Nútímamaðurinn er umkringdur sjálfsögðum hlutum. Hugmyndir okkar um fegurð eru í sjálfu sér jafn furðulegar og hjá "frumstæðu" fólki, sá t.d. um daginn fræðsluþátt um þjóðflokk í Afríku þar sem tíðkast að skera neðri vörina frá andliti kvenna og setja leirdisk í gatið. Dyan Cannon (í bíómyndinni á Rúv í gær) var með svo úttútnaðar varir af kollageni, eða hvað það nú heitir, að hún mátti vart mæla, hvað þá sýna svipbrigði með ofstrekktri andlitshúðinni. Sumum gæti þótt það ókostur fyrir leikkonu, en um það má deila í hennar tilfelli.
Mig langar ekki í varir á stærð við Hummer, mig langar ekki í brjóst á stærð við Perluna og mig langar ekki í bótox, dítox eða kickbox. Mér finnst heimurinn fullur af gerviþörfum og bábiljum og langar ekkert að elta dillur og tísku. Eftir því sem ég kemst næst þjást konur í Finnlandi og Þýskalandi ekki eins harkalega af höfnuðum líkamshárum ("unwanted hair"), og í BNA og víðast hvar í Evrópu, þar sem liggja haugar af kroppsloðnu sem enginn vill fóstra. Ég skal játa að mér þykir sjálfsagt að raka á mér leggi og krika (þótt í prinsippinu sé það bjánalegt) og til þess hef ég notað fokdýrar rakvélar og borgað hvítuna úr augunum fyrir eitthvert kvenlegt rakkrem. Eftir að klípan skall á, hefur verð á þessum varningi, sem dýr var fyrir, rokið upp úr öllu valdi. Í sturtunni í morgun uppgötvaði ég að svona rakkrem er algjör óþarfi, það er fullt eins gott að nota venjulega sápu. Hann afi minn rakaði sig alltaf þannig að hann lét fasta sápu freyða með rakbursta, bar hana á sig og skóf svo á sér kjammana. Segið mér, af hverju notar enginn fasta sápu lengur við rakstur? Raksápa í álbrúsa er hroðalega slæm fyrir umhverfið, fyrir utan hvað verðið á þessu drasli er fáránlega hátt. Rakstursbransinn, eins og reyndar allur útlitsiðnaðurinn, er uppfullur af gerviþörfum á uppsprengdu verði.
Spörum gjaldeyri og verum loðin. Eða notum umhverfisvæna og ódýra sápu. Eða gefum kallinum rafmagnsrakvél (ég keypti eina slíka handa mínum um daginn). Sem minnir mig á að dóttir mín sagði mér frá ógnvekjandi rafmagnstæki sem togar hár úr slíðri, eitt og eitt í einu. Sérhannað fyrir konur til að berjast við hárin sem þær hafna. Kvenmenn eru masókistar upp til hópa.
Guð blessi Ísland.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli