sunnudagur, desember 28, 2008

Gullbrúðkaup og jólaamstur

Vaðið hef ek fjölskylduboð upp í handarkrika þessi jól, varla getað litið í bók fyrir annríki. Er að kynnast ættingjum Hjálmars, þar er vænn meiður, en allflókinn. Mér finnst gaman í svona samkomum að stúdera ættarsvip, bera saman nef, rödd, vaxtarlag, augabrúnir og eyru. En auðvitað ætti ég frekar að fókusera á að læra nöfnin.

Í mínu tré bar það helst til tíðinda á annan í jólum að pabbi og mamma fögnuðu gullbrúðkaupi. Fimmtíu ár eru ærinn tími í ektaskap. Foreldrar mínir eru býsna sprækir, eiga 16 beina afkomendur, fjölmörg viðhengi og einn kött. Haldin var stórveisla í tilefni dagsins, þar sem boðið var upp á sauðalæri af Barðaströndinni og forláta marsipantertu í eftirmat. Brúðkaupsmyndin var "prentuð" á tertuna miðja, en þótt afi og amma séu góð vildi enginn borða þau. Eða, jú, forvitna litla systir mín beit aðeins í myndina og kom þá í ljós að hún var óæt. Tertan var að öðru leyti gómsæt, get heilshugar mælt með Mosfellsbakarí. Og mér finnst brúðkaupsmyndin af mömmu og pabba falleg, enda eru þau vandaðar manneskjur.

En nú ætla ég að lesa um morð og löggur mér til andlegrar upplyftingar.

Engin ummæli: