Sit á skuggsælum bar og drekk g & t, borða hnetur og bíð eftir að Elstabet og Yngstabet snúi aftur úr Oxfordstræti. Ég er sjerpi ferðarinnar, rogaðist með mýmarga poka upp á hótel. Velti fyrir mér hver kaupir í gegnum dóttur mína og hvað hafi orðið af henni Ástu, þessari búðarfælnu og listhneigðu ungu stúlku.
Hljóta að teljast tíðindi að mér var boðið í BNTM partí fyrsta daginn hér. Það var verið að undirbúa töku ("fashion shoot") fyrir þáttinn í næsta húsi við hótelið, ég var eitthvað að forvitnast og glaðhlakkalegur dyravörður bannaði mér að taka myndir en bauð mér þess í stað í partí sem haldið var um kvöldið.
Verkamannaþéttni er býsna mikil í Lundúnum (þarna voru um hundrað gulir menn á smábletti, hef ekki hugmynd hvað þeir voru að bedríva og ákvað að sleppa því að spyrja, vegna yfirvofandi hættu á að vera boðið í enn eitt partíið).
Drakk kaffi úr bolla sem var stærri en hausinn á mér og mun verra á bragðið.
Afmælisbarnið sjötuga, Elísabet Ásta, og Ásta mín Heiðrún Elísabet í undirgrundinni.
London er hávaðasöm. Umferðin, mannmergðin, mengunin. Fjölbreytileiki mannlífsins yfirþyrmandi. Alveg klárt að ég er meira fyrir fjöll en stórborgir svona heilt yfir.
Já, og mamma mín er sjötug í dag. Hún er yndisleg kona og fyndin og skemmtileg og sjaldan skömmótt. Ég er að spá í að kenna henni tunglgöngusporið á eftir, svona í minningu Michaels Jackson.
Sjerpinn kveður að sinni. Veriði stillt elskurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli