þetta er ekki fallegt en ég feika það stundum. Áhugann á innanhússarkitektúr meina ég.

Sjáið svo bara hvað ég er greindarleg hér.

Lægð er yfir lífi baunar

Mér leiðist heimska mannanna, þessar rækallans lægðir fara illa í mig og yfirlýsingar allra helstu ráðamanna vestrænna ríkja um að allt sé í lagi á fjármálamarkaðnum valda mér djúpum áhyggjum.Auk þess legg ég til að Árni Johnsen verði gerður að forstjóra hins nýja Tónlistarhúss og risastór arnarkló hengd í austurhluta byggingarinnar.

þriðjudagur, september 16, 2008

Kreppa, sagnorð, veik beyging

Úlan Bator Bútan Nepal. Ég er með banana í eyrunum.

Markaður
, verslun með notaða hluti, t.d. Kolaportið.

FTSE, ófullnægjandi hnerri.

Vísitala, að tala gáfulega.

Lehman Brothers, þokkalegt rauðvín.

Króna, gervitönn.

Viðskipti, verslun með spýtur.

Gengi, skuggalegir unglingar í einum hnapp.

Fjármál, jarm.

Þessi frétt fékk meira á mig en meint hrun fjármálamarkaða vestanhafs. Ég sé eftir fréttastofu Útvarps.

mánudagur, september 15, 2008

Ró og reiði

Ég öfunda svo fólk sem heldur alltaf ró sinni.
Nei, í raun og veru ekki. En ég öfunda fólk sem heldur haus í erfiðum aðstæðum. Þegar ég verð reið puðrast eitthvað samhengislaust og bjánalegt út úr mér og svo, klukkan allt of andskoti seint, fyllist höfuð mitt af smellnum tilsvörum sem hefðu rústað andstæðingnum. Orðheppni ágæt, tímasetning vonlaus.

En sumt getur maður hvort eð er ekki talað í betra horf, jafnvel þótt maður tali sig bláan í framan.

sunnudagur, september 14, 2008

Sushi, Gollum, listería, hystería

Mér finnst sushi sérlega gott og gaman að búa það til. Yfirleitt þykir mér hrár fiskur gómsætur, t.d. skelfiskur, lúða, lax og silungur. Þetta barst í tal um daginn á kaffistofunni í vinnunni, þar sem ég sat og rabbaði við samstarfskonu mína, sem er læknir. Hún gretti sig svolítið yfir þessum matarvenjum mínum og sagðist aldrei borða sushi sjálf nema fiskurinn í því hefði verið frystur. Sagði hráan fisk (nefndi sérstaklega lax) geta borið í sér stórhættulega bakteríu sem heitir listería.

Nú er það ekki svo að ég sitji á árbakkanum og rífi af offorsi í mig hráan fisk eins og Gollum, en hef hingað til borðað ósoðinn fisk óhrædd, m.a.s. á erlendri grund (það voru ostrur í London, mikið assgoti var það nú skemmtilegt).

Ég gúgglaði sushi og listeríu út og suður, en sú leit skilaði litlu bitastæðu efni. Reyndar sá ég víða að óléttum konum er ráðið frá því að borða hráan fisk, en ég þarf nú ekki að hafa áhyggjur af því.

En æ, hvað allt getur verið hættulegt. Best að fá sér soðna ýsu stappaða með tómatsósu og kartöflum. Eða kjötsúpu.

laugardagur, september 13, 2008

Víííí

Ég kann að spila á wii. Og ég horfði á Löru Croft myndina. Og part af Rambó 4.

Rétt til getið. Strákarnir eru hjá mér þessa vikuna:)

föstudagur, september 12, 2008

Sló um mig og forskalaðist*

Endaði vinnudaginn í gær á því að fara í litla fjallgöngu með starfsmannaleikfiminni. Var sprellspræk og trítlaði þessar tiltölulega létt troðnu slóðir (afsakið, ruddist hér inn tungubrjótur) í blankskóm, gallabuxum og skyrtu. Skutlaði síðan samstarfskonu í Túnin og þremur dauðum löxum yfir í annað bæjarfélag og var þá farin að hríðskjálfa úr kulda.

Ekki þarf að orðlengja frekar afleiðingar þessara svalheita. Yfir mig helltist snarlega haustkvef svo svæsið að slím spýtist út um öll göt á höfði.

Sauð upp á fjallagrösum áðan og mallaði grasamjólk. Sit nú og sýp úr kisubollanum mínum, sannfærð um að mér batni fljótt og vel. Aaahhh....hvað mjólk er góð....tsjú!

*ef ég man rétt er lokalínan úr Sódómu Reykjavík einhvern veginn svona: Láttu ekki slá um þig, þú gætir forskalast.

fimmtudagur, september 11, 2008

Öreindavaðall

Oft er sagt að blogg gangi út á hreina sjálfhverfu. Í síðustu færslu reyndi ég að fá fólk til að skrifa "hvað er að vera ég" fernuljóð. Sjálfhverfara gerist það varla. Hugsanlega hefði getað myndast lítið svarthol í bloggheimum við árekstur ljóða okkar örveranna sem sólum í hringi á netveginum. Mér fannst vel þess virði að taka sénsinn.

Hér kemur eitt sýnishorn atómljóðanna sem bárust við tilraun þessa.

Að vera ég
er að leggja af stað að heiman
en gleyma hvert skal haldið

Að vera ég er að dreyma um kandífloss
á atkinskúr

Að vera ég er að vera veðreiðahestur
sem dreymir um að vera bikkja
sem dreymir um að vera veðreiðahestur

Unnur af Seljavegi, 30 ára
Blogglistaskóla Íslands, nöldurdeild

þriðjudagur, september 09, 2008

Yrkjum fernuljóð áður en það verður of seint

Get ekki látið það spyrjast um mig að farast með heiminum á morgun án þess að vera búin að yrkja fernuljóð.

Hvað er að vera ég?
að vera ég er að hafa fæðst undir appelsínugulu þaki
og mamma sparkaði í lakið

að vera ég er stundum kandís
og stundum ódrekkandi viðbjóður sem heitir égermæster

að vera ég er upplifun miðaldra konu
með laglega beinagrind

að vera ég
er brothættur kúpull gamallar krónu
í fúnkísstíl

að vera ég er spurning
um öreindir
og gott kaffi

Elísabet frá Kirkjuteig, 47 ára
Grunnskóla Sleifarhrepps, sérdeild

Strákmenntir

Mér finnst furðu létt að venjast því að hafa karlmann á heimilinu. Eintrjáningshátturinn er að rjátlast af mér smátt og smátt. Hjálmar er heimilisprýðilegur maður og góður við mig (og ég við hann) og sambúðin gengur eins og vængjaður flókaskór.

Eitt er það sem vekur jafnan hjá mér undrun, en það er tilhneiging karlmanna til að samnýta lestur og salernisferðir. Auðvitað er það hrein þvæla að karlmenn geti ekki gert tvennt í einu.

mánudagur, september 08, 2008

Éta éta éta það munu allir geta, vinna vinna vinna það mun vera minna

Ég er í föstu sambandi, en ákvörðun um skilnað hefur verið tekin. Andrúmsloftið er rafmagnað og erfitt á köflum. Hlutirnir eru gerðir af skyldurækni, en undir niðri kraumar eftirsjá, tregi, reiði, söknuður og vangaveltur um tilgang allra hluta. Hvar liggur trúfesta konu við slíkar aðstæður?

Ég er að fara að skipta um starf. Hef verið vinnustað mínum trú í 15 ár, en nú eru breytingar á döfinni. Miklar breytingar.

Sá fyrsti sem segir að ég hafi bara gott af því að skipta um vinnu fær sent hor í pósti.

sunnudagur, september 07, 2008

Lostaskessur og vagnar frá Venus

Þó að ég hafi oft borðað skessujurt, hafði ég ekki lesið mér almennilega til um þessa ágætu plöntu. Vissi bara að mér fannst hún góð og vonaði þar af leiðandi að hún væri æt. Til er margvíslegur fróðleikur um skessujurt, m.a. er fullyrt að hún sé "karllæg jurt" og "veki karlmönnum losta". Merkisplanta.

Fór í göngutúr áðan með mömmu og vorum við dolfallnar í steríó yfir öllum berjunum, könglunum, fræjunum og öðrum ávöxtum jurtaríkisins sem blasa við sjónum. Fann mjög fallegan runna með appelsínugulum berjum og fagurbleikum blómum. Berin voru girnileg og rauf ég himnuna á einu þeirra og sleikti smá safa. Bragðið var hreinn viðbjóður og mig er búið að logsvíða í munninn í nokkra klukkutíma.

Mér skilst að það sé fremur lítil hætta á að því að börn leggi eitraðar plöntur sér til munns, en hvað um miðaldra húsmæður?

Lagðist í rannsóknir
, svona ef þyrfti að leggja mig inn, en fann ekki lýsingu á þessum runna meðal eitruðu jurtanna. Það kom mér reyndar stórlega á óvart hvursu margar eiturplöntur eru algengar í görðum landsmanna, t.d. venusvagn.

VenusvagnVenusvagn (ljóshjálmur, bláhjálmur)


Pfft, glætan að ég smakki venusvagn.

föstudagur, september 05, 2008

Jurtaríkið á svölunum

(Þessi pottur er voða stór)

Keypti mér í sumar allnokkrar kryddjurtir, þar á meðal pottkríli með blóðbergi og myntu. Umpottaði fljótlega og jurtirnar hafa vaxið eins og arfi, myntan þó sýnu mest. Vissi ekki hvaða not ég gæti haft af þessari brjáluðu myntu fyrr en mér datt í hug að búa til te sem dreymir um að verða mojito.

Marði myntulauf í deiglu, hellti sjóðandi vatni yfir og hrærði vænum slurk af hrásykri með. Yndislegur drykkur, og afar frískandi eftir þunga kjötmáltíð.

Tók um daginn skessujurt og setti í saltþurrkun. Þá geymist hún svona hálfþurr í allan vetur og er frábær í súpur og kássur. Ætli maður geti þurrkað aðrar kryddjurtir á svipaðan hátt?

Best að gera fleiri tilraunir áður en aldingarðurinn drepst úti á svölum.

fimmtudagur, september 04, 2008

Heppnar varir

Ótrúlegt að vera í felum þar til maður er orðinn löggilt gamalmenni. En batnandi mönnum er best að lifa, jafnvel þótt það sé með presti. Ég get reyndar varla fyrirgefið Cliff að bera ábyrgð á því að ég fæ "Lucky lips" á heilann með reglulegu millibili.

Hrikalega líst mér alltaf illa á stjórnmálamenn sem telja sig starfa í umboði guðs. Tóm vitleysa að þvæla guði greyinu í pólítík. Fólk sem finnur öll svörin í einni bók hræðir mig.

Sarah Palin er á móti fóstureyðingum, á móti réttindum samkynhneigðra og telur skírlífi fram að giftingu eðlilegan hlut. Í BNA er hún ósköp venjuleg afturhaldsbeygla, en væri hún í framboði hér, þá...já, þá hvað? Skyldi manneskja með slíkar skoðanir geta öðlast frama í stjórnmálum hér? Maður spyr sig.

Vona að þið finnið náð í hjarta til að fyrirgefa mér alla tenglana í þessari færslu.

þriðjudagur, september 02, 2008

Hollusta grænmetis

Stóð í langri biðröð hjá bóndanum í Mosó, moldug, með nokkur kíló af grænmeti í fanginu. Nýkomin úr fyrsta leikfimitíma vetrarins. Var að sligast. Hvergi hægt að leggja frá sér byrðina. Þetta voru erfiðar tuttugu mínútur. Rétt fyrir aftan mig stóð fullorðin kona í röndóttum bol og tuggði tyggjó. Hún saug, jórtraði, smellti, blés, kjamsaði, sprengdi og skartaði um leið þessum tóma augnsvip sem minnir á kind.

Ég stakk gómsætum gulrótum í augntóttirnar á konunni, þar til augun sprungu út úr höfðinu á henni. Tróð glænýrri gulrófu milli rauðmálaðra vara þar til hún blánaði í framan, kýldi hana í klessu með brakandi fersku blómkáli. Grýtti hana síðan til ólífis með nýuppteknum Ólafs rauðum.

Nei, nei. Ég er bara venjuleg hversdagsgunga og sendi henni illt augnaráð.

mánudagur, september 01, 2008

Baunarháttur og hökuvandræði

Langar að nota tækifærið og óska sjálfri mér til hamingju með nýjan bragarhátt sem nefnist "baunarháttur". Gísli málbein er höfundur þessa þénuga ljóðforms og spái ég því rífandi fylgi í framtíðinni (hvar annars staðar?).

Hér er tekið ljóðsýni úr Gísla:
Baunarháttur
Af mér skola allan daun
aðstoðina fala
skrúbba mætti bakið baun

í bala.

Ljóðelskum lesendum er bent á halann við síðustu færslu til að njóta fegurðar tungumálsins. Baun þakkar klökk fyrir góða þátttöku og mun aldrei útiloka blanka, bilaða eða gulklædda frá lympíuleikunum sínum.

Verðlaunaskáld leikanna kýs að halda nafni sínu leyndu, vegna annríkis við rímæfingar, bragþjálfun og ljóðstafagerð.

Talandi um hökur. Ég er oft svolítið aum í álkunni, rauð og jafnvel rispuð. Þetta er auðvitað feimnismál en af mínu alkunna taktleysi læt ég vaða. Þannig er, kæri póstur, að hann Hjálmar minn er karlmaður í húð og hár, með tilheyrandi skeggrót. Stálsleginni. Á að giska fimm mínútum eftir að hann rakar sig eru komnir nýir broddar. Mér hefur dottið ýmislegt í hug, svo forðast megi eyðileggingu þeirrar þjóðargersemi sem andlitið á mér er. Til dæmis þetta:
  • Hætta að kyssa kærastann (fyrr frýs í helvíti)
  • Láta mig hafa það, safna siggi og fá höku eins og Jay Leno
  • Tannlæknadúkur. Hvar fæ ég svoleiðis?
Þigg allar ábendingar með þökkum. Ekki mun af veita.