mánudagur, september 22, 2008

Einn flýgur fiskur úr sögu og eftir standa tveir olíubrúsar

Meira ruglið þessi kapítalismi. Á Íslandi er verið að strauja burt alla fjölbreytni í verslun og þjónustu. Langar að nefna hér tvö dæmi: Til skamms tíma var öndvegis góð fiskbúð á Gullteig. Þar keypti ég í matinn 2-3 sinnum í viku, rabbaði við hressa og skemmtilega afgreiðslumenn og fékk aldrei vondan fisk í soðið. Nú er þessi fiskbúð horfin sem slík, en í staðinn er komið eitthvert skrambans keðjufyrirbæri sem heitir Fiskisaga. Margar fiskisögur, allar eins og sérstaða litlu búðanna úr sögunni.

Annað dæmi. Í dag fór ég á glænýja bensínstöð N1 á Ártúnshöfða. Áður en þessi stóra stöð reis, var þarna smákofi sem stóð sína pligt býsna vel sem bensínstöð. Þar keypti ég alltaf olíu á bílinn minn, en hann er farinn að reskjast og þarf þykka olíu. Gat valið úr tegundum en keypti oftast Extra. Núnú. Ætlaði sumsé að kaupa olíu, ranglaði um víðáttur nýju stöðvarinnar, fann ekki neitt og spurði loks starfsmann. Var sagt að þykk olía fengist ekki lengur á stöðvum N1. Það voru aðeins til tvær tegundir, þær sem "seljast mest". Hins vegar mátti fá á bensínstöðinni bleiur, álegg, kex, rjóma, raksápu, frisbídisk og uppþvottalög. En ekki olíu á bílinn. "Áherslubreytingar", sagði afgreiðslumaðurinn. "Það verður að spara hilluplássið", svaraði hann brosandi þegar ég spurði af hverju í ósköpunum þeir gætu ekki haft fleiri en tvær olíutegundir til sölu á bensínstöðinni.

Mig langar að segja einhverjum að stinga markaðshyggjunni upp í rassgatið á sér. Veit bara ekki hver ber ábyrgð á þessu bulli.

Engin ummæli: