Meira vesenið sem fylgir framkvæmdum, jafnvel þótt litlar séu. Erum að gera upp gamla eldhúsinnréttingu, mála og setja nýja borðplötu og þessu fylgir þvílíkt sagryk og rót og lakkblettótt læri og terpentínufnykur og DRASL, að það hálfa væri hellingur. Takið eftir þykku ryklaginu, þetta er mikið á minn mælikvarða og er ég þó ekkert tuskudýr.
Svo flæða rýmin hvert inn í annað og hvergi skjól að finna. Mikið sem ég hlakka til að sjá fyrir endann á þessu brasi.
Að öðru. Fór í fiskbúð, sársvöng eftir vinnu. Sé hvar opinn konfektkassi liggur eggjandi á afgreiðsluborðinu. Spyr fisksalann hvort ég megi fá einn mola, hann segir gjörðu svo vel. Hefði auðvitað frekar átt að spyrja af hverju fiskbúð væri að selja súkkulaði, en það hugkvæmdist mér ekki. Molarnir í kassanum voru á stærð við kindaskít. Ég greip einn, stakk upp í mig og uppgötvaði að hann var úr gegnheilu brúnmáluðu smjörlíki. Búðin var full af fólki, engin undankomuleið. Ég varð að kyngja þessu helvíti. Þegar ég labbaði heim með fiskinn sá ég mest eftir að hafa bætt á mig 7000 kalóríum í einum bita. Agalegt skúffelsi að fitna af vondu súkkulaði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli