sunnudagur, júní 21, 2009

"Við"

Kunningjakona mín býr með fjölskyldu sinni í pínulítilli íbúð í "fínni götu" í 101. Þau búa þröngt og hafa úr litlum efnislegum gæðum að moða. Í næsta nágrenni, við sömu götu, stendur reisulegt sprilljón fermetra hús, glæsikerrur í heimkeyrslunni, m.a. silfurlitur reinsróver éppi. Í þessu stóra húsi býr fólk sem kennt hefur verið við útrásina.

Núnú. Umrædd kunningjakona lenti á kurteislegu spjalli við útrásareiginkonuna um daginn, en sú var nýkomin úr langri siglingu um Karabíska hafið, kaffibrún og sælleg, klædd silfurlitum leðurjakka í stíl við éppann. Eitthvað barst talið að ástandi þjóðarbúsins og þá setti útrásarkvendið upp þjáningarsvip og dæsti þunglega, svo glamraði í gútsískartinu: "Æ, já. Vonandi lærum við eitthvað af þessu."

Engin ummæli: